Þrískipting valds er forsenda lýðræðis

Sagt er að við búum í lýðræðisríki. En er það svo?

Einkenni lýðræðis er þrískipting valds, þ.e. löggjafavald, framkvæmdavald og dómsvald. Í orði er það svo hér á landi.

Þjóðin kýs sér fulltrúa til Alþingis, til löggjafar. Reyndar hefur sú mynd skekkst nokkuð hin síðari ár, þar sem stór hluti löggjafar er innfluttur og samþykktur þegjandi og hljóðalaust af Alþingi, en það er önnur önnur saga en hér er til umfjöllunar. Þjóðin kýs sér semsagt fulltrúa til löggjafavalds og þeir fulltrúar bera ábyrgð gagnvart sínum kjósendum.

Framkvæmdavaldið hefur með stjórn landsins að gera og framkvæmd, samkvæmt vilja löggjafans.

Dómsvaldið sér síðan um að framkvæmdavaldið starfi samkvæmt því sem löggjafavaldið ákveður hverju sinni. Dómsvaldið á að vera sjálfstætt frá bæði löggjafavaldi og framkvæmdavaldi.

Við þetta hefur síðan verið bætt við einu valdi enn, umboðsmanni Alþingis. Hann virðist vera yfir alla aðra hafinn, engum háður og ber ekki ábyrgð gagnvart neinum. Hann er kosinn til fjögurra ára í senn, en ekki er hægt að reka hann nema með samþykki þrem fjórðu hluta þingmanna. Telji einhver að álit umboðsmanns Alþingis brjóti á rétti sínum, er honum allir vegir ófærir, þar sem dómstólum ber að vísa frá öllum ákærum á störf umboðsmanns, samkvæmt lögum nr.85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þetta stingur auðvitað nokkuð í stúf við þrískiptingu valdsins, að einn maður getir með einföldu áliti sínu í raun gert lög að engu og sett dómurum slík skilyrði að þeir geti ekki rönd við reist. Að einn maður, sem ekki ber ábyrgð gagnvart nokkrum og er ekki kosinn af þjóðinni, skuli hafa vald sem nær út yfir löggjafavaldið og dómsvaldið í landinu.

Eitt dæmi má nefna, þó auðvitað þau séu fleiri:

Í október á síðasta ári gaf umboðsmaður Alþingis út álit sitt á lausagöngu búfjár í landinu. Nú eru lög um lausagöngu búfjár nokkuð skýr og hafa verið all lengi. Sveitastjórnum er heimilt að banna lausagöngu búfjár á ákveðnum svæðum innan síns sveitarfélags,  eða í því öllu. Að öðru leyti er lausaganga heimil. En umboðsmaður Alþingis komst að annarri niðurstöðu og þarf ekki að rökstyðja hana. Þetta hefur leitt til réttaróvissu um málið, sem ekki virðist hægt að leysa úr. Lögin standa enn en sumir telja álitið vera rétthærra.

Alþing forðast að taka málið fyrir, væntanlega vegna "sjálfstæðis" umboðsmanns sem það þorir ekki að árétta að lögin séu enn í gildi og álitið því rangt. Auðvitað eru þingmenn sem vilja einfaldlega breyta lögunum, til samræmis við álit umboðsmanns, en það væri enn frekari sönnun þess að þrískipting valdsins er ekki lengur til staðar og því ekki hægt að tala um Ísland sem lýðræðisríki. Ekkert lýðræði þrífst þar sem vald eins manns fer yfir löggjafavaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Á lýðveldis tímanum hefur aldrei ríkt þrískipting valdsins, og í raun ekki heldur tvískipting.

Forsetar Lýðveldisins eru allir landráðamenn því þeir hafa allir svikið eiðstaf sinn að stjórnarskránni.

Lýðveldið er sannanlega Lýgveldi og engu betra en Norður-Kórea í stjórnarháttum sínum og áróðurs-heilaþvætti.

Góðar stundir.

Guðjón E. Hreinberg, 22.7.2023 kl. 00:47

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góðan daginn Gunnar, -þarft ábending þetta eins og þín er von og vísa.

Manni hefur í seinni tíð þótt sérkennilegt hvernig farið er með bújarðir í landinu af þjóð sem er alltaf að fjarlægast það að vera sjálfbær með matvæli.

Það virðist vera sem svo að stór hluti þjóðarinnar sé orðin ótengdur landinu og haldi helst að það sé helst fyrir uppistöðulón, vindmyllur eða sport.

Það er ekki gott að átta sig á hvað hefur farið úrskeiðis á milli eyrna umboðsmann alþingis, frekar en mörgum öðrum, annað en þá tíðarandinn.

Það eru til jarðalög frá alþingi, eins og þú bendir á skilmerkilega, sem engin virðist geta lesið lengur.

Þar stendur m.a. þetta;

5. gr. [Vernd landbúnaðarlands. Við skipulagsgerð samkvæmt skipulagslögum þar sem ráðgerðar eru breytingar sem fela í sér að land sé leyst úr landbúnaðarnotum, þ.e. að landnotkun breytist úr landbúnaði yfir í aðra landnotkun, skal gera grein fyrir og taka afstöðu til eftirfarandi:

a. Hvort landið er stærra en þörf krefur að teknu tilliti til þeirra nýtingaráforma sem skipulagstillagan felur í sér. Jafnframt, eftir því sem við á, hvort aðrir valkostir um staðsetningu komi til greina fyrir fyrirhugaða nýtingu á landi sem hentar síður til landbúnaðar og þá sérstaklega jarðræktar.

b. Hver áhrif breyttrar landnotkunar eru á aðlæg landbúnaðarsvæði, m.a. hvort hæfileg fjarlægð er milli lands með breyttri landnotkun og landbúnaðar sem fyrir er og hvort girt verði með nýtingaráformum fyrir möguleg búrekstrarnot af landinu í framtíðinni.

Sveitarstjórn tekur ákvörðun um breytingar á landnotkun á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt skipulagsáætlun og þeirra sjónarmiða sem greinir í 1. mgr.

Við gerð aðalskipulags í dreifbýli skal land flokkað með tilliti til ræktunarmöguleika. Ráðherra gefur út leiðbeiningar um flokkun ræktarlands í samráði við yfirvöld skipulagsmála.

Svo halda þéttbýlisbúar að nóg sé að kaupa bújörð og ákveða að á henni megi ekki sjást í suðkind og þá sé það bænda að kosta girðingar.

Magnús Sigurðsson, 22.7.2023 kl. 07:06

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Nokkuð til í þessu, Guðjón

Gunnar Heiðarsson, 22.7.2023 kl. 22:58

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Heill og sæll Magnús og takk fyrir góða viðbót.

Einhversstaðar sá ég talað um "ágangsfólk", þ.e. það fólk sem kaupir upp jarðir eða jarðaparta og telur sig þar með hafa eignast allan heiminn. Eina afrek þessa fólks er þó að hafa komið orðinu "ágangsfé" í leiðinlega notkun.

Blessuð sauðkindin hefur ekki skyn á landmerki, jafnvel þó hún skýr sé. Henni verður því að fyrirgefa ef hún telur grasið grænna hinu megin lækjarins. Ágangsfólkinu verður þó vart fyrirgefið. Það telur sig vera nokkuð vitborið, jafnvel vitibornar en almúginn. Ágangur þess um sveitir landsins er því óafsakanlegur.

Það er því ekki spurning hvort er verra, ágangsféð eða ágangsfólkið.

Kveðja úr gosmenguninni á Skipaskaga

Gunnar Heiðarsson, 22.7.2023 kl. 23:11

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Varðandi Umboðsmann Alþingis er rétt að hafa í huga að hann hefur ekki vald til að kveða upp bindandi úrskurði, niðurstöður hans eru bara álit. Vissulega eru þau álit rökstudd með vísan til laga og geta sem slík haft talsvert vægi. Aftur á móti getur hann ekki tekið fram fyrir hendur dómstóla. Þvert á móti byggir hann gjarnan á fordæmum frá dómstólum þegar þeim er til að dreifa. Jafnframt er ekkert sem útilokar að menn beri álitaefni sem umboðsmaður hefur tekið afstöðu til undir dómstóla. Komist þeir að öndverðum niðurstöðum er það alltaf niðurstaða dómstóla sem gildir.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.7.2023 kl. 15:21

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Guðmundur lögspekingur; -ég verð nú að segja það alveg eins og er, að ef málskilningi landans er svo komið, að hann getur ekki lesið íslensk lög sér til skilnings, og fær umboðsmann alþingis til að túlka þau á annan veg en orðanna hljóðan, svo að hægt sé að fara með álitið fyrir dómstóla, þá er til lítils að púkka upp á alþingi til lagasetningar á landinu bláa.

Magnús Sigurðsson, 23.7.2023 kl. 22:38

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Magnús. Ég deili með þér áhyggjum af málsskilningi landans. Þar eru hvorki umboðsmaðurinn né dómstólarnir undanskildir.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.7.2023 kl. 23:00

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

 Sæll Guðmundur.

Vissulega er umboðsmaður Alþingis ekki lögsetjari, gefur einungis út álit. Vandinn er kannski sá að jafnvel alþingismenn telja slíkt álit vera æðra en gildandi lög. Hélt reyndar að þetta kæmi nokkuð skýrt fram í pistli mínum.

Varðandi rökstuðning umboðsmanns með slíkum álitum, þá verður að segjast eins og er að hann er á stundum ansi þunnur. Í því dæmi sem ég nefni er slíkum rökstuðning algerlega haldið utan álitsins.

Hvað varðar dómstólaleiðina sem þú nefnir, þá taka dómstólar yfirleitt ekki við málum frá einstaklingum nema ákæra liggi fyrir. Og ekki stoðar neitt að beina slíkri ákæru að umboðsmanni, þar sem 16. greinin í lögum um umboðsmann segir skýrt að dómstólum beri að vísa frá ákærum á umboðsmann Alþingis, varðandi embættisverk hans og ef hann svo kýs.

Þá er spurningin hvern skal ákæra. Í því dæmi sem ég nefni um álit umboðsmanns, er viss skerðing sett á lausagöngu búfjár, þó lög um hana séu nokkuð skýr. Fyrir suma bændur er máli þannig varið að þeim mun verða nánast ófært að halda bú sín, enda landamæri jarða oftar en ekki eftir fjallshryggjum eða gilskorningum, sem útilokað er að girða. Hvern geta þessir menn ákært, svo mál fari fyrir dómstól? Nágranna sinn, sem hugsanlega er fjársterkur aðili úr efri lögum samfélagsins, fjármála- eða stjórnmálamaður, sem sjaldan sést á sinni jarðareign út á landi.

Og hvað segir það okkur ef Alþingi ákveður að breyta lögum vegna túlkunar eins manns á þeim, lögum sem hafa virkað ágætlega fram til þessa og teljandi á fingrum annarrar handar þau tilvik sem menn hafa talið sig hlunnfarna vegna þeirra? Hvað segir það okkur um lýðveldið þegar einn maður hefur slík völd, þó óbein séu? +

kveðja

Gunnar Heiðarsson, 24.7.2023 kl. 17:29

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Gunnar.

Það þarf ekki að ákæra neinn heldur getur sá sem telur stjórnvald hafa brotið á sér höfðað einkamál gegn því stjórnvaldi og krafist ógildingar þeirrar ákvörðunar sem deilt er um eða krafist skaðabóta fyrir tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

Sem dæmi má nefna að ef Tryggingastofnun hefur tekið ákvörðun um að hafna umsókn um hjálpartækjastyrk en svo kemst Umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu í áliti að ekki hafi verið lagastoð fyrir synjuninni. Þá getur sá sem var synjað um styrkinn höfðað mál gegn Tryggingastofnun og krafist ógildingar viðkomandi ákvörðunar með sömu rökum og komu fram í áliti Umboðsmanns og jafnvel bætt við sínum eigin rökum, og krafist þess að fá styrkinn. Það kemur þá í hlut dómstólsins að beita viðeigandi lögum til að komast niðurstöðu og þá er hann alls ekki bundinn af áliti Umboðsmanns.

Athugaðu að slíkt mál er þá höfðað gegn viðkomandi stjórnvaldi en ekki Umboðsmanni enda var það ekki hann sem tók ákvörðunina þó hann hafi látið í ljós álit sitt á henni.

Varðandi það þegar Alþingi ákveður að breyta lögum vegna álits Umboðsmanns, þá er það yfirleitt vegna ábendingar frá honum um að viðkomandi lög séu ekki nógu skýr og að það valdi réttaróvissu. Alþingi getur þá ákveðið að breyta þeim lögum til að gera þau skýrari og reyna þannig að útrýma óvissunni. Alþingi er slíkt í sjálfsvald sett og ber engin skylda til að bregðast við slíku áliti en er að sjálfsögðu líka heimilt að gera það.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.8.2023 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband