Er fyrirtækjarekstur útilokaður á Íslandi ?
6.3.2015 | 08:52
Maður hlýtur að spyrja sig þeirrar spurningar hvort fyrirtækjarekstur á Íslandi sé yfirleitt mögulegur. Miðað við málflutning þeirra sem að slíkum rekstri standa, virðist þetta einungis vera fjarlægur draumur.
Engin frétt á fréttamiðlum segir þó frá efnahagsreikning fyrirtækis sem barðist í bökkum á síðasta ári. Allar slíkar fréttir eru af gífurlegum gróða þeirra, þó sum fyrirtæki telji gróðann undir væntingum og kvarti vegna þess. Það er því erfitt að finna tölulegar staðreyndir þess að erfitt sé að reka fyrirtæki hér á landi. Það er sama úr hvaða geira fréttir berast af efnahagsreikningum fyrirtækja, öll eru rekin með góðum hagnaði og sum mjög góðum.
Atvinnurekendur kvarta yfir launatengdum gjöldum og vissulega má taka undir þá gagnrýni. Þarna er í raun verið að tvískatta framlag launafólks, fyrst með tekjuskatti og síðan ýmsum launatengdum gjöldum. En ríkið þarf sitt og ef launatengd gjöld væru afnumin, myndi þessi skattlagning einfaldlega lenda með öðrum hætti á launafólki og fyrirtækjum. Laun þyrftu því að hækka og fyrirtæki að borga sinn skerf til ríkissjóðs eftir öðrum leiðum.
Þá er vinsælt, svona í undanfara kjarasamninga, að halda því fram að hækkun launa þýði aukna verðbólgu og gjarnan sett sama sem merki þar á milli, þ.e. hvert prósent sem laun hækka aukist verðbólgu um sama prósent. Önnur eins þvæla er fáséð. Til að svo megi vera þarf launakostnaður að vera 100% af rekstrakostnaði fyrirtækis! Það er auðvitað gjörsamlega útilokað, þar sem öll fyrirtæki þurfa eitthvað húsnæði, tækjakost og hráefni. Launahækkun hefur einhver áhrif, en mjög lítil, á kostnað við húsnæði, einhver áhrif á hráefni, sé það innlent og nánast eingin áhrif á tækjakost, sem að lang stæðstum hluta er innfluttur. Því eru hverfandi áhrif sem launahækkanir hafa á þennan rekstrarkostnað fyrirtækja.
Hversu stór hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækis launakostnaður er, er auðvitað mjög misjafnt. Þar spila auðvitað inn í eðli þess rekstrar sem fyrirtækið stundar. Sumir hafa nefnt að þessi kostnaður sé 70% og ljóst að sú tala er gjörsamlega út úr kú. Kannski má finna einhver fyrirtæki þar sem launakostnaður er svo hár, en ég veit þó ekki hvar það gæti gerst. Vitað er að launakostnaður í stóriðjunni er um 8% til 10% og sennilega ekki mörg fyrirtæki sem hafa lægra hlutfalla launakostnaðar af rekstrarkostnaði. Einhvern tímann, fyrir nokkrum árum síðan, heyrði ég að meðallaunakostnaður af rekstrarkostnaði fyrirtækja hér á landi lægi nálægt 30-35%. Síðan þá hefur orðið mikil þróun á mörgum sviðum. T.d. hefur orðið gífurleg þróun í fiskvinnslu, þar sem vélar taka yfir sífellt fleiri störf og svo mætti lengi telja.
Það er því ljóst að hvert prósent sem laun hækka ætti verðbólguhvati að vera um eða innanvið 0,3%. Það er ef fyrirtæki velta öllum kostnaði vegna launahækkunarinnar út í verðlagið, svo hagnaðurinn skerðist ekki.
Það er annars magnað að hlusta á atvinnurekendur, svona í undanfara kjarasamninga og meðan á þeim stendur. Þeir þykjast bera hag launafólks fyrir brjósti og vara við verðbólgudraugnum. Því megi ekki hækka launin. Á sama tíma opinberast efnahagsreikningar fyrirtækja landsins sem sýna mikinn hagnað þeirra. Arðgreiðslur eru í hæðstu hæðum.
Ef atvinnurekendum er svo umhugað um sína starfsmenn ættu þeir auðvitað að láta þá njóta einhvers af þessum hagnaði. Miðað við málflutning þeirra og hversu mikil áhrif launahækkanir hafa á fyrirtæki og hagkerfið, er ljóst að það voru jú starfsmennirnir sem bjuggu hagnaðinn til fyrir atvinnurekendann. Ekki hann, ekki eigendurnir, ekki tækjakosturinn eða hráefnið. Hagnaðinn er að öllu leyti að þakka starfsfólki fyrirtækisins, samkvæmt rökum atvinnurekenda!!
Tveggja tölustafa hækkun ekki í boði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrirtæki sem er með 70% kostnað af veltu í launum, er alls ekki rekstrarhæft og leyfi ég mér að fullyrða að svoleiðis fyrirtæki sé ekki til. Þessi umræða að fyrirtækin geti ekki borgað hærri laun er bara tómt kjaftæði og ég er hissa á verkalýðsforystunni að gleypa þetta kjaftæði alltaf hrátt. Getur þetta haft eitthvað með það að gera að margir verkalýðsforkólfarnir, eru með marga góða "bitlinga" innan ýmissa fyrirtækja, t.d frímiða fyrir sig og fjölskylduna hjá Icelandair og fleira??????????
Jóhann Elíasson, 6.3.2015 kl. 16:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.