Óheiðarleiki forstjórans
21.9.2023 | 00:11
Samkeppnisstofnun á að sjá til þess að samkeppni sé virk, þar sem það á við. Þess vegna á stofnunin að vera algerlega óháð afskiptum utanaðkomandi afla, hvort heldur þar er um að ræða stjórnvöld eða fjársterkir aðilar á markaði. Það er grafalvarlegt, nánast fáheyrt, að forstjóri samkeppnisstofnunar skuli ekki átta sig á þessu einfalda hlutverki sínu. Honum er ekki sætt lengur.
Vissulega má leiða rökum að því að stofnunin þurfi aukið fé til umráða. Það fé sækir forstjóri stofnunarinnar ekki til ráðherra né annarra, með verktakasamningi. Það fé verður forstjórinn að sækja til Alþingis. Það eitt hefur fjárveitingarvald. Þegar samkeppnisstofnun gerir verktakasamning við einn aðila er búið að opna þá leið að hver sem er geti gert samning við hana og fengið þær skýrslur og álit sem þykir henta. Einungis peningar munu þá ráða för.
Samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála var það þó ekki forstjórinn sem leitaði eftir þessum verktakasamningi, heldur ráðherra. Forstjórinn samþykkti hins vegar að ganga að samningnum. Varðandi ráðherrann er þetta mál einungis enn eitt málið í sorgarferð hennar og löngu ljóst að hún veldur ekki sínu starfi. Það er hins vegar forstjórinn sem á að standa vörð um hlutleysi þeirrar stofnunar sem honum er treyst fyrir. Því trausti brást hann og hefur með því skaðað samkeppnisstofnun.
Ekki ætla ég að taka afstöðu til þess málefnis er ráðherra óskaði eftir að samkeppnisstofnum skoðaði og skilaði til sín skýrslu. Það má vel vera að rannsaka þurfi þann málaflokk. En er það samkeppnisstofnunar að gera það? Eða var stofnunin fengin til verksins til að fá aukið vægi fyrir ráðherrann?
Auðvitað er ráðherrann löngu búinn að fyrirgera rétti sínum til setu í æðstu stjórn landsins. Frá henni kemur hvert hneykslismálið af öðru og nú bætist enn í þann sarp er dómstólar eða eftirlitsstofnanir hafa sett enni stólinn fyrir dyrnar. Og í deiglunni enn fleiri mál sem hún mun þurfa að standa frammi fyrir dómstólum. Alveg hreint með ólíkindum að formaður VG skuli enn verja hana og halda henni í embætti.
Um forstjóra samkeppnisstofnunar er hins vegar það að segja að honum hefur tekist að rýra svo traust stofnunarinnar að einungis eitt er í stöðunni fyrir hann. Að segja starfi sínu lausu. Honum var treyst fyrir stofnun sem á að sjá til þess að heiðarleiki ráði för. Með samningi við aðila utan stofnunarinnar sýndi hann að heiðarleiki er ekki hafður í hávegum innan hennar.
Hann brást þjóðinni og á að segja sig frá starfi. Að öðrum kosti á Alþingi að setja hann af.
Þessi úrskurður kom okkur á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.