Green eða grín

Ást fyrir umhverfinu er öllum í blóð borin. Sumir hugsa örlítið út fyrir eigin rass og vilja skilgreina sitt umhverfi mun víðtækar, jafnvel allan heiminn. Þ.e. jörðina okkar, þessa einu sem við höfum til afnota.

Því má segja að umræðan um umhverfið og umhverfisvernd sé í sjálfu sér aldrei of mikil. Stundum er þó þessi umræða nokkuð undarleg og svo komið nú að hún er mjög einsleit og stýrð. Þeir sem ekki vilja ræða þessi mál á þann veg sem ætlast er til, eru gjarnan útskúfaðir, rök þeirra taldar kreddur og jafnvel fær það fólk á sig stimpla sem öfgafólk eða handbendi fjármálaaflanna. Það er þó einmitt öfugt, það eru fjármálaöflin sem hafa séð sér hag í þessari umræðu og stýra henni sér til tekna. Handbendi þeirra er aftur öfgafólkið, sumt af trú en annað af fávisku. Þessi öfl hafa náð yfirhöndinni í stjórn heimsmála, stjórnum flestra landa og allri umræðu gegnum fjölmiðla.

Öfgarnar liggja því ekki hjá því fólki sem vill skoða málin í stærra samhengi, lætur efa sinn í ljós. Öfgarnar liggja hjá hinum sem í blindni fylgja stýrðri umræðu, umræðu rörsýninnar. Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að engin sannindi eru sönn, engin vísindi eru endanleg. Sannleikurinn er einungis eitthvað sem við teljum vera hverju sinni, út frá þeirri þekkingu sem til er á þeim tíma og vísindi byggjast á að fólk efist um þau sannindi. Mannkynssagan er full af dæmum um þessar staðreyndir. Það sem á sínum tíma þótti óumdeilanlegt, þykja kreddur í dag. Fyrr á öldum voru menn teknir af lífi ef þeir opinberuðu efa sinn á sannleik þess tíma, í dag eru menn teknir af lífi á annan og verri hátt, þ.e. með útskúfun. 

Einhvern veginn tókst þó mannkyninu að komast í skilning um að sólin væri miðpunktur okkar sólkerfis og að jörðin er hnöttótt en ekki flöt. Ef við færum okkur örlítið nær í tíma, til þess tíma er sumt fólk enn man, þá hefur okkur skilist að ekki sé heppilegt fyrir umhverfið að setja aftöppunarolíu véla í jarðveginn. Þó eru ekki nema rétt sex áratugir síðan að kennt var að slíka olíu væri best að losa sig við í holu fyllta af möl. Sannindi þess tíma voru einföld, olían kom úr jörðinni og því sjálfsagt að skila henni til baka. Þetta var notað í kennslubókum og leiðbeiningum allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar.

En færum okkur nær í tíma, allt til síðustu tveggja áratuga. Umræðan hefur einkum snúist að loftslagi og plastmengun. Rörsýni hefur þarna ráðið lofum og lögum og útilokað að fá að ræða þessi mál út frá víðara samhengi.

Það er vitað að veðurfar og meðalhiti jarðar hefur engan fastan punkt, jörðin hefur frosið milli póla yfir í það að frumskógargróður hafi náð til pólanna. Þetta er staðreynd sem enginn hrekur. Það er líka vitað að á jarðsögulegum tíma, þá erum við í kuldatímabili jarðar. Það er einnig staðreynd að undir lok tuttugustu aldar lauk svokallaðri litlu ísöld, þegar kuldar voru svo miklir að nánast varð óbyggilegt hér á landi, hafís viðloðandi landið alla vetur og á stundum langt fram á haust. Því er okkar lukka að hitastigið skuli hafa hækkað örlítið, eða um eina og hálfa gráðu. Hefði það lækkað um sama gráðufjölda, væri Ísland ekki lengur byggilegt. Og okkur er talin trú um að heimurinn sé að farast, allt vegna gerða mannsins. Auðvitað hefur þessi hlýnun önnur áhrif þar sem hlýtt var fyrir, en það er einmitt mergur málsins, jörðin mun að einhverju leyti breytast. Við því þarf að bregðast. Að ætla að breyta sveiflum á hitastigi er okkur með öllu ómögulegt. Sér í lagi þegar þær þjóðir sem mesta ábyrgð bera á mengun jarðar, fá að vera stykk frí og jafnvel menga enn meira en áður.

Fyrirsögn þessa pistils er green eða grín. Það kemur oft upp í huga manns hvort heldur er, í umræðum dagsins. Fyrirtæki sem nota orðið green í sínu nafni, eru oftar en ekki svartari en sjálfur satan. Undir nafni green eru sett ýmis lög og reglur, sem eru meira í ætt við grín.

Hingað til lands koma erlendir fjármálamenn og fá lönd undir hvað sem er, bara ef þeir kynna það sem eitthvað green. Vindorkuver eru eitt slíkt grín. Vart þekkist meiri mengun fyrir jörðina okkar en einmitt slík orkuver. En það er vissulega ekki mikil co2 mengun frá þeim, eftir að þau eru komin í rekstur. Hversu mikil sú mengun er meðan á byggingu þeirra stendur er annað mál, að ógleymdri allri annarri mengun sem er mun hættulegri fyrir jörðina, eftir að til rekstrar kemur. Að ekki sé talað um þá mengun sem verður til við endurnýjun eða eyðingu orkuveranna.

Það er ekkert green við vindorkuver, reyndar ekki heldur hægt að tala um grín, einungis skelfingu.

Bandarískt fyrirtæki tók upp á því að flytja hingað til lands gífurlegt magn af amerískri tréflís. Þessi flís er síðan blönduð sementi hér á landi og flutt síðan aftur allt að hálfri leið til baka til Ameríku, þar sem henni er sleppt í sjóinn. Þetta er sagt stuðla að bindingu co2 úr sjónum. Gleymist hins vegar að þegar flísin sekkur til botns þá rotnar hún og myndar metangas sem er raunverulega hættulegt fyrir jörðina. Hversu mikil mengun verður til við þetta ævintýri er óljóst, en það þarf að fella trén, kurla þau í spón, flytja til strandar í Ameríku og koma þar í skip. sigla því síðan til Íslands, skipa flísinni á land, blanda við hana sementi, skipa út á pramma, draga hann hálfa leiðina til Ameríku aftur og sökkva þar prammanum svo flísin fljóti burt. Svo merkilegt sem það er, þá gengur þessi fyrirtæki bara ágætlega að fjármagna sig og stefnir á stórkostlega sölu á kolefniskvóta. Hvernig árangurinn er mældur og hversu mikil kolefnisbindingin er,  er aftur annað mál. Ef þetta virkilega virkar, væri auðvitað mun eðlilegra að blanda flísina bara strax í Ameríku og sigla með hana hálfa leið til Íslands. Þannig mætti spara mikla peninga auk þess sem mengun yrði mun minni. Hvort tekið sé inn í þetta dæmi að tré eru felld til ósómans, kemur hvergi fram.

Það er auðvitað ekkert green við þetta, einungis grín, stólpa grín.

Plaströr voru bönnuð í sölu. Þau komu gjarnan innpökkuð í pappabréfi. Í stað þeirra komu papparör, innpökkuð í plasti. Nú er ekki hægt lengur að kaupa sér mat á skyndibitastað. Hnífapörin eru í timbri. Ís í sjoppum er afgreiddur með skeið úr timbri og því óætur.

Þetta er hvorki green né grín, einungis sorglegt.

Það má lengi telja upp dæmin, en megin málið er það að rörsýnin er algjör. Hver er ávinningur af því að breyta úr plaströri pökkuðu inn í pappa yfir í papparör innpökkuðu í plast? Hver er ávinningurinn af því að útrýma plasti, efni sem er auðvinnanlegra en flest önnur efni og að auki búið til úr aukaafurð frá olíuvinnslu, yfir í pappa eða timbur, sem eyðir skógum heimsins? Það er umgengnin sem máli skiptir, ekki hvert efnið er notað.

Eina sem getur tafið sjálfseyðingu mannskepnunnar, eru vísindin, byggð á rannsóknum og forvitni. Stýrð umræða mun einungis flýta ferlinu.

Það er hvorki green né grín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Gunnar Heiðarsson, 20.8.2023 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband