Vindorka, mengun
13.3.2025 | 05:11
Vindorkuver valda mengun, um það þarf svo sem ekki að deila. Hins vegar greinir menn á um hversu mikil sú mengun er.
Sjónmengun er eins og nafnið ber með sér, sýnileg og það víða. Talsmenn erlendu arðrónanna sem hér vilja virkja vindinn á hverjum hól, gera lítið úr þessari mengun, tala jafnvel um hana sem eitthvað happdrætti fyrir okkar land. Að hingað muni flykkjast múgur og margmenni erlendis frá, til að berja dýrðina augum. Að halda fram þeirri firru að fólk erlendis fari að ferðast til dýrasta lands í heimi, til að skoða vindorkuver stappar nánast heimsku. Þar ytra getur flest fólk séð slík mannvirki út um glugga sinn, í versta falli þarf það að taka sér sunnudagsrúnt, langi því að sjá vindorkuver. Það þarf ekki að ferðast til dýrasta staðar á jörðinni til þess.
Örplastmengun hefur gjarnan verið nefnd í sambandi við vindorkuver. Nú hafa framleiðendur vindtúrbína hafið mikla herferð gegn þeirri umræðu. Gera lítið úr þeirri mengun og réttlæta hana á þann veg að annað valdi meiri mengun af því tagi. Rétt eins og að maður geti drepið annan mann, af því einhver hafði gert slíkt áður.
Ýmsar rannsóknir hafa verið gefnar út um örplastmengun frá spöðum vindtúrbína. Þar er nokkur munur á hvort um er að ræða rannsóknir kostaðar af framleiðendum þessara mannvirkja, eða hvort er um hlutlausa rannsókn að ræða. EAWE, erupean academy of wind energi, talar um að hver vindtúrbína sleppi um 100 kg af örplast á ári, út í andrúmsloftið. Það gerir um 2 tonn á líftíma vindtúrbínunnar. Hvert vindorkuver er að meðaltali með um 30 vindtúrbínur, þannig að á starfstíma vindorkuversins losnar um 60 tonn af örplasti út í loftið. Nú veit ég ekki hvort fólk áttar sig á hvert magn þetta er, en örplast er skilgreint það plast sem er 1 nanómeter til 5 millimetrar að stærð, á lengsta flöt. 100 kg er gífurlegt magn, hvað þá 60 tonn. Vandinn við þessar rannsóknir allar eru að þær eru fengnar út með útreikningum, ekki mælingum. Enda nánast útilokað að mæla þetta í raun nema á einn veg, með því að bera saman þyngd spaða fyrir og eftir notkun. Eitthvað sem vindorkuframleiðendur hafa ekki viljað gera né leifa öðrum.
Skaðsemi örplasts liggur fyrst og fremst í efnainnihaldi þess, BPA,Bishenol A. Þegar örplast kemst í fæðukeðjuna endar það í líkama fólks. BPA veldur ýmsum kvillum eins og áhrifum á starfsemi heila, hjartasjúkdómum, hormónabreytingum, krabbameini og lægri fæðingatíðni (minnkandi getu til getnaðar). Þessi mengun er því ekki neitt grín, heldur fúlasta alvara.
Olíumengun hefur verið töluvert vandamál við rekstur vindorkuvera. Bæði þarf að skipta reglulega um olíur á gírkassa vindtúrbína og hafa orðið slys við þá vinnu með þeim afleiðingum að olía fer út í náttúruna, en einnig hafa komið upp bilanir í þéttingum. Slíkar bilanir eru öllu verri þar sem þær uppgötvast gjarnan seint og því mikið magn olíu komið út í jarðveginn. Hver vindtúrbína notar um 400 lítra af olíu á ári. Ekki er langt síðan slík bilun varð í Noregi og mikið magn olíu dreifðist þar um stórt svæði. Illa gekk að fá það hreinsað upp og náðist ekki nema að hluta. Talað er um að setja einhverskonar varnargarða umhverfis vindtúrbínur, til að tryggja að olían náist, komi fyrir slys eða bilun. Ekki átta ég mig á hvernig slíkir garðar eigi að vera. Gírkassinn er efst í turni vindtúrbínunnar, 120 til 150 metra hæð. Komi upp slys eða bilun meðan vindur blæs, þarf að hafa slíka garða ansi víðtæka og mikla. Að treyst á að slys eða bilanir verði einungis í logni, er auðvitað fráleitt.
Sulfur hexafluoride, SF6 gas, er enn ein mengun frá vindorkuverum. Þetta gas er notað til að kæla og einangra rofa þeirra. Við hverja opnun og lokun rofana sleppur örlítið gas út í loftið og eðli málsins samkvæmt eru rofar vindorkuver sífellt að opna og loka, allt eftir því hvernig vindur blæs. Talsmenn vindbarónanna hér á landi halda því fram að ekki þurfi lengur að nota þetta gas. Þeir hafa þó ekki sagt hvað sé þá notað í staðinn og ef skoðaðar eru heimasíður framleiðenda vindtúrbína, er ekki hægt að sjá þar neitt um þetta mál, hvorki SF6 gasið né hvort eitthvað annað er notað. Víst er að þeir myndu fljótt útvarpa því, ef tæknin leyfði eitthvað skaðminna efni, enda orðin merkjanleg aukning í andrúmslofti í norður Þýskalandi af SF6 gasi. Aukning sem rakin er til vindorkuvera.
SF6, gasið er 23500 sinnum öflugra í hitun andrúmslofts en co2. Verra er þó að þetta gas getur haft áhrif á lifur og nýru mannsins.
Hljóðmengun. Á einum kynningarfundi vindbarónana, sem haldinn var út á landi, héldu talsmenn þeirra því fram að í ákveðinni fjarlægð frá vindtúrbínu heyrðist ekki hærra í henni en suðið í heimilisísskápnum. Vissulega rétt fullyrðing ef fjarlægðin er höfð opin, en þó með miklum fyrirvörum. Fyrir það fyrsta þá er þetta auðvitað ómælanlegt og því sýndu þeir glæru sem sögð var frá framleiðanda. Þá mynd er ekki hægt að finna á heimasíðum framleiðendanna, hins vegar kemur þar fram að hávaðinn geti náð yfir 150db, eða svipuðum hávaða og heyrist frá þyrlu sem flýgur yfir. Þyrlan flýgur hjá en vindtúrbínan stendur kyrr.
Eðli hljóðs er að það berst með vindi. Því má segja að þessi óræða vegalengd sem sýnd var á glærunni geti verið nokkuð stutt vind meginn, ef vel blæs, en hins vegar þarf hún að vera mjög löng hlé meginn. Í logni skiptir þetta ekki máli, þá standa spaðarnir kyrrir.
Það er þó ekki hljóðið sem heyrist sem er hættulegt, þó það geti verið þreytandi til lengdar. Hitt hljóðið, sem ekki heyrist, er hættulegra. Hvert sinn sem spaði fer framhjá súlu vindtúrbínunnar myndast lágtíðnihljóð, hljóð sem mannseyrað ekki nemur þó mörg fullkomnari dýr heyri það. Erlendar rannsóknir sína að þetta lágtíðnihljóð veldur mörgum kvillum. Reyndar draga vindbarónar þær rannsóknir í efa, en þeim til huggunar þá standa yfir miklar rannsóknir um þessa vá og víst að niðurstaðna verður brátt að vænta.
Mengun sjálfrar náttúrunnar, þ.e. það svæði sem vindorkuver rís á er margslungin. Festar þær hugmyndir sem uppi eru hér á landi eru á heiðum okkar. Þar er gjarnan mikið fuglalíf innanum misstórar fallegar tjarnir og gróður viðkvæmur. Þessu verður aldrei skilað aftur í sama horf, enda vindorkuver ekki afturkræf, ekki hægt að endurheimta það land sem undir þær fara. Í byggð skiptir það minna máli, en á heiðum okkar öllu. Steypuhnallurinn sem er undir þessum mannvirkjum er af þeirri stærð og umfangi að hann verður aldrei aftur tekinn, einungis hægt að tyrfa yfir hann. Það veldur því að vatnaleiðir neðanjarðar verða ekki endurheimtar og því ekki sjálft svæðið sem milli vindtúrbína er. Vegir og plön þarf að hverri vindtúrbínu. Þyng sem um þá vegi þarf að fara og tryggt plan fyrir risakrana að standa á, segir að þessir vegir og þessi plön þurfa að vera á föstu, skipta þarf alveg um jarðveg. Slík framkvæmd er aldrei afturkræf, allra síst á viðkvæmum heiðum. Því er ljóst að vindorkuver mun rústa allri náttúru á stóru svæði. Það mun aldrei endurheimtast. Við sem búum landið okkar í dag höfum þá skyldu að skila því til afkomenda okkar sem best við getum. Höfum enga heimild til að fórna því á altari Mammons.
Auðvitað mætti nefna fleiri dæmi er snúa að mengun frá vindorkuverum, eins og þau eru byggð í dag. Kannski mun framtíðin leiða af sér betri aðferð til virkjunar vindsins, en eins og staðan er í dg er erfitt fyrir menn að koma á framfæri nýjum hugmyndum. Framleiðendur vindtúrbína dagsins í dag eru einfaldlega orðnir það öflugir að nýjar hugmyndir eru þaggaðar niður.
Meira seinna.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning