Hefur eitthvað breyst ?

Svo spyr Þorsteinn Pálson í vikulegum pistli sínum í Baugsbleðilnum.

Þessi spurning er ofarlega í hugum margra, hefur eitthvað breyst? Kannski Þorsteinn Pálsson geti frætt okkur um hvað hafi breyst frá því hann var sjávarútvegsráðherra og sagði þá að Íslandi væri betur borgið utan ESB, einkum vegna þeirrar staðreyndar að sjávarútvegsmálin muni fara undir stjórn ESB, en þeim ættum við að halda fyrir okkur. Það væri farsælast fyrir þjóðina. Hefur eitthvað breyst í þeim málum Þorsteinn?

Reyndar vill Þorsteinn halda sig nær í tíma, enda óþægilegt fyrir hann að hugsa of langt aftur þegar þessi mál ber á góma. Hann spyr hvort eitthvað hafi breyst frá því umsókn var lögð fram.

Vissulega hefur margt breyst. Fyrir það fyrsta var því haldið fram að hægt væri að sækja um aðild og skoða hvernig samning við fengjum. Í ljós hefur komið að slíkt er ekki hægt, umsókn felur í sér aðlögun, eitthvað sem enginn var tilbúinn að samþykkja.

Þá hefur eðli ESB breyst stórkostlega, við gildistöku Lissabonsáttmálans 1. des 2009. Auðvitað lá það fyrir þegar unsóknin var send til Svíþjóðar, en ekki víst að almenningur eða þingmenn hafi áttað sig á þeirri eðlisbreytingu ESB, á þeim tíma.

Fjárhagslegir erfiðleikar ESB landa, sérstaklega jaðarlanda eru nú orðinir stjarnfræðilegir. Ein hellstu rök aðildarsinna fyrir umsókninni var að undir skjóli ESB hefðum við sloppið mun betur frá hruninu en ella. Nú hefur hins vegar komið í ljós að svokallaðir hjálparpakkar ESB til þeirra landa sem verst standa eru ekkert annað en hefndarráðstafanir og það sem verra er, algerlega gagnlausir. Vegna þeirra logar nú Evrópa í mótmælum og ekki spurnig hvort heldur hvenær sýður upp úr. Eða, það sem verra er, að einhverjir óprúttnir menn nýti sér þessa stöðu til að komast að völdum, með skelfilegum afleiðingum. Jarðvegurinn hefur verið plægður fyrir slíka menn, þeir eiga bara eftir að nýta sér það!

Því hefur margt breyst Þorsteinn og það til hins verra.

Þá opinberar Þorsteinn enn og aftur tengslaleysi sitt við íslenska þjóð. Hann segir að Framsóknarmenn og Borgarafylking hafi snúist frá loforðum sínum um aðildarumsókn. Fyrir það fyrsta lofaði Framsóknarflokkur aldrei að sótt skyldi um aðild, þó nokkrum aðildarsinnum innan flokksins hafi tekist að opna svo þann kafla í stefnuskrá flokksins er um það mál fjallaði, að nokkrir þingmenn flokksins gátu kosið með aðildarumsókninni á þingi. Þessi breyting fór lágt og flestum kjósendur flokksins ókunnugt um að hún hefði átt sér stað. Það er nokkuð ljóst að þó fylgi Framsóknarflokksins hafi verið bágt í síðustu kosningum, hefði það verið enn verra ef kjósendur flokksins hefðu verið meðvitaðir um þessa breytingu á stefnuskránni.

Borgarafylkingin á ekki lengur neina þingmenn svo ekki er hægt að segja að þar hafi orðið einhver stefnubreyting.

Loks kemur kafli í grein Þorsteins undir fyrirsögninni "Rökfærslan". Loksins, loksins, nú átti að færa rök fyrir umsókninni, ekki seinna vænna. Eða hvað?

Kaflinn byrjaði vel, rök fyrir aðild eru færð fram, að vísu gamalkunnug rök sem flest standast vart skoðun. En þetta dugði stutt, eftir nokkrar línur er farið að tala um "hræðsluáróður" þeirra sem móti aðild eru. Þar fauk röksendarfærslan út í veðrið! Röksendarfærsan var komin yfir í gamalkunnugt skítkast.

Í þessum kafla fjallar Þorsteinn meðal annars um og kallar hræðsluáróður, þá möguleika okkar að koma á viðskiptasamböndum við Kína og Bandaríkin, en segir að málin hafi lognast útaf. Vissulega lognuðust þau útaf, í bili. Það vill nefnilega svo til að við erum í aðildarviðræðum við ESB og meðan er lítill tilgangur að kasta fjármunum í samningaviðræður við aðrar þjóðir. Sá samningur yrði einfaldlega marklaust plagg ef tekst að koma okkur undir hæl ESB. Því fer þó fjarri að þessar hugmyndir séu út af borðinu, þær verða örugglega teknar fram strax og þessu ESB bulli líkur.

Einnig segir Þorsteinn, í kaflanum sem hann kallar "rökfærslu" að það sé hræðsluáróður að Ísland taki meiri og afgerandi þátt í Norðurslóða verkefnum. Ég fæ ekki séð hvernig það geti verið hræðsluáróður, enda er þá yfirmaður hans, Össur, mesti hræðsluáróðurssmiðurinn. Hann hefur haft sig mest í frammi í þeirri umræðu.

Nú, eins og svo oft áður, sýnir Þorsteinn Pálsson ESB aðdáun sína og tengslaleysi við íslenska þjóð!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Flottur pistill hjá þér Gunnar.

Það er alltaf gaman að lesa pistla þar sem haldbær rök eru notuð og allt niðurneglt.

Ég hefði gaman af að sjá einhvern andmæla þessu, með góðum rökum.

Þeir sem eru ósammála þessu kunna nefnilega ekki að notast við rök, allavega flestir.

Jón Ríkharðsson, 29.5.2011 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband