Sæstrengs draumur

Sumir draumóramenn hafa mikið talað fyrir sæstreng milli Íslands og Bretlands. Í raun er erfitt að átta sig á hvað að baki liggur þessum draum, en það er með þennan eins og aðra, rökhyggjan er látin vera utangarðs.

Nú berast hins vegar fréttir af því að breskir fjárfestar, undir samheitinu Atlantic Superconnectíon (ASC), séu að hefja rannsóknir á hafbotninum á þessari leið. Ekki vilja þeir gefa upp kostnaðinn við þá könnun, en öllum er ljóst að hann er mikill. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort stjórnvöld hér á landi séu komin lengra með þetta mál en þjóðinni er sagt. Varla fara fjárfestar að kast milljörðum punda í rannsóknir, nema hafa einhverja vissu fyrir því að framhald verði á.

Landsvirkjun er í eigu allra landsmanna. Þó forstjóri fyrirtækisins vilji endilega selja orkuna úr landi í stað þess að láta hana afla okkur atvinnu og raunverulegra tekna, þá er hann í vinnu hjá eigendum fyrirtækisins, landsmönnum. Svo stóra ákvörðun, að fórna hér atvinnu og atvinnutækifærum til þess eins að selja Bretum orku, verða eigendur fyrirtækisins að taka. Hvorki forstjóri þess, stjórn né misvitrir stjórnmálamenn hafa vald til að taka þá ákvörðun.

Um rökfærslu draumóramannanna ætla ég ekki að fjölyrða nú. Bæði hef ég oft áður farið inn á þá braut og svo eru þessi rök vart svaraverð, þó sumir séu svo bláeygðir að gleypa við þeim.

Hitt er alvarlegra, þegar erlendir fjárfestar fara að kanna lagningu slíks strengs, með vitund og vilja okkar stjórnkerfis. Hvort þetta er gert með vitund og vilja ráðherra er ekki ljóst, en hvorki Alþingi né þjóðin sjálf hefur haft aðkomu að slíkri ákvörðun. Þjóðin þarf að fá að ræða þetta mál og þá þætti þess sem að henni snýr.

Vill þjóðin fórna atvinnuöryggi landsins?

Vill þjóðin virkja hér nærri fjórfalt meira en felst í breytingu á rammaáætlun, sem nú liggur fyrir Alþingi?

Er þjóðin tilbúin að orkuverð til heimila hækki um marga tugi prósenta?

Þetta eru einungis örfáar spurningar sem þarf að svara með jái, svo hægt sé að halda áfram með verkefnið. Það er ekki fyrr en komið er svar við öllum þeim spurningum sem að þjóðinni sjálfri snýr, sem hægt er að hleypa erlendum fjárfestum inn fyrir landhelgina. Það er ekki fyrr en þjóðin sættist á allt sem að henni snýr, sem tímabært er að kanna hvort verkefnið sé yfir höfuð gerlegt.

Annars er kannski lítið að óttast, því ef erlendu fjárfestarnir eru ekki betri að sér í landafræði en fram kemur í fréttinni, þá gæti skipið allt eins endað á Asoreyjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessar rannsóknir hefðu aldrei farið af stað ef ekki væri búið að gefa út "letter of intent" um að Landsvirkjun (eða einhver annar aðili) sé tilbúinn að selja raforku í þetta project. Það er alveg kristaltært að slík fjárhagsáhætta er ekki tekin út í loftið.

Móri (IP-tala skráð) 9.6.2015 kl. 21:42

2 Smámynd: Svanur Guðmundsson

Hér eru upplýsingar um þá sem fjármagna ASC sem æla að fjármagna strenginn. 

http://www.disruptivecapital.com/content/review-2014

Oddný G. Harðardóttir skrifaði undir MoU við ASC 2012

http://orkustofnun.is/orkustofnun/frettir/nr/1668

Svanur Guðmundsson, 10.6.2015 kl. 11:29

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Svanur.

Fyrri linkurinn segir í sjálfu sér fátt og ekkert um það fjármagn sem ASC ætlar til verksins, hvorki magn né ætterni þess.

Seinni linkurinn er á frétt frá Orkustofnun um leyfisgjöfina. Hversu viljugur sem ég væri til að kenna fyrri ríkisstjórn og Oddný Harðardóttur um þetta rugl, þá er það útilokað, því miður. Samkvæmt fréttinni og leyfisblaðinu sem henni fylgir, kemur fram að Orkustofnun veitir þetta leyfi á eigin spýtur. Að vísu leitar hún umsagnar Hafrannsóknarstofnunnar um málið og kynnti síðan atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti um það ásamt utanríkisráðuneyti. Þá var tilkynning send til Landhelgisgæslu.

Ekkert kemur fram að ráðamenn þjóðarinnar hafi komið að þessu máli, hvorki núverandi ríkisstjórn né sú sem á undan var. Vísað er til laga frá 1979 og 2003 og virðist stofnunin telja sig hafa heimild til að veita leyfi til rannsóknar á hafbotninum samkvæmt þeim lögum. Mjög vafasamt er þó að þau heimili Orkustofnun slíkar leyfisveitingar innan landhelginnar og utan landsteina, enda svona ævintýri einungis komið í hugskot svæsnustu skáldsagnahöfunda, þegar þau voru sett.

Hafir þú eitthvað í pokahorninu um að Oddný Harðardóttir hafi átt þátt í þessari ákvörðun Orkustofnunnar, kannski afrit af viljayfirlýsingunni sem þú nefnir, væri gaman að fá að sjá það. Ekki myndi ég gráta það að geta kennt henni um.

Gunnar Heiðarsson, 10.6.2015 kl. 13:06

4 Smámynd: Svanur Guðmundsson

Hvaðan peningarnir koma er sagt frá á síðu disruptivecapital.com þar sem þeir segjast fjármagna verkefnið.

Aftur á móti hvað stendur í þessu skjali MoU sem vitnað er til og Oddný skrifar undir með þessum C. Hendry veit ég ekki, en væri áhugavert að sjá það skjal.

Svanur Guðmundsson, 10.6.2015 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband