Bilaborgin

Stefna borgarstjórnar síðustu 13 ár hefur verið að þrengja að einkabílnum og að borgarlína muni leysa allan vandann. Það er hárrétt hjá borgarstjóra að óbreytt stefna mun þýða meiri umferðatafir. Vart er þó þar ábætandi eftir þrettán ára óstjórn í málinu.

Gamaldags borgarlína mun ekki bæta ástandið, þvert á móti. Framkvæmdastjóri betri samgangna ohf. komst að kjarna málsins í viðtali á vísi, þar sem hann sagði að fullreynt væri að reyna að efla strætisvagnakerfið. Og hvað er borgarlína annað en strætisvagnakerfi, á sterum. Ef til staðar er kerfi sem ekki virkar, hví þá að sóa peningum í annað enn verra kerfi?

Það sem kemur kannski þó mest á óvart, eftir að fjármálaráðherra benti á þá einföldu staðreynd að fjárhagslegur grundvöllur borgarlínu væri fjarri því að geta staðist, hver viðbrögð samgönguráðherra voru. Hann taldi ekki þörf á að skoða málið neitt sérstaklega. Í mesta lagi að fresta því um einhver ár, en haldið yrði sömu stefnu, hvað sem það kostar. 

Hans flokkur hefur alla tíð haft nokkuð skýra afstöðu gegn borgarlínu, talið að peningum til samgöngubóta væri betur varið á annan hátt. Þegar oddviti flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum talaði fyrir breyttri og betri stjórn borgarinnar, töldu kjósendur að þar væri m.a. átt við að breytingar yrðu í stefnu umferðarmála. En oddvitinn var fljótur að þiggja stólinn og svíkja sína kjósendur. Hann mun ekki verða langlífur í pólitík. Formaðurinn, samgönguráðherra, elti fljótlega þennan nýja "framsóknarmann". Hvað kemur næst frá ráðherranum? Að leggja niður flugvöllinn?

Það er klárt mál að ef sömu stefnu verður haldið, í umferðarmálum borgarinnar, mun illa fara. Borgarlína mun þar engu breyta. Það þarf ekki nema eina staðreynd til að átta sig á þeirri staðreynd.

Björtustu vonir gera ráð fyrir að um 12% ferða innan borgarinnar muni verða þjónaðar af borgarlínu. Þetta eru björtustu vonir, í raunheimum má gera ráð fyrir að nýtingin verði mun minni. En ok, notum þessar björtustu vonir. Það er fjarri því að þær muni duga til þess eins að flytja þá fjölgun sem gera má ráð fyrir að verði á svæðinu, þar til fyrsta áfanga er náð, hvað þá ef verkefninu líkur einhvertímann. Því mun eftir sem áður 88% íbúa ferðast á annan hátt, flestir á einkabílum. Þar mun hlutfallsleg aukning bíla verða í samræmi við fjölgun fólks. Grundvölurinn undir þessu er því fjarri því að geta staðist.

Ef svo farið er í fjárhagshliðina, þessa sem fjármálaráðherra benti á að ekki væri fjárhagslegur grundvöllur fyrir. Reyndar er erfitt að tala um fjárhagslegan grundvöll af einhverju, þegar ekki er vitað hver kostnaður verður. Væntanlega á ráðherra við að sá kostnaður sem áætlaður er í dag sé utan fjárhagslegs grundvallar. Reyndar er einungis eitt verkefni að hefjast sem eingöngu er hægt að skrifa á borgarlínu og þar hefur áætlaður kostnaður hækkað dag frá degi, langt umfram verðbólgu. Nú á að bjóða verkið út og fróðlegt að sjá hversu langt yfir kostnaðaráætlun boðin verða. Þarna er átt við brú yfir Fossvoginn, sem einungis strætisvagnar borgarlínu mega aka yfir,  auk hjólandi og gangandi umferð. Önnur verkefni borgarlínu virðast vera val borgarstjóra hvort þau tilheyri borgarlínu eða ekki. Fer eftir því hvað hentar hverjum tíma. En sum þessara verkefna koma þó einungis til vegna hugmynda um borgarlínu. Öll eiga þó sammerkt að hækka daglega og vera þó stórkostlega undirmetin þegar að útboði kemur.

Því er útilokað að hafa einhverja minnstu hugmynd um kostnaðinn og einnig útilokað að gera sér grein fyrir því hvort fjárhagslegur grundvöllur sé til staðar. Ofaná allt er síðan algerlega haldið utan umræðunnar rekstrarkostnaður borgarlínunnar, né hver eða hverjir eigi að standa undir honum. Er það mögulegt að 12% þeirra sem ferðast um borgina muni geta haldið uppi slíkum rekstri? Hvert þarf fargjaldið að verða til að það gangi eftir?

Borgarstjóri sjálfur hefur bent á þá staðreynd að höfuðborgin er hönnuð sem bílaborg. Þeirri hönnun verður ekki breytt, jafnvel þó svokölluð þétting byggðar verði sett á stera. Borgin er dreifð yfir stórt svæði og sjaldnast sem fólk býr nærri þeim stað sem það sækir atvinnu. Öll þjónusta hins opinbera, sjúkrahús og æðri menntastofnanir eru á litlu svæði í jaðri borgarinnar, þeim jaðri sem lengst liggur frá öllum vegtengingum til og frá borginni. Sem lengst liggur frá öllum nýjustu hverfum borgarinnar. Sem jafnvel lengst liggur fá mestu hugmyndum um þéttingu byggðar í borginni. Því mun einkabíllinn áfram verða helsti fararmáti borgarbúa.

Því verða borgaryfirvöld að átta sig á því að greiða þarf umferð einkabílsins um borgina. Að telja að hægt sé að þvinga fólk til hlýðni, þvinga fólk til að nota gamaldags ferðamáta, er eins og að berja hausnum við stein. Meirihluti borgarstjórnar hefur sennilega stundað þá iðju full lengi, ef mið er tekið af áráttuhegðun þeirra. 


mbl.is Óbreytt stefna þýði meiri umferðartafir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband