Popúlismi í hæstu hæðum

Það vantar ekki popúlistan í Ólaf Steph., ekki frekar en fyrri daginn.

Hann segir það merki um að þjóðin vilji ekki lengur aðstoða vini okkar í Úkraínu í þeim hörmungum sem að þeim stafar. Ástæðuna finnur hann í því að stjórnvöld framlengdu ekki viðskiptafrelsi með nokkra kjúklinga frá hernaðarsvæðinu til Íslands. Ekki fæ ég séð hvað sá innflutningur hafði að segja í þeim hörmungum sem yfir Úkraínu gengur. Kannski einhver hafi haft vinnu í nokkra klukkutíma vegna þeirra viðskipta, en önnur áhrif engin. Ólafur ætti kannski að skoða eignartengsl stóru kjúklingabúanna þar ytra og þá kannski í leiðinni hversu stór, eða réttara sagt lítill, hluti framleiðslunnar var fluttur hingað til lands. Sá peningur sem ríkissjóður varð af við þessa niðurfellingu skatta hefði mátt nota til annarra og betri þarfa, í hjálp okkar við þessa stríðsþjáðu þjóð.

Svo er það hin hlið málsins, hverjir raunverulega það voru sem þurftu að taka á sig þessa "aðstoð". Ekki stórkaupmenn, svo mikið er víst. Kostnaðurinn lenti allur á bændum landsins. Það voru þeir sem þurftu að blæða, meðan stórkaupmennirnir sáu sér þarna leik á borði til að græða enn meira. Í það minnsta gátum við neytendur ekki fundið þessa ódýru kjúklinga í kjötborðinu. Þar var ekki neina kjúklinga að finna sem voru merktir Úkraínu. Hvert fór þá arðurinn af viðskiptunum?!

Ákall Úkraínu um sölu á matvælum til Evrópu kom vegna þess að lokast hafði á sölu á korni frá landinu, en korn er jú aðal landbúnaður landsins. Ríki Evrópu tóku vel í þessa viðleitni en þó með þeim skilyrðum að ekki mætti skerða landbúnað innan esb. Því varð lítið úr kaupunum. Hins vegar hefðum við hæglega getað verslað korn frá Úkraínu, án þess að skaða landbúnað hér. Ekki veit ég til þess neinn íslenskur stórkaupmaður hafi sýnt viðleitni til slíkra viðskipta.

Hitt er svo aftur sérstakt athugunarefni, hvernig formaður félags atvinnurekenda hér á landi getur leift sér að halda stöðugum árásum á eina atvinnustétt í landinu. Bændur eru jú atvinnurekendur og fyrirtækin sem vinna afurðir þeirra einnig. Sennilega greiða þó fáir bændur félagsgjöld til félags atvinnurekenda, enda fátt annað fyrir þá þar að sækja en skít og skömm. Hugsanlega gæti þetta félag þó eflst nokkuð ef stefna formanns og stjórnar breyttist gagnvart bændum og yrði þeirri starfstétt sanngjarnari. Þó bændastéttin hafi rýrnað nokkuð undanfarna áratugi má ætla að þangað mætti sækja eitthvað í kringum sex þúsund atkvæði.

Megin málið er þó það að þessi svokallaða hjálp til Úkraínu skilaði litlu sem engu. Þessi hjálp byggði alfarið á því að ein stétt í landinu stæði undir henni meðan önnur stétt sá sér leik á borði og greip til sín hagnaðinn. Eftir stóðu bændur, bæði íslenskir sem og úkraínskir, með sárt enni. Veski íslenskra stórkaupmanna bólgnaði hins vegar.

Það væri heiðarlega ef formaðir félags atvinnurekenda hefði sagt. Við erum sárir yfir því að stjórnvöld vilji ekki leyfa okkur að flytja inn ódýrt kjöt, sem við svo seljum á sama verði og íslenskt gæðakjöt.


mbl.is Enginn áhugi á Alþingi að styðja við Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband