Að hafa kjark til að halda uppi sögunni

Það eru, eða réttara sagt voru, víða merkar minjar til hér á landi um þann tíma er landið var hersett. Fyrst að Bretum en síðan tóku Bandaríkjamenn við hersetunni.

Því miður er fátt eftir sem minnir á þennan merka tíma. Ýmist verið markvisst rifið og fjarlægt eða látið grotna niður með tímans tönn. Í raun eru einu minjar þessa tíma, sem hefur verið viðhaldið til dagsins í dag, eign Kristjáns Loftssonar á Litla Sandi við Hvalfjörðinn. Allar aðrar menjar sem hér þekkjast eru ýmist horfnar, eru að grotna niður eða verið endurbyggðar sem söfn og þá gjarnan fyllt innfluttum hlutum frá stríðsárunum.

Hvers vegna svona hefur farið hér á landi er óútskýrt. Erlendis er víðast haldið uppi sögunni frá þessum tíma, henni gerð góð skil, enda skelfilegustu manngerðu hamfarir sem á jarðkringlunni hefur dunið. Því er mikilvægt að halda þeirri sögu til haga, svo koma megi í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Sjónrænar menjar eru bestar til þess fallnar, þó ritmálið standi auðvitað alltaf fyrir sínu. 

Hernámið var vítt um landið okkar, þó kannski mest hafi borið á því í Hvalfirðinum, þar sem skipalestir til Rússlands höfðu viðkomu, auk aðstöðu til viðgerða á herafla bandamanna á Norður Atlantshafi. Kafbátalægi og viðgerðaraðstaða fyrir stærri skip. 

Því voru vítt við Hvalfjörðinn skotbyrgi og eftirlitsstöðvar, allt frá mynni hans og inn eftir öllum firði. Helsta viðgerðaraðstaðan var við Hvítanesið, innarlega við sunnanverðan fjörðinn, þar andspænis, á Þyrilsnesinu, voru höfuðstöðvarnar og rétt utan þeirra, við Litlasand var svo olíuafgreiðsluhöfnin. Eins og áður segir er braggabyggð Kristjáns við Litlasand einu raunverulegu minjarnar sem enn finnast á þessi merka svæði. Lítilsháttar er enn eftir af viðgerðarbryggju við Hvítanes en annars allt horfið. Reyndar er safn við Hlaðir um þennan tíma, merkt safn um hernámið en flestir hlutir þar fengnir annarstaðar frá. 

Þá gætti auðvitað Reykjavíkurflugvöllur stóru hlutverki á þessum tíma. Langt fram á minn aldur var hægt að finna í hlíðum Öskjuhlíðar skotbyrgi og fleira tengt vörnum hans. 

Skömm okkar á þessu tímabili lýsir sér kannski best í því virðingarleysi sem við höfum sýnt við varðveislu minja, virðingarleysi við söguna. Þó ættum við að vera stolt af okkar þætti. Fluttum fisk yfir hafið til að seðja hungur Breta, sem lágu í raun í herkví. Þær ferðir voru hættulegar og ekki allir sem komust lifandi heim. Stærsta aðkoma okkar að stríðinu var þó skipalægið í Hvalfirði.

Þegar Þjóðverjar voru nánast að kremja lífið úr Rússum var ákveðið að hefja miklar skipaflutninga til Hvítahafs, með hergögn og annað til hjálpar Rússum. Segja má að þeir skipaflutningar hafi bjargað heiminum. Rússar höfðu enga burði sjálfir gegn Þjóðverjum. Þessir skipaflutningar söfnuðust saman í Hvalfirðinum og sigldu síðan norður í skipalestum. Frægust þeirra sennilega PQ17 skipalestin, sem sigldi norður seinnipart júní 1942. Fá skip komust á leiðarenda og enn er deilt um ástæðuna.

Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir okkar þátt í þeirri heljarreið er ríkti á jörðinni á valdatíma Hitlers. Þó virðumst við hellst vilja afmá allt er minnir á þann tíma. Þorum ekki að halda uppi sögunni.

Það er aumt.


mbl.is Merkar stríðsminjar má víða finna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband