Glymur hátt í tómri tunnu

Ólíkt hafast þingmenn við. Meðan hér var vinstristjórn var ráðaleysið um afnám gjaldeyrishafta algert. Ekkert var unnið að lausn málsins og það litla sem gert var varðandi höftin ýmist treysti þau enn frekar í sessi eða gerði lausn þeirra erfiðari.

Frægt er hvernig þáverandi fjármálaráðherra lét kröfuhafana plata sig upp úr skónum. Ýmist með því að fá nýstofnuðu bankana, sem reistir voru á rústum þeirra er féllu, færða á silfurfati, eða þá með undirskrift um skuld ríkissjóðs á hendur þessum erlendu kröfuhöfum, skuld upp á hundruð milljarða króna. Það var fátt fagurt í fari eða athöfnum þáverandi fjármálaráðherra, þegar kom að samskiptum við erlendu kröfuhafana. Hræðslan og aumingjaskapurinn í honum alger, með tilheyrandi skaða fyrir þjóðina.

Og ekki voru meiri vitsmenn innan samstarfsflokks þáverandi fjármálaráðherra. Reyndar tjáði þáverandi forsætisráðherra sig sjaldan eða aldrei um þessi höft og engu líkar en hún vissi vart um hvað þau snerust. Það eina sem þingmönnum þess flokks datt í hug og stefndu að, var innganga í ESB. Þaðan væri þá hægt að fá lán til að afnema höftin. Enginn þeirra sá þó hugsanaskekkjuna í þessu, þar sem innganga er útilokuð nema afnema höftin fyrst, en látum slíka smámuni liggja milli hluta.

Aldrei hvarflaði þó að þessu fólki að hugsanlega væri hægt að koma því svo fyrir að kostnaður við losun hafta yrði greiddur af sjálfum kröfuhöfunum. Kjarkleysi þeirra leyfði þeim ekki að hugsa slíkar hugsanir. Í öllu falli fannst þessu fólki sjálfsagt og eðlilegt að allur kostnaður myndi lenda á íslenskri þjóð.

Í kosningabaráttunni, fyrir síðustu kosningar, kom einn stjórnarandstöðuflokkurinn fram með þá tillögu að kröfuhafar myndu borga kostnaðinn af afnámi hafta. Þáverandi stjórnarflokkar afgreiddu þennan flokk og þá sem töluðu í hans nafni, sem sturlaða. Fljótlega áttaði annar þáverandi stjórnarandstöðuflokkur sig á að þetta væri hugsanlega hægt og tók undir málflutning hins flokksins. Aðrir flokkar þorðu ekki einu sinni að skoða málið, hvað þá að leggja því lið.

Skemmst er frá að segja að þessir tveir flokkar, sem þorðu að nefna að kröfuhafar ættu að borga þennan kostnað, unnu sigur í kosningunum. Eftir stjórnarmyndun var farið að vinna í þessa átt og nú sér loks fyrir endann á því.

Fram voru settar tvær leiðir, annars vegar sú leið að gera þetta í einskonar sátt við kröfuhafana, að þeir myndu borga kostnaðinn við afnám haftanna og samþykkja að málinu yrði lokið að þeirri afgreiðslu lokinni. Hins vegar var til vara ákveðinn svokallaður útgönguskattur. Auðvitað var hann mun hærri, enda þá verið að vinna málið í algerri ósátt við kröfuhafa og hættan á langvarandi málaferlum vís til að tefja afnámið um langa framtíð.

Nú hefur þessi sátt verið gerð við öll þrjú þrotabúin. Niðurstaðan hefur ekki verið kynnt, en gera verður ráð fyrir að Seðlabankinn hafi unnið sína vinnu og að allur kostnaður falli á kröfuhafa. Hitt liggur ljóst fyrir að sú upphæð sem kröfuhafar munu greiða er lægri en ef grípa hefði þurft til skattheimtunar.

Og þá vakna þeir flokkar sem sátu í síðustu ríkisstjórn. Nú, þegar það sem þeir ekki einu sinni þorðu að hugsa til og töldu fásinnu, er orðið að veruleika, er allt í einu hægt að ræskja sig. "Nú get ég", segir þetta fólk. Þegar búið er að moka flórinn og koma skítnum út á tún, er þetta fólk fljótt til að taka við skóflunni! Þvílík fáviska sem þetta fólkbýr yfir!

Það glymur sannarlega hátt í tómri tunnu.


mbl.is Spyr um greiðslur þrotabúanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fjármagnshöft. Ekki gjaldeyrishöft.

Enginn hefur ennþá rökstutt hvers vegna óheftir fjármagnsflutningar án tengsla við raunhagkerfið, ættu yfir höfuð að vera leyfilegir.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.10.2015 kl. 17:39

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Er það ekki EES samningurinn? Ná ekki reglur um frjálst flæði fjármagns innan ESB til EES samningsins?

Eitt er víst að fyrir hagkerfið okkar er slíkt frjálsræði ekki hagkvæmt, enda okkar hagkerfi bæði einungis örlítið brot að stærð miðað við hagkerfi flestra annarra ríkja sem að þessum samningum standa, auk þess sem okkar hagkerfi stjórnast af gjörólíkum þáttum en annarra ríkja innan ESB og EES.

Fjármagnshöft eða gjaldeyrishöft. Vissulega eru ekki eiginleg gjaldeyrishöft á einstaklingum þessa lands. Allt ferðafólk fær með sér þann gjaldeyri sem það þarf, auk sjálfvirkrar gjaldeyristöku við notkun kreditkorta erlendis.

Því má kalla þetta fjármagnshöft, enda einungis höft á færslu mikilla fjármuna úr landi. En þeir fjármunir eru jú í formi erlends gjaldeyris. Það er ekki mikið um að verið sé að flytja mikið magn af krónum úr landi.

Gunnar Heiðarsson, 7.10.2015 kl. 20:23

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem þú ert að vísa til eru reglur EES um svokallað "fjórfrelsi". Þeir fjórir þættir sem það felur í sér eru frjálst flæði: vöru, þjónustu, vinnuafls og fjármagns.

Þessi atriði sem talin eru upp lifa ekki í tómarúmi, heldur hafa tengsl við hvort annað, til að mynda er frjálst flæði fjármagns nauðsynlegt svo hægt sé að borga fyrir vöru, þjónustu og vinnuafll sem er í frjálsu flæði, annars næðu reglurnar ekki tilgangi sínum. Þeim var hinsvegar aldrei ætlað að eiga eingöngu við um fjármagn án nokkurra tengsla við raunhagkerfið.

Þau höft sem eru við lýði á Íslandi, ná aðeins til hreinræktaðara fjármagnsflutninga, en aftur á móti hafa fjármagnshreyfingar til að borga fyrir vöru, þjónustu, og vinnuafl, alls ekki verið heftar á undanförnum 7 árum. Engin höft hafa á þeim tíma verið sett á frjálst flæði vöru, þjónustu og vinnuafls, og ekki heldur á flutninga fjármagns sem þarf til að greiða fyrir hin þrjú atriðin. Þess vegna fela þau höft sem í gildi eru ekki í sér neina skerðingu á fjórfrelsinu og eru því fullkomlega leyfileg.

Fjórfrelsisrökin eiga því einfaldlega ekki við um þau höft sem verið hafa á hreinum fjármagnsflutningum hér á landi undanfarin 7 ár. Á þeim tíma hafa engin rök verið færð fyrir því að óheftir flutningar fjármagns án tengingar við raunhagkerfið, geti yfir höfuð verið skynsamlegir. Hvorki á Íslandi né annars staðar.

Svo er það ekki heldur rétt að fjármagnshöftin nái eingöngu til flutninga í erlendum gjaldeyri, því þau hafa einnig náð til krónueigna erlendra aðila (aflands(k)róna) sem hafa ekki getað fengið að flytja þær til Íslands til að skipta þeim þar í gjaldeyri til að taka út aftur. Þannig ná höftin bæði til inn- og útflæðis og jafnt til slíks flæðis óháð gjaldmiðli.

Ef ég eða þú ætlum að kaupa vöru, þjónustu eða vinnu, frá einhverju öðru EES-ríki, eða erlendir aðilar af EES-svæðinu að kaupa slíkt hið sama hér á landi, og flytja fjármagn á milli landa til að borga fyrir það, þá hefur ekkert hindrað það undanfarin 7 ár og talsvert lengur. Það sést best á því að allan tímann hafa erlendir aðilar getað keypt eignir hér á landi og við sjálfum höfum getað keypt bensíns af dælu sem og aðrar innfluttar vörur.

Það eru því engin höft á gjaldeyrisviðskipti hér á landi, heldur eru þau aðeins háð því skilyrði að þau séu vegna raunverulegra viðskipta með raunverðmæti en ekki bara loftkastalar spákaupmanna. Þannig ætti það helst að vera áfram um alla framtíð.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.10.2015 kl. 20:47

4 identicon

Þú vilt semsagt ekki fá þessar upphæðir upp á borðið Gunnar, einungis af því að Katrín Jak bað um þær og hún er ekki lengur ráðherra?

Meikar sens...

Skúli (IP-tala skráð) 7.10.2015 kl. 20:53

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Auðvitað eigum við að fá upp á borðið hvað felst í þessum samningum við kröfuhafa. Og það munum við vissulega fá, þegar þeir verða kynntir.

Eins og ég sagði í minni grein, þá verðum við að gera ráð fyrir að Seðlabankinn hafi unnið sína vinnu. Hins vegar er nú að koma betur og betur upp á yfirborðið að þar séu vinnubrögð ekki alveg upp á það besta, jafnvel svo að umboðsmaður Alþingis hefur gert alvarlegar athugasemdir við störf bankans.

Því verður auðvitað að fá upp á yfirborðið hvað hann hefur hugsað sér að gera í þessu sambandi, svo hægt sé að grípa inní í tíma.

Og spurningar þingmanna um málið eru vissulega þarfar, en ættu að koma frá einhverjum öðrum en þeim flokkum sem sátu í síðustu ríkisstjórn. Þeir hafa ekki efni á að gagnrýna neitt í þessu sambandi, enda voru þeirra hugsanir og hugmyndir á hinn veginn, að allur þessi kostnaður ætti að leggjast á þjóðina.

Gunnar Heiðarsson, 8.10.2015 kl. 07:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband