Dýraníð og heimska
17.9.2016 | 03:48
Einhver heimskasta tillaga við lagasetningu frá Alþingi kom fram þegar verið var að ræða búvörusamninginn, nú í vikunni. Þá var borin fram tillaga um að svipta þá bændur beingreiðslum sem uppvísir verða að dýraníð. Sem betur fer voru nægjanlega margir þingmenn sem höfðu skynsemi til að fella tillöguna.
Dýraníð er auðvitað óafsakanlegt og á ekki að þekkjast. Sem betur fer er fátítt að slík mál komi upp, en þó má með sanni segja að hvert eitt slíkt mál sé einu of mikið.
En aftur að tillögunni undarlegu, sem reyndar erfitt að átta sig á hver á heiðurinn af, þar sem þingmenn tveggja flokka eru nú farnir að berjast um heiðurinn af heimskunni, Bjartrar framtíðar og VG. Nú er það svo að í lögum eru ágætis ákvæði gegn dýraníð, þ.e. svipting leyfis til dýrahalds. Það leiðir því af sjálfu sér að þeir sem missa leyfi fyrir skepnuhaldi missa sjálfkrafa um leið allar beingreiðslur. Engar skepnur, engar beingreiðslur. Því var þessi tillaga ekki einungis óþörf, heldur opinberaði hún heimsku þeirra sem vilja eigna sér hana og hversu gjörsamlega þeir eru utangátta þegar umræður um landbúnað eiga sér stað.
En það voru fleiri en þingmenn sem opinberuðu sína heimsku í vikunni sem er að líða. Forstjóri einokunarfyrirtækisins Haga hljóp á dekk og talaði um ríkisstyrkt dýraníð. Engum dettur í hug að tala um ríkisstyrkta einokunarverslun á matvörumarkaði, þó vissulega það sé nær sanni. Allir ættu að muna hvernig ríkið, gegnum nýstofnaða banka, "rétti hlut" Haga, þegar fyrirtækið var í andaslitrunum eftir hrun. Síðan hefur þetta fyrirtæki verið rekið með dágóðum hagnaði, þó ekki detti ráðamönnum þar til hugar að greiða til baka eitthvað af þeirri upphæð sem notuð var til að "rétta fyrirtækið af", á sínum tíma. Hagnaður Haga mælist ekki í tugum milljóna eða hundruðum, heldur þúsundum milljóna ár hvert.
Forstjóri Haga hefur verið ötull í að tala niður íslenskan landbúnað og því miður fylgja margir grunnhyggnir honum að máli. Forstjórinn talar gjarnan sem svo að hann beri hag neytenda fyrir brjósti, en því fer fjarri. Hans brjóst snýr að því einu að auka hagnað Haga og ekkert annað. Forstjórinn veit sem er að ef tekst að afnema allan styrk og allar tollavarnir fyrir íslenskan landbúnað, mun hann skjótt líða undir lok. Jafn skjót munu aðrar þjóðir ekki selja okkur matvæli á þeim verðum sem eru þar í búðum, heldur yrði okkur gert að greiða framleiðslukostnað á þeim vörum. Hvorki ESB né nokkrir aðrir fara að niðurgreiða matvörur til okkar, þó þeir geri það við eigin þegna. Og þá fitnar veski Haga heldur betur, þar sem álagning er frjáls og oftast reiknuð í prósentum. Dýrari vörur gefa því meira til verslunarinnar.
Styrkir til landbúnaðar eru í öllum löndum hins vestræna heims og þykja sjálfsagðir. Þá eru tollamúrar einnig vel þekktir. Að vísu eru ekki slíkir tollamúrar milli landa ESB, en ytri landamæri sambandsins þess betur varin með slíkum múrum.
Ríkisstyrkur til landbúnaðar er ekki endilega styrkur til bænda, hann er ekki síður styrkur til atvinnurekenda. Hvar sem er í hinum vestræna heimi væru bændur tilbúnir að þessum styrkjum yrði alfarið hætt, næðist samstaða allra þjóða um slíkt. Auðvitað myndu þá laun þurfa að hækka verulega, ekki síst hjá láglaunaða kassafólkinu sem vinnur í Högum. Hætt er við að forstjórinn myndi barma sér þá!!
Varðandi tollamúra, þá mætti sleppa þeim að fullu og öllu, svo fremi að um slíkt næðist samkomulag þjóðanna. Fyrir íslenska bændur væri slíkt happ, þar sem að sjálfsögðu myndi fylgja því sú kvöð að ekki mætti flytja milli landa landbúnaðarvörur frá löndum þar sem skepnuhald er lakara en í viðkomandi landi, ekki mætti flytja milli landa landbúnaðarvörur frá löndum þar sem hormónalyf eru heimil og sýklalyf eru blönduð í fóðrið, nema leifi fyrir slíkri ósvinnu sé til staðar í því landi sem vara á að flytjast til. Og að sjálfsögðu mætti ekki flytja milli landa landbúnaðarvörur þar sem slátrun og vinnsla býr við minni kröfur um heilbrigði en í því landi sem vara á að flytjast til. Með þessu væri allur flutningur landbúnaðarvöru héðan til útlanda galopinn, meðan harðlæst væri á allan flutning slíkra vara til landsins.
Forsætisráðherra kallar eftir afsökunarbeiðni frá forstjóra Haga. Hann hefði frekar átta að votta forstjóranum samúð, vegna heimskunnar sem lak út um munnvikin á honum!!
Forstjórinn biðjist afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir hvert ord i thessum pistli. Forstjóri Haga aetti ad skammast sín og reyna ad haga sér eins og madur, er kemur ad umraedu um landbúnad. Aulahrollurinn hríslast um mann, thá er hann fer ad raeda um ad hann beri hag almennings og sinna vidskiptavina fyrir brjósti. Thvílík déskotans hraesni. Furdu gegnir hvers vegna fyrirtaeki eins og Hagar og Sjóvá greida ekki til baka "afréttarann" sem thau fengu eftir hrun. Hefur eitthvad af thví verid greitt til baka? Ef ekki, er ekki um neitt annad ad raeda í rekstri thessara fyrirtaekja, en ríkisstyrkt viskiptavinaníd!
Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 17.9.2016 kl. 06:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.