Dapurleg ummæli þjóðkjörins fólks
12.6.2015 | 00:58
Það er dapurlegt þegar þjóðkjörið fólk opinberar vankunnáttu sína. Þetta fólk vill láta til sín heyrast og væntanlega að mark sé á því takandi. Það ætti því að skoða málin örlítið betur áður en það tjáir sig.
Það er ekki verið að taka samningsréttinn af neinum, a.m.k. ekki strax. Það er ekki verið að taka verkfallsréttinn af neinum. Einungis er verið að setja lög sem fresta verkfallsaðgerðum. Þessi lög segja ekkert til um hverja launahækkun það fólk skal fá sem undir þau falla.
Lögin kveða á um að verkfalli verði frestað til 1. júlí n.k., eða um 19 daga. Náist ekki að semja á þeim tíma mun deilan verða sett fyrir gerðadóm og hann mun þó ákvarða hverjar launahækkanir og kjarabætur þessara hópa skuli verða.
Þegar verkföll hafa staðið nærri tíu vikur er nokkuð ljóst að samningur muni vart nást, hvorum aðilanum sem um er að kenna. Gera má ráð fyrir að næstu 19 dagar breyti litlu þar um. Eina vonin er þó að báðir aðilar óttist svo niðurstöðu gerðardóms að sátt náist áður en til aðkomu hans kemur. Og það er full ástæða fyrir báða aðila að óttast gerðadóm. Sagan segir okkur að útilokað er að gera sér grein fyrir niðurstöðu hans. Stundum hafa þeir dómar fallið atvinnurekendum í hag og stundum hafa launþegar fengið allar sínar kröfur viðurkenndar af gerðadóm.
Nú er það svo að sjálfur tel ég verkfallsréttinn heilagann, enda eina vopn launþegans. Því er ég í eðli mér á móti lögum sem taka þann rétt af fólki, jafnvel þó tímabundið sé. En öllu fylgir einhver takmörk og samkvæmt því sem fram kemur hjá landlækni er þessum takmörkum náð gagnvart veiku fólki og sjúkrahúsum landsins.
Nú þekki ég ekki kröfur þeirra hópa sem frestun á verkfalli nær til, né þekki ég gang viðræðnanna. Því get ég ekki tekið afstöðu til málsins út frá þeim punkti. Hitt veit ég, sem þegn í þessu landi, að þessi verkföll hafa staðið lengi, mun lengur en heilbrigðiskerfið okkar ræður við. Hvers sök er á því að ekki takist að ná kjarasamningi veit ég ekki heldur, enda skiptir það í sjálfu sér ekki máli, heldur hitt að endir verði bundinn á andlegar og líkamlegar þjáningar þess fólks sem þarf að treysta á heilbrigðiskerfið okkar.
En þetta er ekki í fyrsta sinn sem lög eru sett til frestunnar verkfalls og alls ekki það síðasta. Margur hefur þurft að sætta sig við að lög hafa verið sett á verkfallsaðgerðir í hverjum kjarasamningum af öðrum. Stundum hafa þau lög verið sett áður en til verkfalls hefur komið, stundum hefur fólk náð einhverjum klukkutímum í verkfalli áður en lögin tóku gildi. Þarna nefni ég kannski fyrst og fremst sjómenn þessa lands, en sennilega eru fáar starfsstéttir sem hafa þurft að sæta lögum um frestun verkfalls eins oft og þeir.
Vissulega eru fiskveiðar okkur mikilvægar, reyndar er það svo að allar starfsstéttir eru mikilvægar. Verið getur að einhverjum þyki eðlilegt í þessu sambandi að verðleggja veraldleg auðæfi hærra en mannslífin. Að réttlætanlegra sé að setja lög sem fresta verkföllum þeirra sem skapa auð í landinu eða á einhvern hátt stuðla að auðsköpun, frekar en þær starfstéttir sem sem hugsa um heilsu okkar. Undir það get ég ómögulega tekið.
Ekki er laust við að örli á þeirri hugsun hjá Katrínu Jakobsdóttir, þegar hún telur minni þörf á að afgreiða málið vegna þess að sjúkrahúsin hafi verið lömuð um langa hríð, freka en ef t.d. landið væri að lokast á miðnætti.
Nú heyrst þær raddir frá samninganefndum þeirra hópa sem lögin fresta verkfalli hjá, að um bráðræði stjórnvalda sé að ræða. Að ekki sé enn útilokað að klára kjarasamning. Það ætti þá ekki að vera mikið mál fyrir þessar nefndir að nýta næstu 19 daga til þess verks.
Það er sorglegt að heyra í hverjum fréttatímanum af öðrum forystu þessara hópa í samninganefndum í sífellu tala um uppsagnir og landflótta. Vel getur farið svo að margt fólk segi upp sinni vinnu og vel getur farið svo að það flýi land. En er ekki réttara að bíða með slíkar spekúleringar þar til niðurstaða fæst í málið, annað hvort með kjarasamningi milli aðila eða með úrskurði gerðadóms. Í það minnsta er ljóst að þessi umræða mun ýta undir uppsagnir og er því forystan komin út á ystu nöf með að fylgja lögum í landinu. Enginn getur boðað uppsagnir nema einstaklingurinn sjálfur sem segja vill upp sínu starfi, nú eða atvinnurekandi hans.
Sorglegast er þó að hlusta á fólk sem þjóðin hefur kosið til setu á Alþingi tjá sig um þetta mál af þeirri fáfræði sem fram kemur í þessari frétt. Þar er látið eins og verið sé að taka verkfallsrétt og samningsrétt af fólki til frambúðar, látið eins og stjórnvöld séu að ákvarða launakjör þessara hópa. Staðreyndin er að verkfalli er frestað, samningsrétturinn er í fullu gildi meðan á frestun stendur en síðan mun gerðadómur taka við.
Hver niðurstaða þess dóms verður veit enginn, en ég tel þá hópa sem um ræðir þurfi ekki að óttast hana svo mikið. Í það minnsta ætti það ekki að fara í einhverjar bráðræðis aðgerðir eins og uppsagnir. Bíða frekar eftir niðurstöðu og taka vel upplýsta ákvörðun út frá henni.
Mér líst afskaplega illa á þetta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Auðvitað hefði verið lang best ef samningar hefðu náðst. En ég held, að það hafi einfaldlega ekki verið NEINN vilji til þess innan raða BHM og þá sérstaklega hjá Þórunni Sveinbjarnardóttur og Páli Halldórssyni. Orð Páls við fréttamann þess efnis að ekki væri hægt að semja við ofbeldismenn, vekja þær spurningar hvort ofbeldismennirnir séu ekki einmitt innan BHM og séu í pólitískri baráttu. Ég hef bloggað um þetta og held að úr því sem komið er sé þetta besta lausnin, http://johanneliasson.blog.is/blog/johanneliasson/entry/1790550/.
Jóhann Elíasson, 12.6.2015 kl. 07:12
Sammála þér Jóhann varðandi ofbeldismennina. Það er fullt af fólki búið að flytja til Noregs án þess að hafa uppi hótanir um slíkt. Ef engin er vinnan þá fara menn einfaldlega annað. Ef atvinnuöryggi er fólki dýrmætt þá ætti það að taka það með í reikninginn.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.6.2015 kl. 08:23
Auðvitað er verið að taka samningsréttin af fólki, bara ekki fyrr en eftir 19 daga. Ríkið mun ekki semja fyrir þann tíma vegna þess að það veit að það þarf þess ekki.
Og varðandi það að fjarlægja verkfallsrétt fólks, þá er þetta í annað skiptið í röð (ef ekki þriðja) að lög eru sett á verkföll hjúkrunarfræðinga og því má alveg segja að búið er að fjarlægja verkfallsrétt þeirra.
Hjúkrunarfræðingar og aðrar heilbrigðisstéttir eru með 6 mánaða uppsagnafrest þannig að ég býst við að við byrjum að sjá holskefluna af uppsögnum fyrir næstu mánaðarmót.
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 12.6.2015 kl. 11:53
Vissulega gæti svo farið að fjöldi hjúkrunarfræðinga muni segja upp starfi, Elfar. En er þó ekki rétt fyrir það fólk að bíða eftir niðurstöðunni, annað hvort gegnum kjarasamning eða úrskurð gerðadóms.
Að ríkið hafi verið að taka samningsréttinn af fólki er ekki rétt. Að vísu fellur hann tímabundið úr gildi gagnvart þessum kjarasamning, ef ekki næst að semja meðan lögin gilda, þ.e. ef gerðadómur þarf að úrskurða í málinu. Eftir þann úrskurð endurheimta þessar stéttir samningsréttinn aftur.
Þessi lög breyta heldur engu um vilja eða viljaleysi stjórnvalda til að klára kjarasamning, þar sem stjórnvöld hverju sinni hafa alltaf valdið til að setja lög á verkföll. Því er hvatinn eða hvataleysið alveg jafnt eftir lagasetninguna sem fyrir hana.
Eftir árangurslitlar viðræður í margar vikur, hvorum aðilanum sem um er að kenna, ber stjórnvöldum að höggva á hnútinn. Að halda heilbrigðiskerfinu lömuðu hér í margar vikur er ekki viðunnandi.
Gunnar Heiðarsson, 12.6.2015 kl. 21:17
Nei, ég mundi til dæmis ekki bíða eftir því. Hvert skipti sem ríkið setur lög á verkfall þá er það brot á grundvallar réttindum þeirra sem fá lögin yfir sig og ég mundi bara ekki líða það persónulega.
En það er óþarfi að æsa sig yfir orðnum hlut. Þetta verður allt mun betra og eðlilegra þegar heilbrigðiskerfið verður einkavætt.
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 12.6.2015 kl. 22:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.