Guð hjálpi þjóðinni

Það er sorglegt að sjá hvernig komið er fyrir Sjálfstæðisflokknum. Þingmenn og ráðherrar stunda grímulausan esb áróður og vinna landi og þjóð stórkostlegan skaða með athæfi sínu. Jafnvel svo langt gengið á stundum að kalla mætti landráð. Að vísu verður að halda því til haga að sumir þingmenn flokksins reyna á stundum að klóra örlítið í bakkann, en eru jafnan samstundis slegnir niður af forustu flokksins, svo vart heyrist til þeirra aftur.

Allt frá því BB tók við flokknum hefur honum hnignað. Stefnumálum er haldið til hliðar og kjósendur vanvirtir með undarlegum ákvörðunum formanns. Þar er ekki síst val hans á ráðherraliði sem á stundum hefur verið gagnrýnt. Þingmönnum sem eru trúir og dyggir stefnu flokksins og hafa oftar en ekki gott fylgi í sínu kjördæmi er haldið utan ráðherralistans, meðan óþekktir þingmenn eru teknir fram fyrir þá, þingmenn sem síðan svífast einskis í að svíkja grunngildin. Þetta hefur leitt til þess að jafnvel tryggustu fylgismenn Sjálfstæðisflokks hafa snúið baki við flokknum.

Utanríkisráðherra opinberar enn og aftur tryggð sína við esb og ótryggð við kjósendur sína og ekki í fyrsta sinn. Verði hún áfram fulltrúi okkar á erlendri grundu, mun ekki líða á löngu að landið allt verði svikið í hendur erlendra afla og gert óbyggjanlegt.

Hún ber fyrir sig að stjórnvöld hafi ákveðið einhver markmið í loftlagsmálum og þetta sé nauðsynlegt vegna þess. Þjóðin hefur aldrei fengið að kjósa um þá stefnu, né þau mál yfirleitt. Samt á að gera landið okkar óbyggjanlegt, í nafni einhverjar stefnu sem örfáir hafa samið, án aðkomu þjóðarinnar sjálfrar. Þórdís hefur m.a. talað fyrir sæstreng til meginlandsins, vindorkuverum á sjó og landi, hvort tveggja mun hækka raforkureikninga hér á landi úr hófi. Hún var einn aðal talsmaður flokksins í orkupakkamálinu, sem opnar á þessar leiðir. Hún vill færa esb vald yfir okkar lagasetningum. Hún er tilbúin til að skattleggja þjóðina enn frekar í nafni esb, en skattar á flutninga til og frá landinu mun auðvitað verða sóttur í vasa almennings. Það er enginn annar sem borgar þann reikning. Verðbólgan eykst og þjóðinni blæðir.

Loftlagsmálin eru vissulega mikið til umræðu og þjóðir keppast við að minnka hjá sér mengun. Hvort menn telji þá mengun hafa áhrif á veðurfar skiptir ekki máli, mengun sem slík er alltaf slæm. Það sem gleymist í þeirri umræðu, þegar að Íslandi kemur, er að við höfðum þegar tekið ríflega á þeim málum áður en þau urðu að einhverskonar tískufyrirbæri. Vorum búin að útrýma kolum og olíu til húsakyndingar löngu fyrr. Þetta þarf og verður að taka tillit til þegar rætt er um okkar þátt í þessu "verkefni". Þetta vilja stjórnmálamenn ekki heyra, þvert á móti keppast þeir við að lofa hér enn meiri árangri en aðrar þjóðir, árangri sem er að öllu leyti óraunhæfur.

Ísland er lítil þjóð sem býr afskekkt. Erum sem brot á heimsmælikvarða. Samt láta íslenskir stjórnmálamenn eins og við séum einhver stórþjóð, sem geti breitt heimssögunni. Það er sama hvað þeir rembast við staurinn, íslenskir stjórnmálamenn munu aldrei geta haft áhrif á gang heimsmála. Hins vegar hafa gerðir þeirra mikil áhrif á íslenska þjóð, til góðs eða ills. Allar gerðir utanríkisráðherra, frá því hún kom á þing, hafa leitt enn frekari hörmungar yfir þjóðina, engin hennar verka hafa haft áhrif á gang heimsmálanna.

Sjálfstæðisflokkur var stofnaður til að standa vörð um sjálfstæði Íslands, ekki til að gangast erlendum öflum á hönd. Hvort heldur þar er um að ræða erlend ríkjasamtök eða erlendir fjárglæpamenn, sem nú voma yfir landinu til að leggja það undir gamaldags og með öllu óarðbær vindorkuver.

Fari flokkurinn ekki að átta sig á þessu, fari flokksmenn ekki að kjósa sér formann sem er trúr og tryggur stefnu flokksins, formann sem velur sér við hlið fólk sem er einnig trútt og tryggt þeirri stefnu, formann sem ekki hefur fulla skápa af draugum fortíðar, mun þessi fyrrum höfuðflokkur landsins þurrkast út af þingi, með manni og mús.

Guð hjálpi ÞÁ þjóðinni!

 


mbl.is Ekki beðið um undanþágu fyrir Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Svo er auðvitað stóra spurningin, hvers vegna var Viðreisn stofnuð?

Þegar móðurflokkurinn er orðinn enn esb sinnaðri en flísin.

Gunnar Heiðarsson, 9.8.2023 kl. 08:06

2 Smámynd: Hrossabrestur

Í næstu konsningum fær sjálfstæðisflokkurinn 10 til 12% fylgi ef hann skiptir ekki um forystu og formann og allt liðið sem núna tilheyrir forystunni lætur sig hverfa og víkur fyrir nýju fólki tímanlega til að ný forysta hafi tækifǽri til að koma sér á framfæri og kynna sínar áherslur.

kv. hrossabrestur.

Hrossabrestur, 9.8.2023 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband