Sífellt erfiðara

Það er sífellt erfiðara að átta sig á Pírötum, eða fyrir hvaða gildi þeir standa. Fram til þessa hafa þjóðaratkvæðagreiðslur verið eitt af þeirra helstu baráttumálum, í anda aukins lýðræðis.

Nú ber svo við að forsætisráðherra segir ákveðið málefni mjög vel tilfallið til þjóðaratkvæðagreiðslu, beinnar eða ráðgefandi. Þá stígur kapteinn Pírata á stokk og segir að þjóðaratkvæðagreiðsla geti aldrei komið frá valdhöfum! Segir að slíkar atkvæðagreiðslur verði alltaf að koma frá þjóðinni!

Nú fer um mann, svo að maður veit hvorki í þennan heim né annan. Hvað meinar kapteinninn? Eru handhafa valdsins ekki hluti þjóðarinnar? Eða verður öll þjóðin að kalla eftir slíkri atkvæðagreiðslu?

Kapteinninn telur það vald að vísa máli til þjóðarinnar vera svo mikið að valdhöfum sé ekki treystandi fyrir því. Hverjum er þá treystandi? Reyndar breytir engu hverjum sé treystandi fyrir að vísa máli til þjóðarinnar, hvort það eru valdhafar hverju sinni eða hvort þröngur hópur manna safnar undirskriftum. Það er niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu sem skiptir máli.

Þessi málflutningur kapteinsins er vissulega ruglingslegur, enda hafa þeir boðað að kæmust þeir til valda myndu þeir auka lýðræðið og vísa fleiri málum til þjóðarinnar. Það gæti reynst þeim erfitt, vera orðnir hluti valdhafa!

Reyndar skortir nokkuð á að Píratar efni þessi loforð sín, þar sem þeir þó hafa komist til valda. Fulltrúi þeirra innan borgarstjórnar hefur ekki enn sýnt nein merki þess að bera skuli málefni flugvallarins undir borgarbúa eða landsmenn, jafnvel þó tæplega 70.000 manns hafi lýst yfir andstöðu við ætlun borgaryfirvalda.  

Það er vonandi, svona fyrir kapteininn sjálfan og hans flokk, að þessi orð hafi fallið í einhverskonar mánudagsmorgunveiki, að meiningin hafi ekki verið nein, að pirringur hafi valdið því að þessi orð duttu fram fyrir varir hans. Hann mun væntanlega leiðrétta þetta fljótlega, svo hugsanlegir kjósendur Pírata standi nú ekki alveg á gati.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þá er enn erfiðara að skilja afstöðu Pírata í borginni til flugvallarins.  Öll þjóðin vill þennan flugvöll á þessum stað.  Það þarf ekki einhverjar hundakúnstir í forsætisráðherra til að sjá í gegnum Píratana.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.1.2016 kl. 12:01

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Gunnar hvernig væri að lesa orginal færsluna hérna http://blog.piratar.is/helgihrafn/

Það vill svo til að við þurfum ekkert á pólitískum spunaköllum hjá Vefpressunni að halda,(málgögnum Framsóknarmanna) til að taka afstöðu til manna og málefna. Ég held að skynsamur maður eins og þú áttir þig alveg á því sem Helgi Hrafn er að hugsa eftir lesturinn.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.1.2016 kl. 12:03

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ef Pressan er eitthvað sérstakt málgagn Framsóknarflokk er ljóst að sá flokkur þarf ekki óvildarmenn, Jóhannes.

Jú ég las pistil Helga Hrafns, geri yfirleitt slíkt ef hægt er, áður en ég fer að hamra á lyklaborðið. 

Það virðist vera sem skilningur okkar á skrifum Helga sé eitthvað mismunandi, en auðvitað sér hver gullið í eiginn garði. Eftir að athugasemd þín kom las ég pistilinn aftur, hélt að mér hefði yfirsést eitthva. Því miður sé ég ekki að ég geti með nokkru móti annað en staðið við pistilinn.

Gunnar Heiðarsson, 18.1.2016 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband