Þegar æðstiklerkur tapaði trúnni
2.3.2015 | 11:19
Trú er eitthvað sem vafasamt er að tala um á Íslandi. Fara þarf varlega svo ekki komi á mann stimpill rasisma. Nokkuð er sama hver trúin er, eða út á hvað hún gengur, þeir sem aðhyllast viðkomandi trú telja að sér ráðist, ef einhver efast opinberlega. Sammerkt með flestum trúarbrögðum er einhverjir trúarleiðtogar leiða fólkið sitt. Misjöfn starfsheiti bera svo þessir æðstuprestar.
Ein er sú trú hér á landi er trúin á ESB. Fá trúarbrögð innihalda jafn viðkvæma trúbræður en einmitt þessi trú. Sumir svo trúheitir að engu máli skiptir hvað rætt er, alltaf þarf að koma ESB að málinu. Enginn opinber trúarleiðtogi hefur þó verið skipaður meðal bræðralags ESB sinna, en þeir sem þekkja sögun geta vel samþykkt að einn maður öðrum fremur hefur ljáð sína starfskraft til trúarinnar á ESB. Fyrst sem stjórnmálamaður en síðar sem opinber starfsmaður. Þetta er Jón Baldvin Hannibalsson. Enginn ber því betur titil trúarleiðtoga ESB sinna á Íslandi en einmitt hann.
En nú hefur þessi æðstiklerkur ESB sinna hlaupið af trúnni. Í viðtali á Eyjunni á stöð 2 gaf hann Evrópusambandinu falleinkunn, svo hressilega að stjórnandi þáttarins fipaðist og varð að láta klerkinn endurtaka orð sín. Jón sagði m.a. að ESB væri í fjármálalegri krísu, bæði lánakrísu og bankakrísu. Þá sagði hann að sambandið hrjáði einnig pólitísk krísa, þar sem Þýskaland hefði þröngvað sinni pólitík upp á önnur riki þess. Þá klykkti Jón Baldvin út með því að tvítaka að Ísland væri alls ekki á leið inní ESB og heyra mátti á honum að það væri fjarstæðukennt að halda annað. Ekki var því annað að skilja á Jón Baldvin en að hann væri þarna að kasta frá sér trúnni á ESB.
Það var fleira sem Jón Baldvin ræddi í þessu viðtali. Ástandið í austur Evrópu tók kannski mestan tíma viðtalsins, en einnig ræddi hann um fjármagnshöftin. Taldi hann lítið mál að losa þau, einungis setja svokallaðan "win for game tax", þ.e. að ofurskattleggja það fjármagn sem fólk vill flytja úr landi.
Það er spurning hvort er betra, að hafa höft á útflutningi fjármagns eða hafa þann útflutning bundinn ofursköttum. Fyrir þann sem á fjármagnið breytir þetta sjálfsagt litlu. Hugmyndafræðin að baki þessari "lausn" Jóns Baldvins er því frekar grunn, ef einhver.
Það sem kemur þó mest á óvart, er að Jón Baldvin Hannibalsson var í forsvari fyrir þjóðina við gerð EES samningsins. Sá samningur tengir okkur fjármálalega við ESB og samkvæmt honum er nánast öll mismunun bönnuð í meðferð fjár. Það er að hluta vegna þessa samnings sem svo mikil áhersla er lögð á afnám fjármagnshafta. Sami samningur myndi að sjálfsögðu verða notaður til að afnema slíkan ofurskatt sem Jón nefnir. Þetta ætti enginn Íslendingur að vita betur en einmitt Jón Baldvin Hannibalsson.
Hitt er svo aftur annað mál að fyrir löngu er kominn tími til endurskoðunar á EES samningnum. Kannski að Jón telji þann samning ekki lengur þjóna tilgangi sínum, vegna sýkingar af Þýskum stjórnmálum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.