Hver er vandinn?
9.1.2019 | 13:58
Vandi Landspítalans er stór, um það þarf vart að rífast. En í hverju felst sá vandi?
Nú er sagt að opnun hjúkrunarheimilis á Seltjarnanesi og sjúkrahótels muni leysa þann vanda, að fráflæði spítalans muni batna. Í viðtali við forstjóra Landspítalans kom fram að nokkur rými innan stofnunarinnar standi auð vegna manneklu. Liggur vandinn þá ekki frekar í mönnun en plássleysi? Ef illa gengur að manna stöður svo hægt sé að nýta þau rúm sem til staðar eru innan stofnunarinnar, hvernig ætlar þá forstjórinn að manna heilt sjúkrahótel. Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvort betur gengur að manna hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi.
Ef vel gengur að koma því í gang og manna þar allar stöður, er ljóst að eitthvað stórkostlegt er að í stjórnun Landspítalans, eitthvað sem ekki verður lagað nema með því að skipta um alla lykilstjórnendur þar. Þá er ljóst að þeir eru ekki að valda sínu starfi og að opnun á einu hjúkrunarheimili mun skammt duga.
Reyndar eru öll teikn um að vandi Landspítalans sé að stæðstum hluta stjórnunarlegs eðlis. Það er sama hversu miklu fjármagni þangað er veitt, vandinn eykst. Illa gengur að manna stöður og álag þeirra sem eftir eru komið á það stig að ekki sér fyrir endann þar. Starfsmenn brenna út í stórum stíl. Fróðlegt væri ef forstjórinn upplýsti þjóðina um hversu margir starfsmenn stofnunarinnar eru í veikindafríi, hversu mikið sá fjöldi hefur aukist hin síðari ár.
En hvers vegna veigrar fólk sér við að ráða sig til Landspítalans? Léleg laun hafa verið nefnd en er það virkileg ástæða. Má ekki mun frekar ætla að engum hugnist að ráða sig á vinnustað þar sem vinnuálag er svo mikið að búast megi við að heilsan gefi sig fyrr en eðlilegt getur talist. Þar komum við að stjórnuninni. Rétt starfsmannastjórnun leiðir af sér góðan vinnustað og öfugt.
Hitt ber að taka fram, svo enginn misskilningur megi þar flækja málin, að starfsfólk spítalans er frábært og gerir sitt besta og nokkuð langt umfram það. Það hefur undirritaður reynt á eigin skinni og gat ekki annað en dáðst að því fólki sem honum sinnti um tíma, á síðasta ári.
Hvernig væri að reyna að greina vanda Landspítalans. Hvers vegna rúm standa þar auð og starfsfólk í stórum stíl í veikindafríi. Fleiri rúm duga lítið meðan ekki er hægt að manna fyrir þau sem þegar eru til staðar og erfitt er að manna stofnun þar sem veikindi vegna vinnuálags er þekktur vandi.
Vandinn verður ekki leystur með peningum einum saman, meðan óhæf stjórnun er á stofnuninni.
Greina þarf frekari úrræði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.