Hræsnin er algjör

Nú veit ég ekki hversu virkur Eyjólfur Ármannsson var í stjórnmálum er hann var rétt skriðinn yfir tvítugt, eða þegar Alþingi samþykkti EES samninginn. Virðist alla vega ekki muna hvernig umræðan var um málið, bæði í þjóðfélaginu sem og innan veggja Alþingis. Virðist ekki muna að allar umræður um að færa ákvörðunina um þetta mál til þjóðarinnar voru hundsaðar og að lokum samningurinn samþykktur með minnsta mögulega meirihluta Alþingis. Virðist ekki muna hvað þurfti til svo ná mætti þeim meirihluta, að bókun 35 við þann samning yrði haldið utan hans. Að þannig mætti segja að brot á stjórnarskránni væri það takmarkað að hægt væri að samþykkja samninginn, sem útilokað var með bókun 35 inni.

Hins vegar hefur Eyjólfur lagt á sig að fræðast um tilurð þessa samnings, svo hann veit þetta allt. Hefur verið duglegur í ræðu og riti að benda á að bókun 35 gengur nær stjórnarskránni en hægt er að sætta sig við, hefur gjarnan talað um hreint brot á henni. Hann var kannski virkastur á þessu sviði og hélt marga töluna og ritaði margar greinar um að ekki væri lögfræðilega hægt að samþykkja þessa bókun, án breytingar á stjórnarskrá, fyrir síðustu kosningar. Margur kjósandinn trúði orðum hans og gaf honum atkvæði vegna staðfestu hans í þessu máli.

En staðfestan dugði skammt. Jafn skjótt og mynduð hafði verið ný ríkisstjórn, þar sem hann fékk sæti í einum ráðherrastólnum, lýsti hann því yfir að hann myndi ekki setja sig gegn því að samþykkja bókun 35. Nú er hann búinn að sverja eyð að stjórnarskránni og gengur þá enn lengra í svikum við hana. Segir blákalt að það sé kristaltært að frá þessu hafi verið gengið fyrir 30 árum síðan.

Þá spyr maður; hvers vegna var Eyjólfur þá að halda því fram að bókun 35 væri brot á stjórnarskránni? Var hann vísvitandi að blekkja kjósendur? Hver sem ástæða sinnaskipta hans eru, þá er ljóst að varlega er hægt að trúa orðum hans.

Svo er fólk hissa á að þjóðin beri ekki virðingu fyrir stjórnvöldum. Hvernig er það hægt þegar kjörnir fulltrúar haga sér með þessum hætti. Allt tal hans um að flokkar þurfi að gefa eftir í samstarfi á ekki við hér. Vissulega verða flokkar að koma sér saman um málefni, en þegar menn halda því fram að eitthvað málefni sé þannig búið að um stjórnarskrárbrot sé að ræða ef það er samþykkt, hljóta að standa fastir fyrir varðandi það. Það gengur enginn til samninga um meirihluta, með það á sinni samvisku að ætla strax í fyrsta málefni að brjóta stjórnarskránna.

Svo er fólk hissa á að Bandaríkjamenn skuli hafa kosið Trump. Ég held við ættum að líta okkur nær, kjósum sjálf yfir okkur fólk sem ekki virðir eigin túlkun og reyndar flestra lögfræðinga, á stjórnarskránni okkar.Fólk sem ekki reynir einu sinni að standa á sinni sannfæringu, þegar ráðherrastóll er í boði!

Hræsni er algjör.


mbl.is Bryndís: „Er þetta samstaðan?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar.

Kjarninn er sá að það hefur ekki reynt á EES samninginn fyrir dómsstólum, af einhverjum ástæðum hafa andstæðingar hans ekki stefnt stjórnvöldum fyrir að hafa í gildi samning sem þeir telja að brjóti stjórnarskrána.

Haldreipið var samt alltaf að Alþingi yrði formlega að samþykkja reglurnar og regluverkið frá ESB, áður en þær fengu lögformlegt gildi á Íslandi.

En þegar regluverkið fær fyrirfram forgang fram yfir gildandi lög þjóðarinnar, að það sé æðra en það innlenda svona líkt og hvítir voru í Suður Afríku á sínum tíma, þá þarf ekki að ræða þetta haldreipi.

Og ef frumvarpið verður samþykkt, þá sé ég ekki hvernig þeir þingmenn sem eru trúir lýðveldinu og stjórnarskrá þess, geti setið áfram á þingi.

Það er lítill styrkur í Nei-i, sem byggist á gildandi stjórnarskrá, sem situr áfram eins og sjálfstæði þjóðarinnar hafi ekki verið selt erlendu valdi.

Slík seta er í raun samsekt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2025 kl. 17:56

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar

Það er rétt, enginn hefur enn stefnt stjórnvöldum vegna upptöku reglna frá esb. Því miður. Því rífast menn enn um hvað má og hvað ekki.

Hitt er alveg klárt að þegar samningurinn var samþykktur af Alþingi þá þurfti að beita einhverri gulrót til að ná meirihluta þingmanna. Mikið var rætt um að samningurinn stangaðist á við stjórnarskránna og löglærðir menn sem bentu á þá staðreynd. Einkum var bókun 35 talin skýrt brot á henni, eins og t.d. Eyjólfur Ármannsson hefur talað fyrir undanfarið, eða frá því ÞKRG opnaði þessa ormagryfju. Með því að sleppa samþykkt þessarar bókunar var mönnum talin trú um að skerðing stjórnarskrár vær ásættanleg og náðist þannig minnsti mögulegi meirihluti Alþingis fyrir samþykkt ees samningsins. Sá meirihluti hefði ekki fengist ef bókunin hefði verið inni. Þetta var því meðvituð ákvörðun Alþingis, ekki einhver mistök eins og sum börnin vilja meina.

Megin þemað í bloggi mínu snýst þó ekki eingöngu um þetta, heldur kannski fremur þá hræsni stjórnmálamanna að veiða atkvæði af fólki á fölskum forsemdum. Vissulega ekki neitt nýtt í þeim efnum nema kannski að ég man ekki til að áður hafi frambjóðandi talað til sín atkvæði vegna málefnis sem hann sagði skýrt brot á stjórnarskrá, en síðan, að loknum kosningum verið tilbúinn að láta þá sannfæringu sína fyrir auman ráðherrastól.

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 12.2.2025 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og þrettán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband