Þorraþræll
22.2.2025 | 00:34
Ekki verður annað sagt en að veðurguðirnir fari góðum höndum um okkur á þorraþrælnum, þetta árið. Að minnsta kosti hér á suð vestur horninu. Það sama verður ekki sagt um pólitíkusana okkar.
Nú hefur ný stjórn tekið völdin í höfuðborginni okkar. Hvort hún haldi til næstu kosninga mun framtíðin skera úr um. Að minnsta kosti er ekki beinlínis eins og um mikla sátt sé að ræða innan þessa meirihluta, þegar einn oddviti hans segist ekki bjartsýn á samstarfið.
Það er annars skemmtilegt að skoða hvað þessi nýi borgarstjórnarmeirihluti hefur komið sér saman um, þó erfiðar sé að ímynda sér hvernig hann ætlar að framkvæma þau verkefni.
Það á að fara í aðgerðir sem auka útgjöld borgarinnar, verulega. Þar má nefna stóraukið framboð af lóðum til húsbygginga, félagslegt húsnæði á að auka, fjölga á sérfræðingum við skólakerfið, fjölgun leikskóla og leikskólakennara, aukið fjármagn til bókasafna, lengri opnunartíma sundlauga og fleira. Allt kostar þetta aukin útgjöld, sumt minna en annað mikil útgjöld.
Hinn nýi meirihluti hefur þó ekki reynt að gera sér grein fyrir því hver kostnaðurinn er, segir það muni skýrast síðar.
Á sama tíma ætlar þessi meirihluti að ná niður lánskostnaði borgarinnar, sem vissulega er þörf á. Einnig ætlar meirihlutinn að taka til í rekstri borgarinnar.
Sem fyrr veit meirihlutinn ekki hvernig skal ná niður lánskostnaði, né heldur hvar eða hvernig skal taka til í rekstri. Hitt sér hver maður að þarna stangast markmiðin verulega á og spurning hvað þær stöllur voru að ræða allan þennan tíma.
Ég segi bara við þennan nýja meirihluta, gangi ykkur vel! Við borgarbúa segi ég hins vegar, þetta kusuð þið yfir ykkur!
![]() |
Líf segist ekki bjartsýn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.