Forgangsröðun vegaáætlunar
3.8.2023 | 16:05
Forgangsröðun samgönguáætlunar ræðst varla af fjármagninu sem málaflokknum er ætlað. Sú stærð er nokkuð þekkt.
Forgangsröðun samgönguáætlunar á fyrst og fremst að ákvarðast út frá öryggissjónarmiðum og þar á eftir skal taka tillit til einangrunar byggðalaga. Ef eitthvað fjármagn er eftir þegar þessum málaflokkum hefur verið þjónað, má fara að leika sér með gæluverkefnin.
Það er t.d. galið að ríkissjóður sé að kasta ótilteknu fjármagni í borgarlínu, verkefni sem er byggt á fornri aðferðafræði, verkefni sem engin veit enn hvað mun kosta og verkefni sem ekki einu sinni hefur verið gerður útreikningur á rekstrargrunni fyrir. Ef það fjármagn væri tekið til að útrýma einbreiðum brúm, til að afnema illfæra og stundum ófæra malarvegi í byggð, til að rjúfa einangrun byggðalaga, til að afnema vegi yfir hættulega og illfæra fjallgarða, væri ekki lengi verið að afgreiða þau mál með stæl. Þá væri hægt að fara að huga að endurbyggingu þjóðvegakerfisins, með meiri burðargetu og breiðari og öruggari vegum. Tvöföldun vegakerfisins þar sem umferð er mest, kæmi svo í kjölfarið.
Borgarlína er hins vegar óþekkt stærð. Áætlanir hækka við hvert verkefni hennar, þó enn sé það á svokölluðu frumstigi. Borgarlína er fyrir lítinn hluta landsins, sem hafði bara ágætis vegakerfi, þar til núverandi borgarstjórn tók við völdum. Borgarlína er fyrir einungis örlítið brot þeirra sem þurfa að ferðast um það svæði, kemur landsbyggðinni ekkert við. Borgarlína var eitt helsta kosningaloforð Samfylkingar fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar, þar sem sá flokkur hlaut afhroð. Náði hins vegar að halda völdum fyrir tilstilli Framsóknarflokks.
Það er undarleg pólitík að láta kosningaloforð flokks sem ekki hefur kjósendur að baki sér, verða eitt að aðalmálum þess flokks sem lengst af talaði gegn þeirri vegferð og hlaut kosningasigur. Ástæða þess flokks gegn borgarlínu var einmitt óvissa um kostnað og óþekktan rekstrargrundvöll.
Borgarlína er dragbítur á allar aðrar framkvæmdir í vegamálum. Þar er ekki horft til öryggissjónarmiða, sem ætti þó að vera númer eitt tvö og þrjú, í vegaframkvæmdum. Þar er einungis horft til gamaldags gæluverkefna einstakra stjórnmálamanna sem ekki eru í takt við raunveruleikann.
Forgangsröðun eftir fjármagni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.