Það er ekki nóg að skipta bara um nafn

Nú virðist Landsbankinn vera búinn að skipta um nafn á sinni greiningadeild og kallar hana nú "hagsjá".

En það dugir skammt að skipta bara um nafn, ef sömu vinnubrögð eru viðhöfð. Allir þekkja sögu greiningadeilda bankanna og hvernig spár þeirra voru allt fram að hruni, sumar reyndu jafnvel að koma fram með bjartsýnisspá þó hrunið væri skollið á. Því miður hafa vinnubrögð þessara deilda innan bankanna ekkert breyst, enda horfa þær á heiminn út frá þörfum bankanna.

Þessi "hagsjá" Landsbankans sér fyrir sér að kaupmáttur hafi aukist um 3,5% síðastliðið ár, sér fyrir sér að stjórnendur og millistjórnendur hafa bara ekki fengið neitt meiri launahækkanir en almenningur og sér fyrir sér að afgreiðslufólk og fólk í þjónustugeiranum hafi fengið mestar kjarabætur á þessum tíma. Það þarf vissulega kjark til að koma fram með svona fullyrðingar, eða hreina og klára heimsku.

Almennir launþegar, sem þyggja laun samkvæmt kjarasamningum milli ASÍ og SA fengu á þessu tímabili 2,8% launahækkun, þannig að til að kaupmáttur þessa fólks hafi hækkað um 3,5% hljóta vörur og þjónusta hafað lækkað verulega. Ekki hef ég orðið var við slíkar lækkanir, þvert á móti.

Um launahækkanir stjórnenda og millistjórnenda þarf vart að fjölyrða, skattskrá segir til um þeirra laun sem annarra og þar kemur skýrt fram að laun þeirra hækkuðu verulega milli ára og þar var ekki verið að tala um einnar stafa tölu í prósentu, heldur tugi og jafnvel nokkra tugi! Kannski telja hagsjáendur að sú hækkun hafi öll komið til á fyrripart ársins 2013 og því ekki innan þess tímaramma sem þeirra sýn nær yfir. Það eru haldlítil rök.

Vera má að fólk í afgreiðslu- og þjónustustörfum hafi fengið eitthvað hærri launahækkun en sem nemur þeim 2,8% sem almenni kjarasamningurinn hljóðaði upp á. Það er þá af þeirri einföldu ástæðu að þessi hópur er á svo lágum launum að þeir nutu uppbótarinnar sem ætluð var þeim sem á lægstu laununum voru. Þeir sem voru á allra lægstu laununum gátu fengið alveg heilann 5.000 kall gegnum það ákvæði samningsins! Það er hætt við að hagsjáanda þætti slíkt lítil bót!

Traust almennings til bankakerfisins er ekki upp á marga fiska, eftir hrun. Margir töpuðu miklu í hruninu, sumir aleigunni og allir töluverðum peningum. Þegar bankakerfið var endurbyggt horfðu margir vonaraugum til þess að betur myndi verða farið nú en áður. Því miður var þetta nýja kerfi mannað að mestu með sama fólki og hafði verið í ábyrgðastöðum innan hins gamla, fyrir hrun. Ekki var það til að auka traust á kerfinu.

Framganga banka og lánastofnanna gegn almenningi er öllum kunn. Þar er einskis svifist og jafnvel dómar hæstaréttar hundsaðir. Ekki er það til að auka traust á kerfinu.

Það er frumskilyrði hvers fyrirtækis, svo það fái blómstrað, að hafa traust sinna viðskiptavina. Forgangsverkefni bankanna ætti því að vera að byggja upp þetta traust. Sem liður í því gætu þeir lagt niður sínar greiningadeildir og hagsjár. Í það minnsta sett á þetta fólk einhverskonar hljóðkút þannig að til þess heyrist ekki. Fyrirtæki sem hefur fólk á launum við það eitt að bulla í fjölmiðla, bulla um að fólk hafi það betra en raunveruleikinn segir því, getur ekki með nokkru móti unnið sér traust.

Samkvæmt speki hagsjáandanna þarf bara að hækka þeirra laun nógu mikið og allra sem fyrir ofan þá eru í fæðukeðjunni. Þá hækkar meðaltalskaupmáttur í landinu og allir ættu að vera ánægðir. Skítt með þá sem verða að þyggja laun samkvæmt kjarasamningum, skítt með þá sem lægstu launin hafa og skítt með þá sem eru komnir upp á velferðakerfið, eins og öryrkja og aldraða. 

 


mbl.is Laun stjórnenda ekki hækkað meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er heldur ekki sannfærandi að segja ég held, kannski og mig minnir, sérstaklega þegar þær fátæklegu tölulegu upplýsingar sem settar eru fram og hægt er að fletta upp eru rangar. Minni þitt er gloppótt, gáfnafarið lítið og raunveruleikaskerðing á frekar háu stigi, því hefði verið betra ef þú hefðir aflað þér alvöru gagna áður en þú hófst pistlaskrifin.

Hallgrímur (IP-tala skráð) 16.9.2014 kl. 18:42

2 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Hallgrímur- vinnur þú hjá banka ?

Erla Magna Alexandersdóttir, 16.9.2014 kl. 21:26

3 identicon

Nei Erla, mér finnst bara pirrandi að sjá staðhæfingar sem standast ekki og fullyrðingar sem þola ekki skoðun. Ég veit að það er ljótt af mér, margir leita huggunar í þeim heimi óraunveruleikans og það telst víst góðmennska að trufla ekki þegar fólk hefur slökkt á allri rökhugsun. Afsakaðu ónæðið.

Hallgrímur (IP-tala skráð) 17.9.2014 kl. 01:26

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvað af því sem ég segi stenst ekki skoðun, Hallgrímur?

Félagar innan þeirra stéttarfélaga sem standa að ASÍ eru nálægt eitt hundrað þúsund. Það er stór hluti vinnandi fólks í landinu og stæðsti hluti þess þarf að sætta sig við þau laun sem kveðið er á um í kjarasamningum sem ASÍ stendur að. Núgildandi kjarasamningur gaf þessu fólki 2,8% launahækkun á því tímabili sem hagsjáendur Landsbankans litu yfir. Það fólk hefur því fráleitt getað fengið kaupmáttaraukningu upp á 3,5%.

Það segir því að ef meðaltals kaupmáttur hefur verið 3,5% á þessu tímabili, hljóta aðrir hópa hafa fengið mun meiri launahækkun en sem nemur 3,5%, þ.e. aðrir hópar hafa þá fengið mun meira en félagsmenn þeirra stéttarfélaga sem standa að ASÍ.

Þarna eru því hagsjáendur að bulla. Það kemur þeim sem fengu einungis 2,8% launahækkun til lítls góða þó einhverjir aðrir hafi fengið meira, svo meðaltalið hækki. Svona bull er því einungis til þess fallið að ergja fólk og herða það fyrir komandi kjarasamninga.

Og talandi um fullyrðingar og staðhæfingar, þá er ljóst að þér tekst að koma þeim ágætlega fyrir í stuttri athugasemd, Hallgrímur, þó lítið fari fyrir rökum eða rökhugsun í þeim.

Gunnar Heiðarsson, 17.9.2014 kl. 07:54

5 identicon

2,8% launahækkunin var aðeins lágmarkshækkun taxtakaups hjá þeim sem voru með 285.000 eða hærri mánaðarlaun, ofaná það bættust aðrar hækkanir eins og orlofs og desemberuppbót og eingreiðsla fyrir janúar. Þeir sem voru undir 285.000 fengu 8.000 á mánuði og sérstök hækkun taxta undir 230.000 var 9.750 á mánuði en ekki "Þeir sem voru á allra lægstu laununum gátu fengið alveg heilann 5.000 kall". Og lágmarkslaun hækkuðu í 214.000. Þannig var hækkunin 2,8 til 5 prósent bara á tímakaupinu. Síðan voru nokkrir smærri hópar sem sóttu mun meiri hækkanir. 3,5% meðaltals kaupmáttaraukning þarf því ekki að vera neitt fráleit nema maður hundsi algerlega öll gögn og treysti á gloppótt mynni.

Að skoða skattskrá og launahækkanir 50 hæstu stjórnenda og millistjórnenda 2013 segir þér ekkert um laun launaþróun hjá hinum 5000 2014.

Það væri gott ef þú ynnir heimavinnuna áður en þú póstar en létir ekki lesendur þurfa að leiðrétta allt sem hugsunarlaust út úr þér vellur.

Hallgrímur (IP-tala skráð) 17.9.2014 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband