Frelsi til einokunnar
11.2.2016 | 11:36
Felsi og samkeppni eru hellstu rök þeirra sem vilja færa verslun með áfengi í matvörubúðir.
Eitthvað eru verslunarmenn þó uggandi og treysta sér ekki út í þá samkeppni á sömu forsendum og með sama frelsi og ÁTVR þarf að vinna undir. Verslunin vill algjört frelsi á öllum sviðum og auk þess vill hún undanskilja skattheimtu af veigunum.
Það er ljóst að ef núverandi fyrirkomulag verslunar með áfengi byggi við það frelsi sem verslunin vill fá, væri rekstur verslana ÁTVR enn betri og hagnaðurinn meiri, hagnaður sem verslunin vill í sinn vasa.
Ljóst er að FA, í umboði verslunar í landinu, er mótfallin frumvarpinu og er þá eins gott að draga það til baka.
Þá eru einungis þeir eftir sem vilja nýta sömu ferð og mjólkin er sótt, til að sækja guðaveigar. En það fólk ætti að spá í hvort svo skemmtilegt verður að velja úr þeim veigum þegar Hagar stjórna orðið alfarið innflutningnum og setja euroshopper bjórinn í öndvegi, kannski bara einann. Hvort svo skemmtilegt verði að velja úr veigunum þegar kannski einungis verður hægt að velja um tvær eða þrjár tegundir borðvíns með steikinni. Og fólk ætti einnig að spá í hvort Hagar, þegar þeir verða orðnir ráðandi á þessum markaði, muni halda álagningu á þessum veigum innan skynsamra marka.
Miðað við söguna má ætla úrval muni takmarkast verulega við að færa þessi viðskipti í hendur Haga og að verð muni rjúka upp. Jafnvel þó þeim auðnaðist að fá vitsskroppna þingmenn til að samþykkja algert frelsi í þessum viðskiptum, frelsi til auglýsinga, frelsi til sölu og markaðssetningar þar sem vín og mjólk verða í sama rekka og frelsi frá ríkissjóð!
Það er nefnilega ekki svo að verslunin vilji samkeppni á þessu sviði, einungis frelsi til einokunar.
Fyrirkomulagið sem er á þessum viðskiptum í dag hefur virkað ágætlaega. Verslanir ÁTVR sýna mikinn metnað í framboði á þessum veigum og þegar hagnaður er af sölunni fer hann til landsmanna, gegnum ríkissjóð. Vel má vera að eitthvað megi bæta úrval í verslunum ÁTVR og kannski fjölga þeim á landsbyggðinni, en slíkt úrval eða betra aðgengi verður ekki bætt með því að láta verslunina um söluna, þvert á móti.
Telja frumvarpið meingallað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kannski er þetta bara spurning um forgangsröðun. Við erum með spítala hérna sem eru að mygla en viljum fyrirtaksþjónustu og úrval í ÁTVR. Þessi þjóð fær svo sannarlega það sem hún á skilið.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.2.2016 kl. 14:13
Mikið rétt Elín.
Það er magnað að þingmenn og fjölmiðlar skuli vera uppteknir af því með hvaða hætti áfengi er selt landmönnum, meðan heilbrigðiskerfið sveltur. Enn undarlegra er að þetta sama fólk skuli vera svo áfram um að koma þeim hagnaði sem af þessari sölu verður frá ríkissjóð og í vasa örfárra einstaklinga.
Nær væri að horfa frekar á hvernig nýta megi hagnað ÁTVR til hjálpar heilbrigðiskerfinu. Verslunarmenn eru ekkert á flæðiskeri staddir, eins og ársreikningar verslunarfyrirtækja sýna.
Gunnar Heiðarsson, 11.2.2016 kl. 15:16
Eigum við kannski að fá okkur Bónus-rauðvín með helgarsteikinni? Það er ekkert annað á boðstólum hér.
Jóhann Elíasson, 11.2.2016 kl. 15:22
Það er enginn hagnaður þar sem ekki má hagræða. Auðvitað eru þingmennirnir uppteknir af þessu máli. Ekki ætla þeir að fara að drekka vatn í næstu veislum eða hvað? Hvað þá að taka upp veskið? Auðvitað verðum við að fá fyrsta flokks rauðvín með helgarsteikinni Jóhann. Myglaður spítali og grænt kjöt í matarbakka er seinni tíma vandamál :)
http://www.vidskiptabladid.is/frettir/atvr-stendur-ekki-undir-rekstri/117007/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.2.2016 kl. 16:05
Ekki borga ég lífeyrisgreiðslur annara starfsmanna einkafyrirtækja en ég borga lífeyri hátt í eitt þúsund starfmanna ÁTVR. Ef það er ekki hagræði í því að nýta það verslunarhúsnæði og njóta þeirrar þjónustu sem einkaaðilar eru hæfir til að veita, hvort sem undir eru guðaveigar sem aðrar, þá átta ég mig ekki á því af hverju í ósköpunum ríkið rekur ekki allt heila klabbið og losar sig við einkareksturinn.
Þessi rekstur skilar, að því sem mér hefur skilst í umræðunni, engu í ríkissjóð. Af hverju er þá ekki kaupmönnum gert kleift að selja þetta með kornflexinu og losa okkur við baggann?
Euroshopper hvað? Það eru aumingjaleg rök að reyna að halda því fram að kaupmenn séu svo hestaleppalegir að geta ekki litið til hliðar og fundið sér ákveðna hillu á markaðinum.
Þeir hinir sömu og postulast um allar koppagrundir þessa mánuðina, spóka sig á Spáni og í öðrum löndum, innan um áfengi án þess að kvarta.
Þessi þjóð er að sökkva eigin bölmóð og kveinstafir eru einu prikin sem hún hefur til þess að styðja sig við.
Sindri Karl Sigurðsson, 11.2.2016 kl. 19:30
Ég óttast ekki að íslenska þjóðin hafi ekki skynsemi til að umgangast vín í matvörubúðum, Sindri, ekki frekar en aðrar þjóðir.
Það sem ég óttast er að verslunarmenn hafi ekki þroska til að taka yfir þessa sölu. Þeir hafa ekki sýnt að þeim sé treystandi.
Vöruúrval mun ráðast af fákeppni og einungis þær teundir verða á markaði sem verslunarmenn telja seljast best. Nú þegar hafa Hagar gefið út að þeir ætli að flytja inn euroshopperbjór, enda passar það vörumerki ákaflega vel í stórmarkaði þeirra. Ekki beinlínis mikið framboð þar af öðrum vörum og þarf ekki annað en kíkja í hillurnar fyrir kexvörur til að sjá það.
Álagningin mun verða frjáls og slíkt frelsi hafa verslunarmenn ekki getað höndlað hér á landi. Flestar vörur svo margfalt dýrari hér á landi en erlendis. Flutningur, tollar, gjöld og eðlileg álagning skýrir ekki þann mun og vantar í sumum tilfellum mikið uppá, jafnvel þó smásöluverð út úr búð erlendis sé notaður sem grunnur að innkaupunum.
Verið getur að verslanir ÁTVR séu ekki reknar með hagnaði. Þá á að sjálfsögðu að skoða hvað veldur því. Í það minnsta væri verslunin varla að sækjast eftir þessum viðskiptum nema telja sig græða á þeim. Hvaða lögmál segir að einkaaðilar geti rekið verslun með áfengi betur en ríkisverslun? Verslun er verslun, sama hver rekur hana og víst er að þjónusta ÁTVR hefur verið með ágætum hin síðari ár. Ef einkaaðilar telja sig geta gert þetta betur hlýtur að liggja þar að baki áætlun um minni þjónustu, minna vöruúrval eða meiri álagningu, nema allir þessir þættir séu í þeirra plönum.
Íslensk verslun hefur ekki sýnt að henni sé treystandi á neinu sviði. Auðvitað er til heiðarlegir menn í þessum bransa, en þeir eiga erfitt uppdráttar vegna hinna sem drottna yfir landsmönnum.
Fákeppni og einokun einkennir einkarekna verslun þessa lands. Að færa verslun með áfengi í hendur slíkra aðila er bein ávísun á enn frekari einokun. Þá nálgumst við enn frekar þá stöðu sem var hér á landi þegar danskir kaupmenn höfðu tögl og haldir á landsmönnum, með sínu maðkaða méli.
Gunnar Heiðarsson, 11.2.2016 kl. 21:11
Varðandi lífeyrisskuldbindingu starfsmanna ÁTVR, sem þú nefnir Sindri, þá er ráð að skoða hvað við landsmenn erum búnir að færa versluninni mikla fjármuni hin síðari ár.
Bar við það eitt þegar Bónus Group var látið sigla sinn sjó og eigur þess fyrirtækis færðar yfir til Haga meðan skuldir voru skildar eftir, greiddu landsmenn 319 milljarða króna til verslunar í landinu. Þetta dæmi er bara eitt af fjölmörgum, þar sem skuldir voru skildar eftir en eignir færðar yfir í annað fyrirtæki. Verslunin var drjúg á þessu sviði og allur þessi kostnaður lenti á landsmönnum.
Þannig að lífeyrisskuldbindingar örfárra starfsmanna ÁTVR segja lítið upp í alla þá fjármuni sem verslunin hefur náð af þjóðinni, gegnum spilagaldra "stórkaupmanna"!
Gunnar Heiðarsson, 11.2.2016 kl. 21:26
Og af hverju voru Högum fengnir upp í hendurnar Bónuspakkinn? Eigum við eitthvað að eyða okkar efforti í þá gerninga og bölsótast eitthvað meira út í það? Held ekki búið og gert.
Hvaða lögmál segir að einkarekstur geti ekki tekið yfir ÁTVR? Vissir þú að í dag er t.d. ekki hægt að kaupa tóbak í mörgum af þeim búðum sem ríkið rekur undir merki ÁTVR? Af hverju er það?
Reiknaðu út lífeyrisskuldbindingar örfárra ríkisstarfsmanna, gefum okkur 1.000 til að hafa hlutina einfalda og segðu mér síðan hve margir venjulegir launþegar þurfa að vera á bakvið þær.
Það er verið að henda peningum út um gluggann, ríkið tekur það sem það vill með sínum áfengisgjöldum og ef þú og þínir líkar geta ekki verslað neitt annað en euroshopper þá er ykkur ekki við bjargandi.
Ég hef meiri trú á þessum hlutum en þú, það er alveg morgunljóst.
Sindri Karl Sigurðsson, 11.2.2016 kl. 21:36
"Það sem ég óttast er að verslunarmenn hafi ekki þroska til að taka yfir þessa sölu. Þeir hafa ekki sýnt að þeim sé treystandi."
Er það sem sagt þroskamerki að reka brennivínsverslun með tapi?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.2.2016 kl. 21:45
Eins og ég sagði í fyrri athugasemd, Elín, þá getur verið að ekki sé hagnaður af rekstri ÁTVR. Reyndar er sú frétt sem þú linkar á nærri árs gömul og því getur vel verið að ástandið sé farið að lagast.
Í þessari frétt segir einnig að megin ástæða þess taps sem þá var á verslunum ÁTVR stafi af fjölgun verslana út á landi. Mikill stofnkostnaður á stuttum tíma skapar alltaf tímabundið tap. Ef einhverjum dettur í hug að Hagar ætli að sinna landsbyggðinni með sölu á áfengi er það stór misskilningur. Þeirra sölunet með þessar vörur mun verða álíka þétt og aðrar verslanir þeirra, allt að 500 km milli verslana.
Kannski er þjónusta ÁTVR á landsbyggðinni óþarflega góð. En landsbyggðafólk er jú líka Íslendingar, ekki satt.
Gunnar Heiðarsson, 11.2.2016 kl. 22:04
Er ekki málið að hafa Átvr verslanir opnar lengur, td. Virkir dagar 10-21 helgar 12-18? Allir sáttir.
HH (IP-tala skráð) 11.2.2016 kl. 22:40
Gott mál HH. Þá getur þjóðin skolað þessu myglaða heilbrigðiskerfi sínu niður með góðu víni. Skál í boðinu.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.2.2016 kl. 10:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.