Upphafið að endalokum ESB?
2.2.2020 | 20:53
Sumir halda því fram að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu sé upphaf að endalokum þess. Þetta er alrangt. Upphaf endaloka ESB hófst mun fyrr, þó vissulega BREXIT sé stórt skref í þeirri vegferð.
Segja má að upphaf endaloka ESB hafi hafist strax við stofnun þess, þegar eðli þess samnings var breitt verulega með Maastrickt samningnum, seinnihluta árs 1993. Þá breyttist samstarf nokkurra ríkja Evrópu úr því að vera Efnahagsbandalag yfir í að vera Evrópusamband, breyttist úr því að vera viðskipta og vinasamband nokkurra þjóða yfir í yfirþjóðlega valdastofnun sem bindur þær þjóðir á klafa.
Næsta skref var tekið með myntbandalaginu og upptöku evrunnar. Gjaldmiðill er mælitæki hverrar þjóðar á hvernig efnahag þeirra er stjórnað og hvernig honum farnast. Með sameiginlegri mynt nokkurra þjóða er þetta mælitæki afnumið. Afleiðingin er skýr, þær þjóðir sem vel standa farnast betur og öfugt. Meðaltalsgengi getur ekki unnið á annan veg og þetta raungerðist vel þegar harðna fór á dalnum í fjármálaheiminum. Meðan Þýskaland blómstrar eru aðrar þjóðir mis illa settar, sumar svo illa að jaðrar við að ekki sé hægt að tala þar um sjálfstæði lengur. Enda er það svo að þegar ekki er lengur hægt að láta gengi gjaldmiðilsins stjórnast eftir hagkerfinu er einungis eitt afl eftir til þeirra stjórnunar, atvinna. Í á annan áratug hefur atvinnuleysi meðal þeirra yngri verið um og yfir 50% í sumum ríkjum ESB! Þetta er mun hærra hlutfall en nokkurn tímann náðist í kreppunni miklu, á fjórða áratug síðustu aldar. Bretar höfðu þó vit á að taka ekki þátt í upptöku evrunnar og var það þeim til happs.
Önnur stór eðlisbreyting á þessu samstarfi varð undir lok árs 2009, þegar Lissabonsáttmálinn tók gildi. Þá var vald ESB aukið verulega og í raun má segja að hugmyndir manna um stofnun ríkis hafi hafist þar. ESB náði þar valdi yfir utanríkismálum aðildarþjóðanna og hæst ber nú stofnun hers.
Auk þeirra þriggja skrefa í átt að endalokum ESB, er hér á undan eru talin, hafa mörg minni verið stigin. Þau skref hafa þó ekki verið stigin með breytingum á samkomulögum ESB ríkja, heldur gegnum alskyns tilskipanir, lög og reglugerðir. Spægipylsuaðferðin hefur verið virkjuð að fullu.
BREXIT mun sannarlega teljast til stærri skrefa í endalokum ESB, en er fráleitt einhver vendipunktur. Afleiðingar útgöngu Breta mun fyrst og fremst snúast um að fleiri ríki hugsi sér til hreyfings, sjá að það er mögulegt að yfirgefa þessa forneskju sem ESB er orðin. Þó mun erfiðara fyrir flest önnur ríki að fara í þann björgunarleiðangur, þar sem ekkert ríki fær lengur aðgang að sambandinu nema að samþykkja myntbandalagið. Því er líklegt að þau 27 ríki sem eftir eru í ESB muni sökkva með því í hyldýpið, sem óhjákvæmilegt er að ESB mun falla í.
Ég óska Bretum innilega til hamingju með þennan merka áfanga.
Brexit: Hvað er breytt? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frábær pistill og einhver besta greining á ESB sem ég hef lesið. Í bókiinni; EURO TRAGEDY - A Drama In Nine Acts eftir Shoka Mody, er sagt að evran séu stærstu hagfræðimistök allra tíma og þar er rakið að allan þann tíma sem evran var við lýði, hafi hagvöxturinn verið mestur í Bretlandi og helst ástæðan er sögð sú að Bretar voru með sjálfstæðan gjaldmiðil sem sló í takt við efnahagslíf landsins....
Jóhann Elíasson, 2.2.2020 kl. 21:25
Góður pistill Gunnar.
Magnús Sigurðsson, 2.2.2020 kl. 21:52
Hvað skírir ákafa svo margra Íslendinga að vilja enn þá inn í valdastofnun sem bindur þjóðir á klafa Evropusabandsins með endalausum regugerðum. Liklegt er að Íslendingum fjölgi dag frá degi sem vilja losa/bjarga Ísland ur EES.
Helga Kristjánsdóttir, 3.2.2020 kl. 04:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.