Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Réttarríkið Ísland?

Þegar sjálfur forsetinn tjáir sig um órannsakaðar ásakanir er ekki annað hægt en rita nokkur orð. Ætlaði ekki að skrifa neitt um svokallað Samherjamál, enda hef ég ekki leyfi til að dæma einn né neinn. Það hefur þú ekki heldur lesandi góður og ekki heldur Helgi Seljan, hvað þá forsetinn.

Það er orðin stór spurning hvort við búum í réttarríki hér á landi. Hornsteinar réttarríkisins eru að hver telst saklaus uns sekt er sönnuð, að lögregla rannsaki, að saksóknari sæki og að dómstólar dæmi. Ítrekað hefur fréttastofa ruv, í samvinnu við blaðsnepil sem sérhæfir sig í gróusögum, brotið þessi gildi, stundum haft eitthvað satt fyrir sér en oftar farið með fleipur. Ætíð hafa menn verið fljótir að dæma, sér í lagi sumir stjórnmálamenn. Sjaldnast er beðist afsökunar þó í ljós komi að um gróusögu var að ræða og hafa sumar fjölskyldur þurft að eyða stór fé í að sækja sinn rétt fyrir dómstólum, eftir að fyrirtæki þeirra eða mannorð var drepið. Það ber nýrra við að forsetinn skuli skipa sér á sess með þessum dómurum götunnar.

Vissulega er það svo að víða má betur fara og á það við um ansi margt. Mútur geta verið í öðru formi en peningum og ættartengsl og vinskapur getur vart tæpast talist glæpur.

Nú veit ég auðvitað ekki hvort Samherji er sekur eða saklaus, það munu réttmætir valdhafar skera úr um. Þar til að því kemur er best að tjá sig sem minnst. Hitt er ljóst að þær upphæðir sem nefndar voru í þætti Helga Seljan eru af þeirri stærðargráðu að nánast er útilokað að þær geti staðist, að sú rannsókn sem fyrirtækið hefur verið undir til margra ára hafi ekki leitt í ljós eitthvað misdægurt. Fyrir nokkrum árum var Samherji tekinn til rannsóknar, ekki bara hér á landi heldur líka erlendis, einnig í Namibíu.

Og inn í þetta er síðan fléttað fiskveiðistjórnkerfinu. Vissulega er það ekki gallalaust. Kannski einn stærsti gallinn framsal kvóta, verk eins fyrrum sjávarútvegsráðherra sem nú hneykslast á Samherja. En það framsal hefur lagt í eyði heilu byggðalögin og þjappað kvótanum á fáar hendur. Þeir sem muna hvernig var áður, þ.e. meðan bæjarútgerðir og ríkisútgerðir voru við lýði, muna að þá var ekki mikið sem fiskveiðar gáfu í ríkissjóð. Sjóðstreymi hans varðandi fiskveiðar var yfirleitt á hinn veginn. En vissulega má laga það kerfi sem nú er notast við, þá hellst til að styrkja smærri útgerðir. Því miður hefur stjórnmálamönnum ekki tekist að koma fram með slíkar hugmyndir, þær breytingar sem nefndar hafa verið til þessa hafa ætið verið á þann veg að stóru útgerðirnar hefðu hagnast enn frekar. En þetta mál kemur ekkert við því sem nú er mest rætt og menn duglegastir við að dæma í.

Eins og áður segir þá geta mútur verið í öðru formi en peningum. Þetta dettur manni í hug þegar á markaðinn er nú send bók, rituð af þeim sem stjórnaði svokallaðri rannsókn á Samherja, um sama efni. Þessi bók kemur á markað um viku eftir þátt ruv, svo ljóst er að nokkuð er síðan hún var skrifuð. Víst er að þessi bók selst nú í tonnum talið og ljóst að höfundur mun hagnast verulega á henni. Eru það mútur? Ef ekki, hvað þá? Og hvað með að liggja á gögnum um glæp? Ber ekki öllum skilda til að færa slík gögn til tilþess bærra yfirvalda, svo skjótt sem þau koma í hendur fólks? Það hlýtur að teljast glæpur að leyna gögnum þar til vel stendur á hjá þeim sem sem með gögnin eru, jafnvel peningalegt spursmál!

Annað dæmi má nefna, en það er tilskipun ESB um stjórn orkumála (op3). Hvernig stóð á því að flestir stjórnarþingmenn, sem verið höfðu á móti samþykkt þessarar tilskipunnar, skiptu allir um skoðun á einum degi, eftir að forsætisráðherra annars lands hafði komið hingað í heimsókn. Skiptu einhverjir fjármunir eða eitthvað annað um hendur í þeirri heimsókn? Sé svo voru það vissulega mútur. Ekki var ruv neitt að skoða þetta, reyndar þvert á móti. Þó var þar um að ræða mál sem er af allt annarri og stærri gráðu. Mál sem snertir alla landsmenn hressilega um alla framtíð. Mun gera lífsskilyrði landsmanna mun verri.

Svona mætti lengi telja og vel er hugsanlegt að Samherji hafi greitt einhverjar mútur í Afríku. Svo getur allt eins verið víða og að fleiri aðilar hafi stundað svo. Til Afríku er erfitt að selja eða koma með fyrirtæki nema einhverjir peningar skipti um hendur. Og þetta á við víðar. Eru það t.d. mútur þegar fyrirtæki kaupa verslunarpláss í verslunum, fyrir sínar vörur? Þar getur oft verið um nokkra upphæð að ræða.

 

Þetta er spurning um hvort við viljum áfram lifa við réttarríki hér á landi, eða hvort við ætlum að færa rannsókn og saksókn til fjölmiðla og láta síðan dómstól götunnar sjá um að dæma. Það væri ansi langt skref afturábak.


mbl.is Óverjandi framferði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem máli skiptir

Hvort verðið er of hátt eða ekki má endalaust deila. En það er þó ekki það sem skiptir máli, heldur hitt hvernig við ætlum að nota orkuna. Hvort við ætlum áfram að nýta hana til virðisauka hér innanlands eða hvort við viljum að virðisaukinn flytjist úr landi. Sjálf krónutalan fyrir hverja MW/h mun ætið verða deiluefni, seljanda þykir hún of lág, kaupandanum of há og svo koma alltaf einhverjir sem telja sig geta grætt á öðru hvoru og útvarpa speki sinni eftir því hvað hentar.

Það er ljóst að stóriðjan hefur fram til þessa greitt nægjanlega hátt verð fyrir orkuna og reyndar gott betur. Upp undir 80% raforkunnar sem hér er framleidd er seld stóriðjunni og það verð sem hún greiðir hefur dugað til að greiða allan virkjanakostnað á landinu. Reyndar gott betur. Þetta sýna ársreikningar orkufyrirtækjanna glöggt. Landsvirkjun er t.d. farin að skila vænum hagnaði þrátt fyrir að hækkanir á orkuverði til stóriðju séu rétt að taka gildi núna þessa dagana. Og ekki er hægt að tala um að almennir notendur séu að niðurgreiða orkuna, verðið hér á landi mun lægra en erlendis. Það er hins vegar nýmæli að Landsvirkjun hefur ekki boðið upp á svokallaða umframorku um nokkuð skeið, þá orku sem til þarf að vera vegna álagstoppa annarra notenda en stóriðjunnar. Frekar en að selja þá orku á lægra verði velur Landsvirkjun að láta þá orku ónýtast í kerfinu. Þetta bitnar ekki hvað síst á garðyrkjubændum. Ríkissjóður hefur aldrei þurft að leggja orkufyrirtækjum til eina krónu, allt frá því uppbygging kerfisins hófst fyrir alvöru á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar. Sú uppbygging gat hafist með tilkomu stóriðju hér á landi. 

Ekki ætla ég að elta ólar við ummæli forstjóra Landsvirkjunar. Hann virðist lokaður í eigin heimi. Jafnvel þó eðlilegt sé að hann keppist að sem hæstu verði, verður að segjast að skynsemi virðist alveg gleymt að planta sér í kolli hans.

Vill Bigg, formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið duglegur að benda á hvaða rugl er í gangi innan Landsvirkjunar. Fyrir það hafa sumir reynt að tengja hann við stóriðjuverin, sagt hann handbendi þeirra. Það er þó stór misskilningur, Villi er einungis að hugsa um þau þúsundir starfa sem eru í húfi á starfssvæði hans, enda hlutverk formanna verkalýðsfélaga að standa vörð um störf sinna félagsmanna. Forstjóri Landsvirkjunar undrar sig á að formaður verkalýðsfélags skuli hafa einhverja hugmynd um þá hækkun sem Elkem þarf að sæta, að um málið hafi átt að ríkja þagnarskylda. Það þarf helvíti skerta hugsun til að geta ekki áttað sig á hver sú hækkun er, svona nokkurn vegin, þegar þagnarskyldan náði einungis yfir krónutöluna en ekki prósentuna. Ársreikningur fyrirtækja er opnir, svo auðvelt er að reikna dæmið. En kannski er þetta of flókið fyrir forstjórann.

Annar maður hefur nokkuð blandað sér í umræðuna, Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri hins norska vindorkufyrirtækis Zephir Iceland. Titill mannsins segir kannski meira en nokkuð annað um hans áhuga á raforkuverði hér á landi, er vissulega að vinna vinnu sína. Þar að auki hefur Ketill verið einn helsti talsmaður þess að sæstrengur verði lagður úr landi og hefur ritað margar mis viturlegar greinar um það efni, auk þess að vera gjarnan kallaður fram af fjölmiðlum sem "ráðgjafi" á því sviði. Hafi fréttamaður viljað tefla fram fleiri sjónarmiðum um málið en forstjóra LV og formanns VLFA, skaut hann vel yfir markið. Harðari andstæðing þess að virðisauki orkuauðlindarinnar verði til hér á landi er sennilega vandfundinn. Hjá honum er eitt megin stef, verðið á raforkunni er aldrei nægjanlega hátt.

En aftur að virðisaukanum af raforkuframleiðslunni. Í stóriðjunni starfa kringum 4000 manns, beint. Þann fjölda má nánast tvöfalda til að fá út hversu margir hafa óbeina afkomu af stóriðjunni. Því til viðbótar má síðan bæta við að fjöldi fólks hefur afkomu af því að þjóna þá sem þjóna stóriðjuna. Því er ekki fráleitt að ætla að á milli 15 og 20.000 manns byggi afkomu sína að öllu eða einhverju leiti á stóriðjunni. Störf í stóriðju er vel borguð, laun þar yfirleitt nokkuð hærri en sambærilegum störfum annarsstaðar. Þessi launaþróun hefur smitast til þeirra fyrirtækja sem standa í beinni þjónustu við stóriðjuna. Allt þetta fólk borgar skatta og gjöld. Ef stóriðjan leggst af er vandséð að allir fengju vinnu. Margir yrðu upp á samþjónustuna komnir. Væru farnir að tálga fé úr sameiginlegum sjóðum í stað þess að leggja til þeirra.

Seint á síðustu öld kom í ljós að elsta stóriðjufyrirtækið hafði stundað bókhaldsbrellur, til að komast hjá skattgreiðslum hér á landi. Þetta var vissulega ljótur leikur og setti blett á starfsermi stóriðjunnar. Þetta atriði er eitt af því sem sumir nota sem rök gegn stóriðjunni, enn þann dag í dag. Halda því fram að stóriðjan stundi enn þennan leik. Ekki ætla ég að gerast dómari í því, en tel slíkt ákaflega ótrúlegt, einkum vegna þess að sennilega eru fá fyrirtæki sem eru undir jafn mikilli smásjá skattyfirvalda og stóriðjan. Hins vegar eru stóriðjufyrirtækin ein þau öflugustu í að að skila gjaldeyri inn í landið. Og gjaldeyrir verður ekki til af engu. Það er hætt við að draga þyrfti verulega úr innflutningi til landsins ef stóriðjan leggst af, að neysluþjóðfélagið fengi hressilegan skell. Jafnvel gæti komið upp skortur á kaffi í kaffihúsum miðborgarinnar!

Orkustefna Landvirkjunar er galin. Ekki bara að stóriðjan standi frammi fyrir því að taka ákvörðun um áframhaldandi veru hér á landi, heldur stendur garðyrkjan í ströngu í samskiptum við orkufyrirtækin. Sem fyrr segir hefur Landsvirkjun tekið af markaði svokallaða umframorku. Þessa orku var hægt að fá á mun lægra verði þegar orkunotkun var lítil í landskerfinu, gegn því að láta hana af hendi þegar orkunotkun var mikil. Þessa orku vill Landsvirkjun frekar láta detta dauða niður og fá ekkert fyrir hana, frekar en að nýta hana og selja á lægra verði. Þetta er svo sem ekkert gífurlegt magn, þar sem orka til stóriðju er mjög jöfn allan sólahringinn alla daga ársins. Því er þarna um að ræða umframorka sem verður að vera til í kerfinu til að taka á móti toppum í orkunotkun annarra notenda, þ.e. orkutoppar fyrir notendur um 20% orkuframleiðslunnar. Þó þarna sé um lítið magna að ræða, af heildar orkuframleiðslunni, þá hentar þetta vel garðyrkjunni og ýmsum öðrum stærri notendum utan stóriðjunnar.  Í raun má segja að aðgengi að slíkri afgangsorku sé forsenda þess að stunda garðyrkju hér á landi. Bræðsluverksmiðjur hafa einnig orðið illa fyrir barðinu á þessari stefnu Landsvirkjunar. Fyrir nokkrum árum var gert stór átak í að breyta bræðsluofnum þeirra úr hráolíu yfir í rafmagn. Um svipað leyti og þeim breytingum lauk hætti Landsvirkjun sölu á umframorku. Flestar bræðslur keyra því meira eða minna áfram á olíu, svo fáránlegt sem það hljómar.

Því hefur verið haldið fram að Landsvirkjun vinni markvisst að því að hækka orkuverð til að koma stóriðju úr landi og hafi af sömu ástæðu hætt sölu umframorku. Að markmiðið sé að losa um svo mikið af orku hér innanlands að næg orka fáist í fyrsta strenginn til útlanda. Sé þetta rétt er ljóst að forstjóri og stjórn Landsvirkjunar er komin langt út fyrir sitt starfssvið, séu farin að taka pólitískar ákvarðanir. Við svo má ekki una.

Það mun reyna á þingmenn á næstu misserum. Ljóst er að formanni VLFA hefur tekist að koma þessu máli í umræðu. Atvinnumálanefnd alþingis hlýtur að kalla forstjórann fyrir sig, fá skýringar á málinu. Þá hlýtur viðkomandi ráðherra vera farinn að spá í að skipta út stjórn og forstjóra Landsvirkjunar. Þeir þingmenn sem láta það viðgangast að frekar verði horft til þess hvort hagnaður Landsvirkjunar verði látin ráða för í stað þess að fólk hafi atvinnu, þurfa ekki að leita eftir stuðningi í næstu kosningum. Þeirra verður ekki óskað.

Ef ekkert verður gert og jafnvel þó engar frekari hækkanir komi til, er ljóst að innan fárra ára mun stóriðjan leggjast af, með tilheyrandi skelfingu fyrir heilu byggðalögin.

Það sem máli skiptir er ekki hversu hár hagnaður orkufyrirtækja er, meðan þau reka sig ekki með tapi. Það sem máli skiptir er hvort við viljum láta virðisauka þessarar orkuauðlindar verða til hér á landi, eða hvort við viljum að aðrar þjóðir njóti hans. Það sem skiptir máli er hvort við viljum áfram hafa stóriðjuna og þau fjölmörgu störf sem henni fylgja, eða hvort við viljum hafa atvinnuleysi af stærðarfgráðu sem aldrei hefur þekkst hér á landi. Það sem skiptir máli er hvort við viljum áfram njóta þess gjaldeyris sem stóriðjan færir landinu, eða hvort við viljum frekar herða sultarólina.

 


mbl.is Er verðið óeðlilega lágt eða of hátt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannamatur?

Framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu fer mikinn þessa daganna. Krefst hann rannsóknar á sláturleyfishöfum og gefur jafnvel í skyn að eitthvað samráð sé milli þeirra, nefnir jafnvel lögbrot, þar sem verslun milli þeirra með lambahryggi hefur átt sér stað. Slík verslun er jú nauðsynleg til að sinna þörfum verslana.

Hitt er rétt að skoða, hvort sláturleyfishafar hafi farið offari í sölu á hryggjum úr landi, eða hvort einungis hafi verið seldir smáhryggir, sem verslanir hér hafnar.

Enn frekar ætti þó að rannsaka verslanir. Heyrst hefur að þær hafi tekið til sín mun meira magn af hryggjum síðustu mánuði og spurning hvort markvisst hafi verið unnið af því, af hálfu verslana, að búa til skort á hryggjum. Þetta er auðvelt, einungis þarf að skoða bókhald þeirra og bera saman pantað magn við selt. Ljóst er að verslanir hafa nægt frystipláss, úr því þær geta pantað til landsins 55 tonn af hryggjum frá Ástralíu/Nýja Sjálandi. Einnig þarf að skoða, út frá lögfræðilegu sjónarmiði, hvort verslunum sé yfirleitt heimilt að panta kjöt til landsins, áður en heimild frá ráðherra liggur fyrir.  

Verið er að flytja inn kjöt þvert yfir heiminn, kjöt sem komið er á þriðja ár, eða frá sláturtíð 2017. Sláturtíð andfætlinga okkar er jú á þeim tíma er lömbin fæðast hjá okkur, svo þetta kjöt er væntanlega að verða tveggja og hálfs árs gamalt. Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem illa hefur gengið að fá verslunina til að kaupa kjöt af íslenskum sláturhúsum, sem orðið er eins árs. Væntanlega hafa verslanir fengið þetta kjöt með góðum afslætti, þar sem fyrir hefur legið að farga því.

Þetta kjöt á samt að setja í verslanir hér á landi og það ekkert smá magn, 55 tonn. Þarna er nokkuð vel skotið yfir markið. Í fyrri tilmælum ráðgjafanefndar um inn og útflutning á landbúnaðarvörum var talað um að skortur gæti orðið á hryggjum fram að sláturtíð og nefnt þar mánaðarmótin ágúst september. Sláturtíð hefur hafist hér á landi um miðjan ágúst um nokkurra ára skeið, þannig að ekki virðast nefndarmenn vita mikið um það málefni sem þeir eiga að gefa ráðgjöf um og kannski rétt að skoða hana líka. En hvað um það, nefndin talaði um skort í allt að einn mánuð og á það hengja SVÞ sig. Í venjulegu árferði er neysla á lambahryggjum hér á landi innan við 10 tonn á mánuði, eða innan við einn fimmti af því magni sem pantað var erlendis frá. Þetta er náttúrulega galið, sér í lagi þegar verið er að tala um svo gamalt kjöt að það hentar best til moltugerðar!

Hverju megum við neytendur svo búast? Fram til þessa hefur maður getað tekið lambakjötið í verslum beint í körfuna, höfum ekki þurft að taka upp pakkninguna, setja á okkur gleraugun og finna í smáletrinu upprunalandið, eins og þarf að gera við kaup á svínakjöti, kjúklingum og nautakjöti. Maður hefur gengið að því vísu að lambakjötið er Íslenskt. Nú mun það breytast, eða hvað? Verður kannski ekkert upprunaland sett á pakkningarnar? Ekki mun verð segja til um hvort það er íslenskt eða erlent, jafnvel þó það sé tollað. Þar ræður fyrst og fremst að grunnverð á eldgömlu kjöti hlýtur að vera mjög lágt, ef þá eitthvað.

Því er það áskorun á sláturleyfishafa og íslenska kjötvinnslu að merkja rækilega allt íslenskt lambakjöt. Þannig mun verða hægt að forða fólki frá að éta eldgamalt kjöt sem að öllu jöfnu væri ekki talið mannamatur.

 


mbl.is Kjötið fer í búðir á fullum tolli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbrot eiga ekki að líðast

Framkvæmdastjóri verslunar og þjónustu segir okkur fréttir af því að tugir tonna af erlendum lambahryggjum séu á leið til landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem ráðherra hefur ekki heimilað slíkan innflutning. Reyndar þvert á móti, þá hefur ráðherrann vísað tilmælum ráðgjafanefndar um inn og útflutning landbúnaðarvara til heimahúsanna og óskað eftir að nefndin endurskoði tillögu sína. Enda nægt kjöt til í landinu.

Kannski telja SVÞ sig utan laga og reglna í landinu, að það nægi að fífla einhverja embættismenn til fylgilags við sig.

Allt er þetta mál hið undarlegasta og engu líkara en að félagsmenn SVÞ hafi verið búnir að versla kjötið erlendis áður en nefndin gaf út úrskurð sinn. Hafi dottið niður á einhverja útsölu. Þá er magnið sem Andrés nefnir ótrúlegt, jafnvel þó svo einhver skortur hefði verið þessar tvær vikur sem eru til fyrstu slátrunar hér heima. Tugir tonna af hryggjum er nokkuð vel í lagt og ljóst að verslunin ætlar þarna að búa sér í haginn.

Það er vonandi að ráðherrann svari þessu á viðeigandi hátt og láti endursenda kjötið úr landi jafn skjótt og það birtist. Lögbrot eiga ekki að líðast!

Ef Andrés  er í einhverjum vandræðum með að fá hrygg á grillið hjá sér þá á ég a.m.k. tvo í kistunni hjá mér og gæti alveg selt honum þá, ef hann er tilbúinn að borga viðunnandi verð.

 


mbl.is Hryggir á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu

Skúla virðist hafa tekist að reka tréflís í gatið á skektunni, í von um að takast að róa í land áður en hún óhjákvæmilega sekkur.

Það verður að segjast eins og er að Skúli er nokkuð sleipur í viðskiptum. Eftir að hafa kafsiglt einu flugfélagi tekst honum að fá hluta kröfuhafa til að breyta skuldum í hlutabréf. Síðan er ætlunin að selja rest. Sjálfur mun Skúli væntanlega labba frá þessu óskaddaður en hinir nýju hluthafar þurfa að bera skaðann. Fyrirtækinu verður ekki bjargað, dauðastríðið einungis lengt.

Það er annars magnað hvað einum manni getur tekist að valda miklum skaða. Hvað eitt lítið flugfélag getur haft áhrif á kjör margra einstaklinga, sem jafnvel aldrei hafa komið nálægt vélum þess flugfélags eða haft nokkur afskipti af því á nokkurn hátt.

Samkvæmt fréttum mun verða verðbólguskot, ef WOW með sínar skuldir verður látið rúlla. Slíkt verðbólguskot mun þó ekki hafa áhrif á fjármagnskerfið í landinu, heldur fyrst og fremst það fólk sem er að reyna að koma yfir sig þaki, eignast íbúð. Það fólk mun bera allan þunga af þeim skaða sem einn maður hefur valdið.

WOW skuldar rúma 20 milljarða. Sagt er að verðbólgan geti farið upp í 6% við fall fyrirtækisins. Gangi það eftir munu skuldir heimila landsins hækka rúma 50 milljarða. Þannig að fjármagnsöflin munu græða um 30 milljarða á þessu!

Þetta er hreint út ótrúlegt, svo ekki sé meira sagt. Hvernig í ósköpunum er þetta hægt?

Þetta sýnir hversu arfavitlaus verðtrygging lána er. Þar breytir engu hversu ábyrgir lántakendur eru, hversu duglegir þeir eru að standa við sínar skuldbindingar eða hversu gott veð liggur að baki lánum. Einn maður, fullur að uppskrúfuðum loftdraumum, knúinn áfram af óstjórnlegu egói, getur rústað lífi fjölskyldna landsins á einu bretti.

Ég hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu!!


mbl.is „Erum að vinna þetta mjög hratt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Evu klæðum

Mail online flutti heimsbyggðinni nokkuð sérstæða frétt í morgun. Þar segir að breska verslunarkeðjan Boohoo ætli að hætta sölu á fötum sem innihalda ull af einhverju tagi, bannið tekur gildi hjá þeim í haust. Ástæðan er að dýraverndunarsamtökin PETA telji rúning áa vera dýraníð!

Þá vaknar spurning; hvernig skal framleiða föt? Í flestum fötum er ull af einhverju tagi þó hún hafi vissulega vikið nokkuð fyrir plastefnum. Varla viljum við þó framleiða fötin úr plast, þessu baneitraða efni sem allstaðar er verið að banna!

Þá eru einungis nýju föt keisarans eftir, öðru nafni Evuklæðin. Mannskepnan verður bara að vera nakin!

PETA samtökin fara þarna offari, svo vægt sé til orða tekið. Það er ekki dýraníð að rýja ærnar, hins vegar er það sannarlega dýraníð að gera það ekki og getur það leitt skepnuna til dauða. Það hefur eitthvað skolast til í haus þeirra hjá PETA sem fullyrða svona bull.

Og ekki er hitt skárra, að virt verslunarkeðja skuli taka undir þessa vitleysu. Það verður gaman að koma í verslanir þeirra á hausti komandi, einungis tóm herðatrén á fataslánum.

Það er vandlifað í henni veröld. Barnaskapur og fáviska virðast vera að ná völdum á öllum sviðum.

Hvað næst?!!


Hvað með væntanlegt tap?

Viðsnúningur í rekstri VÍS er nokkuð afgerandi. Ætla mætti að skýringin fælist í einhverri byltingu í rekstri þessa fyrirtækis. Og vissulega hefur orðið mikil bylting í rekstri VÍS, þó sú bylting skýri alls ekki þennan gróða fyrirtækisins. Afleiðingar þeirrar byltingar mun koma fram síðar, kannski að einhverju leyti á fjórða ársfjórðungi þessa árs en að fullu á því næsta. Þá mun rekstur VÍS fara hratt versnandi og tapið á fyrstu ársfjórðungum síðasta árs verða sem hismi samanborið við það tap sem verður sömu ársfjórðunga næsta árs.

Þegar þjónustufyrirtæki ákveður að rýra þjónustu við sína viðskiptavini og jafnvel leggja hana af, mun það að sjálfsögðu tapa þeim. Þetta gerði þjónustufyrirtækið VÍS um síðustu mánaðarmót, þegar það ákvað að stór hluti landsbyggðarinnar væri ekki þess verður að eltast við. Því munu flestir þessara viðskiptavina þess hætta viðskiptum og leita annað, jafn skjótt og gildandi samningar renna út.

Þar með hefur VÍS tapað mörgum bestu viðskiptavinum sínum, viðskiptavinum sem hafa verslað við þetta fyrirtæki í áratugi, viðskiptavini sem hafa verið einstaklega hagstæðir VÍS. Eftir sitja þeir sem kosta VÍS mest, eins og bílaleigur og fleiri slík fyrirtæki.

Það er alveg magnað hvað sumir geta spilað allt úr höndum sér og ljóst að stjórnendur VÍS eru þar engir eftirbátar.

 


mbl.is 910 milljóna hagnaður VÍS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna?

Hvers vegna þarf að hlíta þessum dómi EFTA dómstólsins? Hann var dæmdur út frá röngum forsendum!

EFTA dómstóllinn dæmdi í þessu máli út frá verslunar- og þjónustukafla EES samningsins, ekki landbúnaðarkaflanum. Samkvæmt landbúnaðarkaflanum hefði dómstóllinn ekki getað komist að sömu niðurstöðu, enda sérstaða Íslands í landbúnaðarmálum kristal skýr í þeim kafla.

Atvinnuvegaráðuneytið þarf því engan aðlögunartíma, þarf einungis að tilkynna til Brussel að Ísland hyggist ekki ætla að taka þennan dóm til greina, á þeirri forsendu að dómurinn hafi verið kveðinn upp á röngum forsendum. Láta síðan á það reyna hvort einhver eftirmál verða.

 


mbl.is Þörf á nokkurra ára aðlögunartíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að búa til sparnað með kúluláni

Það er nú þannig frú Þorgerður að allir gjaldmiðlar eru góðir meðan maður á þá og jafnframt slæmir þegar þeir eru í skuld. Krónan okkar er þar ekkert undanskilin. Munurinn á henni og öðrum gjaldmiðlum er að stjórnmálamenn ákváðu á sínum tíma að taka upp verðtryggingu skulda, hér á landi. Ekkert annað land í hinum vestræna heimi ástundar slíka okurstarfsemi, ekki einu sinni Mafían vill láta bendla sig við slíka viðskiptahætti.

En þetta þekkir frú Þorgerður Katrín auðvitað mæta vel. Hún stofnaði fyrirtæki, fyrri hluta árs 2008, til að halda utanum sparifé sitt. Spariféð var sótt í bankann, í formi kúluláns, upp á tæpar tvö þúsund milljónir, eða mánaðarlaun 10000 verkamanna. Þegar bankakerfið hrundi tapaði hún auðvitað þessu meinta sparifé sínu. En henni til happs voru kröfuhafar og dómstólar henni hliðhollir, þannig að lánið þurfti ekki að borga! Nafn gjaldmiðilsins breytir þar engu.

Það sannaðist þarna að það er gott að eiga peninga, verra að skulda þá. Nema auðvitað að hægt sé að komast hjá að greiða skuldir sínar!! 


mbl.is Krónan fín meðan þú átt hana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumaland vogunarsjóða

Ísland er draumaland erlendra vogunarsjóða, sjóða sem lifa á því að veðja á hörmungar annarra og græða á þeim. Stundum nefndir hrægammasjóðir.

Þessir erlendu sjóðir eru nú að yfirtaka Ísland, eru að eignast hluti í æ fleiri fyrirtækjum og bönkum. Fyrr en varir verða þeir komnir með ráðandi hlut í flestum stærstu fyrirtækjum landsins. Fyrsti bankinn er að falla þeim í hönd og hinir munu sjálfsagt fylgja á eftir.

Á Alþingi rífast menn svo um einhver smámál sem engu skipta, stundum mál sem eru fyrir löngu gleymd þjóðinni. Stóru málin, hvernig peningamálum þjóðarinnar skuli háttað, hvernig við viljum haga framtíð okkar, er ekki rætt á þessari æðstu stofnun landsins. Þar þora menn ekki að æmta gegn erlenda auðvaldinu.

Síðan "in the miricle of time" mun Soros svo mæta til að heimta sinn stól, stólinn sem Kata vermir fyrir hann þessa dagana!

 


mbl.is Vogunarsjóður með yfir 10% í Símanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband