Vandi ferðaþjónustu
2.8.2023 | 16:00
Hvernig má það vera að ferðaþjónustan berjist í bökkum, þegar fjöldi ferðamanna hefur aldrei verið meiri, öll þjónusta ríflega verðmetin og uppbókað á flestum gististöðum marga mánuði fram í tímann? Ef þessi starfsgrein er ekki burðugri en þetta er spurning hvort hún yfirleitt á rétt á sér hér á landi. Reyndar hafa komið fram í fréttum að sumir angar ferðaþjónustunnar virðast vera að gera það gott, met hagnaður og enn meiri greiðslur til hluthafa.
Vissulega kom covidið hart á ferðaþjónustuna, eins og reyndar flest fyrirtæki að ekki sé talað um mannlíf hér á landi. Margir sem urðu verr fyrir þeim áhrifum en ferðaþjónustan. Ríkið kom fram með framlög til fyrirtækja og þeim boðin hagstæð lán. Einstaklingar voru ekki eins heppnir.
Strax og hömlum vegna covid lauk tók ferðaþjónustan við sér, mun hraðar en önnur fyrirtæki. Einstaklingar hafa hins vegar einungis þurft að þola enn frekari álögur á allar vörur og þjónustu.
Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu kemur fram með ýmsar tölulegar "staðreyndir" í þessu viðtali. Nefnir að ferðaþjónustufyrirtæki hafi verið hvött til að taka lán allt að 10 milljónum króna. Að vextir þessara lána hafi í upphafi verið 1% en hafi hækkað í 12%. Hann vill meina að vegna þeirra lána séu fyrirtækin að greiða hátt í milljón í vexti. Síðar í greininni segir hann að fyrirtækin þurfi að greiða 950 þúsund króna á mánuði vegna þessa. Ekki veit ég hvar þessi góði maður lærði stærðfræði, en greinilega hefur eitthvað klikkað stórkostlega í þeim lærdómi.
Þá nefnir hann að launakostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu sé allt að 50% af velti. Mikið skrambi eru þessi fyrirtæki þá að greiða há laun, svo ekki sé meira sagt. Velta fyrirtækja er af öllum kostnaði, s.s. lánum, húsnæði, vörukaupum og öllu því sem slíkur rekstur þarfnast. Vel má vera að finna megi lítið veitingahús, sem rekið er í skuldlausu eigin húsnæði og er með drykki sem aðalrétti, geti sýnt fram á slíkt launahlutfall. En flest eru þessi fyrirtæki rekin á lánum, eru ýmist í skuldsettu húsnæði eða á rándýrum leigumarkaði. Því er útilokað að launahlutfall í ferðaþjónustu sé 50% af veltu, svona heilt yfir. Jafnvel fráleitt að ætla að það nái 20% af veltu.
Vandi ferðaþjónustunnar liggur ekki í einhverjum 10 milljónum á fyrirtæki, sem tekin voru í covid. Áföll á þessa starfsgrein í covid geta heldur ekki lengur talist til vandans. Engin stafsstétt utan bankanna hefur átt eins góða daga frá covid og ferðaþjónustan.
Vandi ferðaþjónustunnar er fyrst og fremst offjárfesting, allt of hátt verðmat á eigin þjónustu og svo að sjálfsögðu taka eigenda sumra þessara fyrirtækja í svokallaðan arð, sem oftar en ekki er mun meiri en fyrirtækin þola.
Sé það svo að heil starfsstétt sé svo veikburða að fyrirtæki hennar hafi ekki burði til að taka 10 milljón króna lán, án vandræða fyrir reksturinn, er spurning hvort viðunandi sé að heimila slíkri starfsgrein offjárfestingu í hótelbyggingum um allt land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Bankar landsins hljóta að skoða þessi ummæli framkvæmdastjórans og sjá að stefna þeirra í útlánum er komin á hættulega braut. Braut sem geti hæglega leitt til hruns bankakerfisins.
Búið að mála okkur út í mjög þröngt horn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nákvæmlega það sem ég hugsaði !
Frændi vinnur um helgar á veitingabar, þ.e. vín aðal en matur með
Ekki séð að hann fái há laun. Er á 15 ára gömlum bíl og leigir sérhebergi í Hlíðunum.
Sammála þér með að eigendur séu svolítið stórtækir í arðinum.
Birgir Gudjonsson (IP-tala skráð) 2.8.2023 kl. 17:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.