Dagur treystir á guð og lukkuna

Það er hreint með ólíkindum hvernig borgarstjóri hagar sér. Raunveruleikaskynið er akkúrat ekki neitt. Ef menn ekki vissu betur, mætti halda að þar réði fáviska hug og hönd.

Fjármál borgarinnar eru kominn í slíkan hnút að erfitt er fyrir borgina að fjármagna sig, Hvert skuldabréfaútboðið af öðru, sem  borgin stendur fyrir, fer út um þúfur. Staða borgarinnar orðin slík að henni stendur ekki lengur til boða fjármagn nema á okurvöxtum. Þetta kemur svo sem ekki á óvart, hitt er undarlegra hversu langt þessi óstjórn hefur verið látin ganga. Það er ekki eins og þetta sé að koma upp núna, búið að gerjast í áratug!

Hver man ekki eftir Bragganum fræga eða dönsku grösunum sem voru síðan plöntuð við hann, hver man ekki eftir pálmatrjánum sem þó hafa ekki enn orðið að raunveruleika. Hver man ekki eftir sukkinu vegna sorpmála borgarinnar, Gaju málið, gasstöðin og nú allra síðast sorgleg framkvæmd á einfaldri breytingu við sorphirðuna. Hver þekkir ekki sögu skólamála borgarinnar, á báðum skólastigum, sem henni er ætlað að sjá um. Það mætti skrifa heila bók um þá sorgarsögu. Og hver þekkir ekki aðgerðir borgarstjórnar gegn einkabílnum, götur þrengdar og allt gert til að skapa sem mestar tafir í umferðinni, með tilheyrandi óþarfa mengun til handa borgarbúum. Svona mætti lengi telja, en allt hefur þetta kostað borgarbúa útlát fjármuna, ýmist í formi skatta til borgarinnar eða sem lántaka hennar, sem nú er komin yfir þolmörk.

En hvað gerir borgarstjóri þegar allt er komið í þrot og enga peninga er lengur hægt að fá? Jú hann talar um Parísarhjól við höfnina, hann rígheldur í borgarlínu, gamaldags samgönguaðferð sem einna hellst virkar í fyrrum austantjaldslöndunum. Hann talar um draumsýnir þegar raunveruleikinn hrópar.

Ekki ætla ég að eyða orðum á Parísarhjólið hams Dags. Ekki heldur á sölu Perlunnar, en sala hennar er víst komin á borðið. Samgöngusáttmálann má hins vegar skoða og umræðuna sem um hann hefur verið upp á síðkastið. Þar eru þvílíkir fjármunir í húfi. 

Segja má að sú umræða hafi farið af stað þegar fjármálaráðherra áttaði sig á að ekki væri fjárhagslegur grundvöllur fyrir þeirri vegferð. Að áætlaður kostnaður sáttmálans hefði hækkað úr 160 milljörðum upp í 300 milljarða. Áður hafði áætlaður kostnaður verið hækkaður úr 120 milljörðum í 160 milljarða. Sáttmálinn hefur því hækkað um 180 milljarða á ótrúlega skömmum tíma og nánast allar framkvæmdir enn á teikniborðinu, svo ætla megi að þessar upphæðir eigi eftir að aukast verulega. Reyndar fæst ekki séð að fjárhagslegur grundvöllur fyrir verkefninu sé til staðar, jafnvel þó miðað sé við fyrstu tölur, hvað þá þær sem ræddar eru í dag.

Borgarstjóri er þó alveg sallarólegur vegna þessa, enda fjármálasýn hans nokkuð öðruvísi en flestra. Þó sá hann sig tilknúinn að svara þessum staðhæfingum. Ekki vegna þess að þær væru rangar, alls ekki. Heldur að þær væru eðlilegar og tilgreindi nokkur verkefni Vegagerðarinnar sem höfðu hækkað frá fyrstu áætlunum. Samtals gat hann fundið þar verkefni sem höfðu hækkað um 20 miljarða umfram áætlun. Reyndar eitt þeirra. sem hafði hækkað mest, eða um 5 milljarða frá áætlun, eða 227%, verkefni sem er hluti samgöngusáttmálans. Þarna leggur hann því að jöfnu 15 milljarða hækkun við 180 milljarða hækkun!

Eitt lítið dæmi um verkefni samgöngusáttmálans er brúin yfir Fossvoginn. Brú sem ekki er ætluð almennri umferð þannig að hún skrifast alfarið á Borgarlínuna. Það er nefnilega árátta bæði borgarstjóra og formanns Betri samgangna ohf. að telja hin ýmsu verkefni samgöngusáttmálans til Borgarlínu þegar hentar, en annars utan hennar. Jafnvel utan sáttmálans ef þurfa þykir, eins og upptalning borgarstjóra á verkefnum Vegagerðarinnar.

Áætlaður kostnaður brúarinnar var árið 2021 3 milljarðar. Nú, árið 2023 er áætlaður kostnaður kominn í 6,1 milljarð króna. Hefur tvöfaldast í verði á tveim árum. Ef verðbólga er talin með og allur aukakostnaður sem ekki var fyrirséður, mætti með góðum vilja reikna hækkun upp á um 30%, eða um tæpan milljarð, að kostnaðaráætlun nú gæti verið um eða undir 4 milljörðum króna. Eftir stendur óútskýrður kostnaður upp á 2 milljarða króna. Þetta er þó ekki öll sagan. Kostnaður í dag er í raun enn hærri, sem nemur 1,4 milljörðum, eða 7,5 milljarðar. Þessi 1,4 milljarða lækkun á núgildandi áætlun fékkst með því að nota lélegra efni í brúnna, en áætlað var í fyrstu. Það mun því leiða til aukins viðhaldskostnaðar á henni og jafnvel endurbyggingu innan allt of skamms tíma.

Og þessi blessaða brú liggur enn á teikniborðinu, enn langt í útboð hennar, þó bjóða eigi fljótlega út þá vinnu sem þarf að gera í landi. Því má reikna með að allar tölur eigi eftir að hækka enn frekar.

Þessi aukni kostnaður leggst ekki nema að hluta á borgarsjóð, ríkissjóður mun taka skellinn að mestu. En þegar tillit er tekið til þess að borgarsjóður getur ekki lengur fjármagnað sig, er hver hækkun honum ofviða, hver kostnaðaraukning sem eldsneyti á vanda borgarinnar, hver kostnaðaraukning dýpkar það fen sem borginni hefur verið komið í.

En borgarstjóri er sallarólegur, segir að borgin muni vaxa út úr vandanum. Það eina sem vex í borginni eru auknar skuldir. Til að ná sér útúr úr slíkum vanda þarf fyrst og fremst að vinna að því. Fljótlegast, farsælast og best er að stöðva allar þær fjárfreku framkvæmdir sem hægt er. Þar vigtar Borgarlína þyngst fyrir borgarsjóð. Að treysta á guð og lukkuna dugir skammt.

Það er vonandi að stjórnvöld stöðvi þessa vegferð, bæði til að halda ríkissjóði eins vel reknum og hægt er, en ekki síður til að forða borginni frá allsherjar hruni. Hruni sem mun ekki síst lenda á okkur landsmönnum sem búum utan borgarmarkanna!

 


mbl.is Tillaga um Parísarhjól taktlaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ætli hann treysti ekki bara á LUKKUNA, GUÐ virðist ekki vera til hjá "meirihlutanum" í Reykjavík.  Kannski er það EIN af ástæðunum fyrir því að ástandið er eins og það er??????

Jóhann Elíasson, 9.9.2023 kl. 19:16

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Held að lukkan dugi ekki heldur, frekar en Einar frammari. Þetta er búið spil því miður. 

Sigurður I B Guðmundsson, 9.9.2023 kl. 21:25

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt Jóhann, það er víst búið að úthýsa almættinu þarna við tjörnina.

Gunnar Heiðarsson, 9.9.2023 kl. 23:09

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er búið spil hjá DBE, Sigurður og öllum þeim sem honum fylgja. Þar er Einar seinheppni ekki undanskilinn.

Það sem kannski mann óar við er að ekki er útilokað að Dagur fari í landsmálin fyrir næstu kosningar. Hann er jú að missa vinnuna hjá borginni.  Fjármálasnillingurinn Kristrún stefnir á forsætisráðherrann. Verður Dagur þá næsti fjármálaráðherra?

Gunnar Heiðarsson, 9.9.2023 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband