Undarleg umræða

Það hefur skapast undarleg umræða hér á landi um vanda flóttafólks frá Sýrlandi. Rifist er um hvort taka eigi á móti 50 flóttamönnum eða jafnvel 2000, á næstu tveim til þrem árum. Eins og það breyti einhveru um þann vanda sem þetta fólk stendur frammi fyrir. Auðvitað má segja að þær sálir sem hingað fá að koma séu komnar í ágætt skjól, en vandinn er engu minni. Hann verður ekki leystur með því að finna flóttafólkinu nýtt land, hann verður einungis leystur með því að sjá til þess að þetta fólk geti farið til síns heima og byggt þar og búið í friði.

Og hvaða greiða er fólk gert með því að finna því samastað langt frá heimalandinu, ef ekki er hægt að tryggja því húsnæði og tilverurétt. Við getum ekki skaffað því fólki sem þegar býr í landinu húsnæði, svo sómi sé af. Því verður að fara vel yfir hvernig við sjálf erum í stakk búin til að taka á móti þessu fólki og tryggja því aðstöðu til að lifa með sæmd.

Það er ekki hægt að byggja á því að það búi á heimavist í gömlum héraðsskóla vestur á fjörðum, þar sem enga atvinnu er að fá. Það er ekki hægt að byggja á því að einstæðar mæður taki fólk inn á sitt heimili. Forsendan verður að vera að hægt sé að tryggja þessu fólki varanlegt húsnæði og atvinnu, svo það geti gengið knarreyst um götur og torg. Þannig getur þetta fólk orðið hluti af okkar samfélagi. Hver fjöldinn er skiptir engu máli, heldur hitt að þeir sem koma geti lifað og dafnað hér.

En vandi fólks í Sýrlandi mun þó lítið batna. Þeirra vandi mun verða jafn mikill, eftir sem áður. Og flótti þess mun margfaldast, verði ekki ráðist að rótum vandans.

Hvorki Isis né stjórnvöld í Sýrlandi ráða yfir vopnaframleiðslu. Báðir deiluaðilar eru háðir því að kaupa vopn. Sölumenn dauðans eru Rússar, Kínverjar, Þjóðverjar, Frakkar, Bandaríkjamenn og margar fleiri þjóðir sem kalla sig "siðaðar". Kannski er sárast fyrir okkur hér á Íslandi að vita til þess að nágrannar okkar Svíar eru einna duglegastir í vopnaframleiðslu og sölu. Þar er ekki verið að súta það þó kaupandinn sé kannski ekki tandurhreinn um hendurnar.

Ef ein þessara þjóða léti örlítið af sinni fégræðgi og hætti sölu vopna til deiluaðila, er hætt við að stórt skarð myndi myndast í stríðsreksturinn. Tala nú ekki um ef fleiri söluþjóðir dauðans tækju þátt í slíku banni. Án vopna er ekki háð stríð og án stríðs þarf enginn að flýja föðurland sitt.

Kannski væri betra ef íslenskir stjórnmálamenn tækju sig saman og fordæmdu þær þjóðir sem stunda sölumennsku dauðans, að þeir létu til sín heyra á alþjóðavettvangi. Ef nógu hátt er látið mun til heyrast. En það þarf auðvitað kjark, kjark til að synda gegn straumnum, kjark til að segja sína skoðun, kjark til að standa frammi fyrir leiðtogum stórra ríkja án þess að blikna.

Kannski hafa íslenskir stjórnmálamenn ekki þann kjark, a.m.k. hefur ekki einn einasti þeirra þorað að fordæma sölumenn dauðans, hvorki í íslenskum fjölmiðlum né erlendum.

Íslenskir stjórnmálamenn eru svo smáir í hugsun að þeir rífast frekar um hversu mörgum flóttamönnum skal boðið til landsins og virðast vera komnir í einhverskonar pissukeppni um hver býður best!!

Sveiattan!!


mbl.is Fagnar frumkvæði Eyglóar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mjög mikið er til í orðum þínum hér, Gunnar, og vil ég sérstaklega taka undir hvatningu þína til stjórnmálamanna að fordæma þá "sölumenn dauðans" sem haldið hafa við þessu hryllilega borgarastríði í Sýrlandi. Sannarlega skammarlegt að frændur okkar Svíar eru í þeim hópi.

Almennt ertu í grein þessari málsvari raunsæis og fyirhyggju, meiri en nú gætir meðal margra sem virðast hugsa um það eitt að bjóða hærra en aðrir í allri (vonandi) manngæzku sinni.

Svo leyfi ég mér enn að minna á, hvernig Guðmundur Pálsson læknir hefur ritað af viti og reynslu um þessi mál á Facebók sína:

"Hjálp við flóttamenn: 

 

Við getum haft hlutina eins og við viljum hér á Íslandi. Best er að geta valið fjölskyldur (síður einstaklinga eða einstæða með börn), helst kristinnar trúar því þær aðlagast best og geta auðgað íslenska menningu síðar meir. Komi þetta fólk frá Sýrlandi má reikna með að stofnaður verði sýrlenskur söfnuður orþódoxa, því það er lífæð fólksins, eykur mjög samstöðu þess og hjálpar því að bjarga sér sjálft. Þetta er frábært fólk get ég sagt ykkur. 


Ég skrifa þessi orð frá Södertälje nálægt Stokkhólmi í Svíþjóð en þar eru þúsundir kristinna Sýrlendinga. Það sem ég þekki til er að þetta fólk aðlagast afar vel; flest er í vinnu eða námi og mér er ókunnuugt um andúð frá þessu fólki eða til þess. Flestir komu fyrir allmörgum árum og sumir eru af annarri kynslóð. Ég þekki marga kristna Sýrlendinga persónulega og það eru engin vandræði í kring um þetta fólk. 


Til að hjálpa fólki í nauð á strax að veita því húsnæði og mat, setja krakkana í skóla og allir þurfa að læra tungumálið á 2 árum. Fjölskyldufaðirinn (já, hann) þarf strax að komast í einfalda vinnu með tungumálanáminu. Bætur og stuðningur þarf að vera tímabundinn og falla niður eftir 2 ár. Þá á þetta fólk að vera orðið sjálfbjarga. Annað er gagnlegt einnig: Halda þessu fólki frá þeim sem innanlands vilja slá sér pólitíska mynt af því að hjálpa því eða speglar drauma sína um breytt samfélag í örlögum þess." (Tilvitnun lýkur.)

Jón Valur Jensson, 1.9.2015 kl. 01:20

2 identicon

Góð grein.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.9.2015 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband