Stjórnvöld ættu að láta allar hótanir eiga sig
8.10.2015 | 20:59
Það gæti reynst örðugt fyrir stjórnvöld að lögsækja Landssamband lögreglumanna (LL), láti félagsmenn verða af því að boða veikindi.
Fyrir það fyrsta þá veit stjórn þess félags vel hver hennar mörk eru og að óheimilt er að boða slíkar aðgerðir í nafni félagsins. Það mun því hver og einn lögreglumaður sjálfur bera ábyrgð á sínum þætti slíkra mótmæla, ekki félagið.
Í öðru lagi þá hafa stjórnvöld einungis eitt úrræði gegn þessum boðuðu aðgerðum lögreglumanna, það að senda trúnaðarlækni heim til hvers og eins og láta hann skoða viðkomandi "sjúkling". Að því loknu væri síðan hægt að ávíta þá einstaklinga sem ekki fengju vottorð læknis um veikindi. Þetta er það eina sem stjórnvöld geta gert og ekkert annað. Það hlýtur a.m.k. einn lögfræðingur að starfa innan fjármálaráðuneytisins, þannig að þessi vitneskja ætti að vera innan þess.
Í þriðja lagi hafa hótanir, líkar þeim sem fram koma í bréfi fjármálaráðuneytisins, sjaldnast leitt til farsælla lausna á deilumálum. Ef þetta eru þau vinnubrögð sem þar teljast heppilegust, er hætt við að landið okkar sé í stórri hættu.
Í fjórða lagi er slík framkoma sem fjármálaráðuneytið viðhefur gegn lögreglumönnum, bæði með því að hundsa viðræður við þá og síðan með hótunum um málshöfðun, til þess eins fallin að fæla menn frá störfum innan lögreglunnar. Ekki er ólíklegt að fjöldi lögreglumanna íhugi stöðu sína alvarlega eftir þessa framkomu fjármálaráðuneytisins. Vel gæti svo farið að á næstu dögum muni fjöldi þeirra leggja inn uppsagnarbréf.
Hvað ætlar fjármálaráðuneytið að gera þá? Hvern ætlar það þá að lögsækja? Og hver á þá að halda uppi lögum og reglum í landinu? Ætla kannski þeir rasssetumenn sem bréfið sömdu að mæta niður í miðbæ á næturvakt um helgar? Ætla þeir að tosa sinn setna rass af þægilegum stólum sínum og sinna þeim störfum sem lögreglumenn okkar sinna?
Mér þætti gaman að sjá það!
Ráðuneytið hótar lögreglu lögsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sömuleiðis, þetta verður áhugavert að sjá.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.10.2015 kl. 22:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.