Prósentur eða krónur

Atvinnurekendur og fleiri vilja gjarnan notast við prósentutölur, þegar kröfur SGS er ræddar. Segja að ekki komi til greina að samþykkja þær kröfur, enda um 50% launahækkun að ræða, að það yrði fordæmi fyrir aðra hópa sem eru á hærri launum.

Það kaupir enginn mat fyrir prósentur, kaupmaðurinn vill bara peninga. Því á auðvitað að ræða um upphæðir í krónum en ekki hverjar prósenturnar eru, þegar samið er um kjör.

Þá er spurning hver það er sem fordæmið skapar, hvort ekki megi allt eins nota krónufjöldann sem fordæmi í stað prósenta. Og auðvitað má líka velta fyrir sér hvers vegna fordæmið á endilega að koma neðanfrá. Það mætti allt eins koma ofanfrá. Raunin er þó auðvitað sú að þeir sem fyrstir eru til að semja skapa fordæmið og það hefur þegar verið skapað. Mestu mistök verkalýðsforustunnar voru að nota ekki frekar krónur en prósentur, þegar sótt var í þetta fordæmi, sem stjórnvöld og SA höfðu skapað.

En hverjar eru kröfur SGS, um hvað er rætt? Allir hafa heyrt töluna 50%, en hvað þýðir það í krónum? Í krónum talið er verið að ræða um upphæðir frá 98þ. til 127þ. króna hækkun. Það eru öll ósköpin. Þegar þetta er margfaldað með fjölda félagsmanna innan SGS, sem eru að fara í verkfall er heildarupphæðin rétt rúmur einn milljarður króna. Til að njóta sannmælis þá er kostnaður fyrirtækja auðvitað meiri, kannski nálægt einum og hálfum milljarði króna, þegar allt er til talið. Þetta er gjaldið fyrir að koma launum þeirra sem minnst hafa upp undir það mark að hægt sé að lifa af þeim. Ekki þurfa menn að óttast að það launafólk sem þessa aura fær fari að spreða þeim í vitleysu, eins og sumir hafa gefið í skyn. Einungis verður auðveldara að greiða reikningana, þó enn vanti upp á að hægt sé að standa í skilum með þá alla.

Í ljósi þess hvað fyrirtæki hafa verið að sýna mikinn hagnað í sínum ársuppgjörum, síðustu vikur, er ljóst að einn og hálfur milljarður vegur þar létt. Flest eða öll fyrirtæki landsins ættu leikandi að geta tekið á sig þessa launahækkun, án þess að velta henni út í hagkerfið. Þau sem það ekki geta eiga vart tilverurétt.

Það er einungis vegna þess hversu arfalág laun félaga innan SGS eru, sem prósentuhækkunin verður svo há. Þessar örfáu krónur sem fólk fer fram á virka því margar þegar þeim er umbreytt í prósentur.

En svo mætti alveg hugsa sér nýtt kerfi, að í stað króna væri alfarið talað um prósentur. Þá myndi mjólkurlítrinn kosta ákveðna prósentu að tekjum launamannsins og allar vörur og þjónusta reiknast á sama hátt. En meðan kaupmaðurinn krefst króna verður að ræða um krónur við gerð kjarasamninga.


mbl.is Lágmarkslaun séu 329.000 kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband