Spila sig út úr umræðunni
3.4.2015 | 10:52
Hugmynd forsætisráðherra um að nýta lóð og hús ruv fyrir nýjan landspítala er ekki verri en hver önnur. Í það mynnsta má segja að allar hugmyndir um byggingu nýs spítala á öðrum stað en við Hringbraut, sé góð. Jafn skjótt og hann hafði kastað fram þessari hugmynd hlupu pólitískir andstæðingar hans fram á völlinn og fundu þessu allt til foráttu. Ekki komu þó nein haldbær rök frá þessu fólki, var einna hellst að sjá og heyra að aðalmálið væri hvaðan hugmyndin kom, ekki efnisinnihald hennar.
Aldrei hefur komið fram nein haldbær skýring eða rök fyrir því að best væri að byggja nýjan landspítala við Hringbrautina. Þar sem viðnefninu "háskólasjúkrahús" var prjónað við landspítalann, töldu sumir að nálægðin við sjálfan Háskólann skipti miklu máli. Aldrei var þó sagt að hvaða leyti. Samgangur milli þessara stofnana er ekki svo mikill, þó læknanemar færi sig yfir á spítalann eftir því sem á námið líður. Því skiptir í raun engu hvar þessi spítali er, hvað það varðar.
Ef menn vilja endilega nýta gömul hús í þessa framkvæmd, hefði verið skynsamara að velja nýjum spítala stað við borgarspítalann, þó ekki væri af annarri ástæðu en þeirri að húsakostur þar er mun yngri en húsakostur landspítalans. Reyndar eru bæði þessi hús illa komin, þó landspítalinn sé sýnu verri.
Nálægð við flugvöllinn eru vissulega rök en aksturslega séð er gamli borgarspítalinn í Fossvogi mun nærri flugvellinum og lóð ruv enn nær. Við borgarspítalann er að auki þyrlupallur. Augljós nálægð ruv lóðarinnar við borgarspítala gerir það að verkum að samnýta má þessar tvær lóðir og byggingar á þeim. Af þeirri ástæðu einni er vert að skoða þessa hugmynd. Þannig væri nálægð við flugvöllinn tryggð, auk þess sem þyrluaðstaða er til staðar.
En borgarstjóri og forstjóri landspítalans horfðu ekki á efnisinnihald hugmyndarinnar. Borgarstjóra datt fyrst í hug að forsætisráðherra væri í einhverskonar fjármálabraski með þessari hugmynd og forstjórinn taldi þetta tefja byggingu nýs spítala. Þar með spiluðu þessir tveir menn sig út úr umræðunni, létu einhver annarleg sjónarmið ráða, í stað þess að skoða hvort þetta gæti hugsanlega flýtt byggingunni um einhver ár.
Forstjóranum er kannski vorkunn, fæðing þessa spítala hefur tekið lengri tíma en nokkurn óraði, enda staðsetningin alla tíð verið mjög umdeild, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og ekki að ástæðu lausu. Fáir staðir á gervöllu suðvesturlandi eru erfiðari aðgengis. Í raun er einungis ein akstursleið að spítalanum, eftir annarri þeirra gatna sem þjóna allri umferð til og frá miðborginni og vestur hluta hennar. Fyrir lifandis löngu er þetta umferðakerfi sprungið og ekki með neinu móti hægt að bæta þeirri umferð sem nýr landspítali mun kalla eftir, fyrir utan auðvitað neyðarakstrinum. Kannski borgarstjóri haldi að fólk mæti bara á bráðamóttökuna á reiðhjóli! Aðgengi að lóð ruv og borgarspítalanum er mun skárra og um fleiri leiðir þar að velja. Þarna kemur önnur ástæða til að skoða hugmyndina.
Það er aldrei of seint að snúa af villu síns vega. Það er augljóst að staðsetning nýs spítala við Hringbraut er stór slys. Verði af þeirri framkvæmd er ljóst að heilbrigðismál hér á landi fara þá mörg ár aftur í tímann. Bent hefur verið á nokkra staði, sem falla mun betur að þessari framkvæmd. Forsætisráðherra bætir þarna einum enn við. Það er ábyrgðahluti að kasta þeirri hugmynd frá sér, án þess að hún sé skoðuð. Flestir landsmenn eru á því að byggja þurfi nýjan landspítala og það sem fyrst. Forstjórinn telur að allar hugmyndir um nýjan byggingastað gæti tafið bygginguna um 10 - 15 ár. Engar forsendur lætur hann fylgja, enda þetta úr lausu lofti gripið. Um þetta er ekki hægt að fullyrða nema málið sé skoðað, hvort og þá hversu lengi frestast myndi að byggja. Hugsanlega gæti hugmynd forsætisráðherra, eða einhver önnur hugmynd, flýtt byggingunni. Þetta hefur aldrei verið skoðað, einungis einblínt á Hringbrautina. Og þó því sé haldið fram að einhverjir fræðingar hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú staðsetning væri hin eina rétta, hafa þeirra forsendur aldrei verið opinberaðar.
Jafnvel þó einhverjar tafir yrðu á byggingu nýs spítala, við það að færa hann á skynsamari stað, er sá fórnarkostnaður vel réttlætanlegur. Það má hugsa sér að á meðan ákvörðun er tekin um skynsamari staðsetningu og þessi nauðsynlegi spítali er byggður, verði hin fjölmörgu sjúkrahús á landsbyggðinni sett í fullan gang að nýju. Þannig má létta verulega álag á landspítalanum. Víða um land standa flottir spítalar nánast ónotaðir, fullbúnar skurðstofur eru ekki notaðar og fólkinu sagt að fara bara til Reykjavíkur, vanti því smá aðstoð. Þetta er stór hluti vanda landspítalans í dag. Þá má vel hugsa sér að þau sjúkrahús sem næst eru höfuðborginni og illa nýtt, taki að sér ýmis sérverkefni. Þannig má létta enn frekar á landspítalanum.
Vandi landspítalans er vissulega stór og virðist lítið minnka þó fjárframlög til hans séu nú hærri en nokkurn tímann áður. En sá vandi er kannski að minnstum hluta vegna húsakosts. Hann má miklu frekar rekja til þess að ákveðið var að skerða fjárframlög til heilbrigðismála, fyrstu árin eftir hrun. Svo hart var gengið fram í þessu að flest landsbyggðasjúkrahúsin nánast lögðu upp laupana og sum svo að þjónustan þar er nánast engin. Flott sjúkrahús, með flottum skurðstofum var þarna gert ógerlegt að halda læknum og þurftu því að loka skurðstofum og skerða þjónustu. Landspítalinn varð vissulega fyrir barðinu á þessum niðurskurði, auk þess að þurfa að taka á sig þá vinnu sem önnur sjúkrahús höfðu áður sinnt. Svo var komið að fyrir lá að skerða þyrfti verulega rekstur landspítalans og jafnvel loka deildum, þegar loks ný ríkisstjórn tók við völdum. Hennar fyrsta verk var að treysta rekstur landspítalans og nú er svo komið að þessi stofnun fær meira fé á fjárlögum en nokkurn tímann áður. Enn á þó eftir að vinna upp þann skaða sem niðurskurðurinn olli. Í þessi liggur vandi landspítalans fyrst og fremst. Húsakostur er ekki vandi, þó vissulega betur megi gera þar líka. Það er þó engin ástæða til að bæta hann með einhverju offorsi, sem síðar mun skaða þessa stofnun og færa heilbrigðismálin langt aftur í tímann. Það skiptir litlu máli að hafa flott hús, fyllt af tækjum af nýjustu gerð, ef aðgengið að því húsi, með öllum tækjunum, er með þeim hætti að flestir eru dauðir þegar þeir loks ná þangað inn.
Því ættu stjórnvöld, nú þegar rekstur landspítalans er kominn á rétt ról, að einhenda sér í að landsbyggðasjúkrahúsin komist aftur í gagnið. Síðan má byggja nýjan landspítala, þegar skynsamleg staðsetning er fundin.
Bregst við gagnrýninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar ég fyrst las þessa frétt hélt ég þetta vera vel lukkað aprílgabb. Ég hélt að þarna væri verið að hæðast að þjóðernisöfgum SDG og ekki spillti fyrir að hann tók sjálfur þátt.
Hugmyndin er að mínu mati fráleit og eru fyrir því margar ástæður:
Ef það er ekki beinlínis brot á höfundarrétti að nota teikningu látins arkitekts og breyta er það allavega misvirðing við minningu hans.
Ytra útlit endurspeglar innri starfsemi. Innri starfsemi verður að miklu leyti allt önnur en skv teikningu Guðjóns.
Hús eru hönnuð fyrir ákveðna staðsetningu á lóð og í ákveðið umhverfi. Slík staðsetning er ekki lengur möguleg og umhverfið er mjög breytt. Það þarf því að hugsa dæmið upp á nýtt.
Ég tel engar líkur á að virtir arkitektar séu tilbúnir til að taka þátt í verkefni af þessu tagi.
Ásmundur (IP-tala skráð) 3.4.2015 kl. 11:41
Biðst afsökunar á að halda mig ekki við efnið heldur fjalla um önnur misvitur ummæli SDG um skipulag- og byggingamál.
Varðandi Landsspítalann þá hef ég verið á móti staðsetningu hans við Hringbraut. Ég hefði kosið að stækka spítalann í Fossvogi sem var niðurstaða danskra sérfræðinga sem voru ráðnir til að veita ráðgjöf um staðsetninguna. Það er að vísu orðið erfiðara núna vegna bygginga sem síðan hafa risið.
Ég sé hins vegar ekki að það náist betri samstaða um staðsetningu annars staðar í bráð. Þess vegna mun það aðeins tefja byggingu nýs sjúkrahúss um allt of langan tíma að hætta við byggingu hans við Hringbraut.
Ég held að það sé slæm hugmynd að taka lóð RÚV undir spítala enda held ég að hús RÚV henti afar illa til slíkrar starfsemi, lóðin sé allt of lítil auk þess sem umferðarmálin verði í ólestri.
Ásmundur (IP-tala skráð) 3.4.2015 kl. 12:03
Ég fyrirgef þér flónskuna Ásmundur, öllum getur orðið á.
Varðandi seinni athugasemdina, þá er enn nægt pláss til að stækka borgarspítala, þó byggð hafi færst nær. Reyndar væri hægt að hafa þennan nýja landspítala helmingi stærri en ráð er fyrir gert og koma öllu því byggingamagni fyrir á lóð borgarspítala. Þess vegna er í sjálfu sér engin þörf á að taka lóð ruv undir spítalann, nema ef það gæti flýtt fyrir uppbyggingu hans. Þess vegna má ekki kasta hugmyndinni frá sér óskoðaðri.
Það er verst að nánast búið sé að byggja lúxus fangelsi á flugvallarstæðinu á Hólmsheiði. Væri það ekki í gangi, hefði ruv húsið henntað einstaklega vel undir þá starfsemi. Hús sem hlutfallslega hefur lítið af útveggjum, er með kjallara hálfa leið til Kína og að stórum hluta hljóðeinagrað. Hvað er hægt að hugsa sér betra, fyrir fangelsi.
Gunnar Heiðarsson, 3.4.2015 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.