Að sparka í liggjandi mann

Í tilefni þeirrar umræðu sem verið hefur um vanda bænda, ritar Margrét Jónsdóttir pistil í Fréttablaðið, þann 31. ágúst, síðastliðinn. Ekki kemur hún með neinar hugmyndir um lausn vandans, vill einfaldlega að bændur taki hann á sig og rúmlega það. Hún vill að beingreiðslum til bænda verði hætt að fulli. Ástæða þessa er að hennar trú er að sauðféð sé að éta upp landið okkar. Auðvitað má Margrét hafa sína trú og auðvitað má hún tjá sig um hana. En að koma með slík skrif núna, þegar bændur standa í ströngu við að leita sér leiða til að lifa af næsta ár, samhliða smalamennskum og réttum og því lítill tími til að svara trúboði Margrétar, er einna helst hægt að líkja við spörkum í liggjandi mann.

Allir vita að trúarbrögð ræna fólk of réttu ráði og ekki dettur mér til hugar að ég geti snúið Margréti og þeim sem henni eru samsinna, til rétts vegar. Nokkur atriði vil ég þó nefna, sem afsanna þessa trú.

 

Veðurfar

Við landnám var hlýrra hér á landi en nú og hafði verið svo um einhverjar aldir á undan. Upp úr 1200 fór að kólna og hélt svo áfram allt fram á tuttugustu öldina. Kaldast var frá sextándu öld og fram undir 1920. Það tímabil gjarnan nefnt litla ísöld. Frá lokum litlu ísaldar til dagsins í dag, hefur hlýnað. Það er ekki liðin ein öld síðan kuldinn hér á landi var svo mikill að hægt var að ganga milli Akraness og Reykjavíkur á ís!

Klárt mál er að meiri gróður var á landinu við landnám, enda við lok hlýtímabils á jörðinni, þó vísindamenn efist um að skógur hafi þakið landið milli fjalls og fjöru. Loftslag hefur mikil áhrif á gróður og því ekki undarlegt að honum hafi hrakað verulega á þeim öldum sem litla ísöld stóð yfir. Nú hefur gróður aukist aftur, samhliða hlýnandi loftslagi. Sem dæmi hefur sjálfsprottinn gróðurþekja, sem telst vera mikil þekja, aukist um 30% frá árinu 2002, á Skeiðarársandi.

Veðurfar er stór áhrifavaldur gróðurfars.

 

Eldgos

Frá landnámi hafa orðið 174 skráð eldgos á Íslandi. Sum stór önnur minni. Mörg þessara gosa hafa valdið miklum skaða á búpeningi og jafnvel fólki. Þar hafa Katla og Hekla verið duglegastar.

Tvö eldgos bera þó af í Íslandssögunni. Það fyrra varð árið 1362, í Hnappafellsjökli og lagði heila sveit í eyði, Litla Hérað. Þessi sveit var blómleg fyrir gos, fjölmenn og fjölbreyttur búskapur. Bar þó hæst mikil kornrækt í þessari blómlegu sveit, enda grasgefin milli fjalls og fjöru. Stór hluti búpenings drapst og fjöldi fólks fórst, í þessu eldgosi.

Þegar þeir sem eftir lifðu sneru til baka, til að byggja bú sín aftur, blasti við þeim auðn, öræfi. Sveitin hefur síðan borið nafnið Öræfasveit og eldfjallið sem eyðileggingunni olli, nafnið Öræfajökull.

Árin 1783-84 geisuðu Skaftáreldar. Þá sögu ættu allir Íslendingar að þekkja. Er þeim lauk, hafði 70% af búpening í landinu fallið og um 20% þjóðarinnar látist. Stór sá á gróðurfari um mest allt land og næst eldunum var hann ekki til

Eldgos er annar áhrifavaldur gróðurfars og saman með kólnandi veðurfari átti gróður hér á landi erfitt uppgangs.

 

Mannfjöldi, bústofn

Byggð var nokkuð fljót að komast á um allt land, efir landnám. Talið að fjöldi landsmanna hafi fljótlega náð einhverjum þúsundum. Lengi framanaf er talið að fjöldinn hafi legið á milli 10 og 20 þúsund manns, sveiflast eftir árferði og hvernig eldar loguðu.

Landnámsmenn fluttu með sér til landsins ær, nautgripi, hross, geitur, svín og hænsni. Nautgripir voru uppistaðan í kjötframleiðslunni, ásamt svínum, en ær voru lítið nýttar til þess, fyrst um sinn. Sauðfjárstofninn var lítill. Þegar tók að kólna varð svínabúskapur nánast útilokaður. Nautgripabúskapur varð erfiðari, en auðveldara var að halda sauðfé. Því jókst hlutur þess í kjötframleiðslu og nautgripir fyrst og fremst nýttir til framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða. Talið er að frá Sturlungaöld fram að 19. öld, hafi sauðfé í landinu verið nálægt 50.000 fjár, sveiflast í hlutfalli við fólksfjölda.

Þegar líða tók á 19. öldina fjölgaði fólki og samhliða því búpeningi, þó ekki í sama hlutfalli. Undir lok 19. aldar og fyrstu tvo áratugi þeirrar tuttugustu, voru miklir kuldar, eldgos og fjárfellir. Þetta er talin vera helsta ástæða vesturfaranna. Þá var mannfjöldi í landinu kominn upp í 70.000 og talið að a.m.k. 15 til 20.000 manns hafi flutt búferlum vestur um haf.

Frá 1920 til dagsins í dag, hefur landsmönnum fjölgað mjög hratt, Samhliða því fjölgaði sauðfé í landinu, þó hægar og undir lok áttunda áratugarins náði fjöldi sauðfjár hámarki, um 800.000 fjár. Síðan hefur fé fækkað um rúmlega 40%.

Þegar skoðað er hvernig fjöldi fjár á Íslandi skiptist milli landshluta, kemur í ljós að flest fé er á vestan verðu norðurlandi, en fæst á eystri hluta norðurlands. Kannski finnst einhverjum þetta undarlegt, þar sem gróðurfar finnst vart betra í nokkrum landshluta en vestanverðu norðurlandi og að landfok er vart hægt hægt að finna meira á landinu en einmitt eystri hluta norðurlands. Rétt er að benda á að vestari hluti norðurlands hefur sloppið best gegnum þau 174 eldgos sem orðið hafa frá landnámi og því nær eingöngu þurft að berjast við kuldann á litlu ísöld, meðan eystri hluti norðurlands hefur þurft að glíma við báða þessa vágesti, gegnum aldirnar.

Mikið átak hefur verið unnið í landgræðslu. Þar eiga bændur stærstan heiðurinn, enda verið erfitt að sækja fé í ríkissjóðs til slíkra verka, gegnum tíðina. Það sem ríkið hefur lagt fram er fyrst og fremst stjórnun og utanumhald landgræðslu. Verkin og hráefni hafa bændur að mestu lagt fram og oftast í sjálfboðavinnu og fyrir eigin reikning

Það er ljóst að sauðfé á minnstan þátt í gróðureyðingu, enda fátt fé í landinu allt fram undir síðustu öld. Náttúruöflin spila þar stærstan sess. Auðvitað má einnig segja að koma mannskepnunnar til landsins spili þar eitthvað inní, sér í lagi fyrstu ár byggðar. Sjálfsagt hafa landnámsmenn sótt sér sprek í eldinn og unnið eitthvað timbur. 

Þó er erfitt að fullyrða að gróðurþekja landsins væri meiri, þó landið hefði aldrei byggst.


Bloggfærslur 3. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband