"Við eigum að láta sérfræðingana ráða"
23.3.2020 | 21:13
Hversu oft hefur maður ekki heyrt þessi orð á undanförnum dögum, "við eigum að láta sérfræðingana ráða"? Vissulega er trúverðugra að hlusta á sérfræðinga en stjórnmálamenn, á móti því er ekki hægt að mæla. Hins vegar kom þetta sjónarmið okkur í mikinn vanda fyrir rúmum áratug. Þá var hlustað á "sérfræðingana". Allir muna hvernig fór.
Það má vissulega segja að um allt annað mál sé að ræða nú, að heilsufar og líf landsmanna liggi undir en ekki bara eignir þeirra. Og vissulega er þakkarvert að haldnir séu daglegir fundir þar sem þjóðin er upplýst. Staðreyndin er hins vegar sú að enginn er sérfræðingur á því svið sem nú herjar á heimsbyggðina. Sama hversu vel fólk er menntað, þá er engin menntun sem kennir fólki að fást við þá vá. Þetta sést best á því hversu misjafnlega er tekið á vandanum milli landa.
Eitt af því sem ég á ákaflega erfitt með að meðtaka er hvernig svokallað samkomubann er framkvæmt. Enginn efast um að slíkt bann dregur virkilega úr smiti milli manna, en hvers vegna í ósköpunum eru sumir hópar undanskildir meðan aðrir þurfa að sætta mikilli skerðingu.
Ákveðið var að loka skólakerfinu. Þó var jafnfram ákveðið að grunnskólar og leikskólar skildu vera opnir. Þarna skellur nokkuð skökku við og ekki laust við að þetta hafi verið nokkuð gagnrýnt. Í dag, mörgum dögum síðar, telja sérfræðingarnir að þetta hafi verið rétt ákvörðun og koma fram með tölur því til staðfestingar. Þær tölur lágu þó ekki fyrir þegar ákvörðunin var tekin.
Ekki ætla ég að voga mér að efast um að þessar tölur séu réttar, að smit milli barna og veikindi barna af veirunni séu mun minni en meðal fullorðinna. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að barn hlýtur að geta borið veiruna á milli fólks, þó það smitist kannski ekki sjálft.
Í fámennu sveitarfélagi út á landi en nokkuð víðfeðmu (nálægt tíu sinnum stærra en höfuðborgarsvæðið), hafa allir íbúar verið settir í sóttkví. Upp kom að einn kennari barnaskólans veiktist af veirunni og allir nemendur og kennarar settir í sóttkví. Þegar síðan fleira fólk tók að veikjast var ákveðið að setja alla þá sem í sveitarfélaginu voru, í sóttkví. Kannski hefði mátt koma í veg fyrir þetta ef algjört bann við skólahaldi hefði verið sett á strax. Kennarinn hefði sjálfsagt veikst eftir sem áður og einhverjir nákomnir honum, en sjálfsagt hefði mátt koma í veg fyrir að veiran gæti dreift sér um allt sveitarfélagið.
Einangrun og lokanir eru vissulega neyðarúrræði. Því fylgir mikil röskun og tekjutap. En með því að stýra slíkum aðgerðum er um leið hægt að stýra afleiðingunum, hægt að vita fórnarkostnaðinn að nokkru leyti. Í dag er staðan hins vegar sú að enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér, fjölskyldur bíða milli vonar og ótta, vita ekki hvort þær muni hafa vinnu eftir að þetta er yfir staðið og enn síður hvort þær halda heimillum sínum.
Þó corona faraldurinn sé kannski ekki sambærilegur spönsku veikinni, fyrst og fremst vegna þeirrar tækni sem við búum við auk almenns hreinlætis og samskiptasiða, þá má alveg horfa til hennar. Sagan er oft besti kennarinn. Þegar spænska veikin barst hér á landi, undir lok október 1918, var hún ótrúlega fljót að breiðast út. Á fáum dögum hafði hún lagt þriðjung allra þeirra sem bjuggu í Reykjavík, í rúmið. Þegar skoðað er hvert veikin breiddist út á landsbyggðinni, kemur í ljós enginn veiktist frá Hrútafirði austur um norðurland, suður austfirði og allt vestur undir Vík í Mýrdal. Á suðurlandi vestan Víkur og vestur um land allt til vestfjarða, veiktist fólk hins vegar. Ástæða þessa er að norður og austurland var einangrað frá suður og vesturlandi. Á Holtavörðuheiði var varðstaða sem aftraði mönnum göngu norður og við Vík sá náttúran um varðstöðuna, en Katla hafði tekið að gjósa viku áður en sóttin barst til landsins. Sagan segir okkur því að einangrun svæða kemur í veg fyrir smit, um það þarf ekki að deila.
Ég vil alls ekki gera lítið úr þeirri vinnu sem framvarðarsveitin okkar sinnir og enn síður því fólki sem stendur vaktina á sjúkrastofnunum. Allt þetta fólk leggur mikla vinnu og miklar fórnir í okkar þágu. En geimum að hæla okkur af árangrinum hér á landi þar til faraldurinn er yfir staðinn í heiminum. Þá mun koma í ljós hvaða aðferðir eru bestar til að vinna á slíkum vágesti. Ef í ljós kemur að okkar fólk var með bestu aðferðarfræðina, má svo sannarlega þakka því.
Lítið smit á meðal barna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ein smá athugasemd: Ástæða þess að spánska veikin komst ekki austur í Skaftafellssýslur var sú að Gísli Sveinsson sýslumaður í Vík lét loka fyrir alla umferð við Jökulsá á Sólheimasandi
Þórir Kjartansson, 23.3.2020 kl. 23:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.