Framtíðin er enn framundan

Vissulega er hægt að segja að rafbílar séu framtíðin, einmitt framtíðin. Enn vantar nokkuð uppá að sú framtíð sé komin.

Að vísu hefur orðið nokkur þróun í drægni rafbíla og hleðslustöðvum fyrir þá. e-Golf dregur allt að 190 km á hleðslunni, við bestu aðstæður og með hraðhleðslustöð er hægt að hlaða rafhlöðuuna allt að 80% á 30 mínútum og bæta þannig við drægnina 150 km. Og jafnvel þó þarna sé verið að tala um bestu aðstæður, voru svona tölur einungis draumórar fyrir nokkrum árum.

Þessi drægni, við bestu aðstæður, gæti skilað manni austur að Vík í Mýrdal, vestur á Arnarstapa eða norður til Hvammstanga. Reyndar þyrfti maður að labba síðustu kílómetrana á Hvammstanga. Þetta miðast auðvitað við bestu aðstæður, meðan rafhlaðan er ný og hitastig hagstætt. Sambærilegur sjálfskiptur Golf kæmist hins vegar fram og til baka og vel það á einum tank. Þó drægni e-Golf sé vissulega meiri en flestra rafbíla í svipuðum verðflokki, er hún enn nokkuð langt frá því að vera ásættanleg.

VW býður uppá 8 ára ábyrgð á rafhlöðu. Þetta er vissulega nokkuð nýmæli og til eftirbreytni. Þetta tryggir rúmlega 100.000 km akstur á rafhlöðunni, miðað við þær forsendur sem málsvari Heklu telur vera meðaltalsakstur okkar Íslendinga. Hver ending rafhlöðunnar er, er aftur á móti eitthvað feimnismál hjá framleiðendum þessara bíla. Einungis einn bílaframleiðandi, Chevrolet, hefur gefið út slíka yfirlýsingu, þ.e. að ending rafhlaðna geti verið allt að 100.000 km akstri.

Trú VW virðist þó vera eitthvað betri, a.m.k. ef tekið er mið af ábyrgðinni sem þeir bjóða. Ekki er þó hægt að fá uppgefið hversu lengi eftir þann tíma rafhlaðan endist, að öðru leiti en því að þeir segja að hún endist bílinn. Það er vissulega sjónarmið, þar sem bíllinn er í raun ónýtur þegar rahlaðan klárast, ekki grundvöllur fyrir endurnýjun hennar vegna kostnaðar. En segir þó lítið um endingartíma, einungis að það muni að öllum líkindum vera rafhlaðan sem ákvarði endingu bílsins. Hvort sá tímapunktur er skömmu eftir að rafhlaðan fellur úr ábyrgð, eða eitthvað síðar.

Það sem þó á lengst í land með að vera ásættanlegt við rafbíla er verðið. Jafnvel þó rafbílar séu verulega niðurgreiddir af ríkissjóð er verð þeirra algjörlega út úr kú. Verðmismunur á e-Golf versus sambærilegum sjálfskiptum Golf með bensínvél er svo mikill að fyrir mismuninn má kaupa bensín sem dugir til aksturs í tæp 6 ár! Þá er eftir að reikna rafmagnskostnaðinn á e-Golfinn, en hann er auðvitað einhver. Það þarf eitthvað stórkostlegt að vera að þegar fólk horfir framhjá þessari staðreynd. Jafnvel þó umhverfissjónarmið séu sterk.

Sem fyrr segir eru rafbílar framtíðin, sérstaklega hér á landi með okkar vistvænu og til þess að gera ódýru orku. En sú framtíð er ekki kominn. Til þess þarf að þróa rafhlöðuna enn frekar, lækka framleiðslukostnaðinn og jafnvel hugsa málið út frá nýjum grunni. Útskiptanlegar rafhlöður hafa heyrst og kannski það sé lausnin. Með því er þeim ókosti að ending bílsins fari eftir endingu rafhlöðunnar útrýmt, tími við hleðslu og drægni færi þá alfarið eftir því hversu þétt net skiptistöðva væri. En þá þurfa auðvitað allir framleiðendur að koma sér saman um að nota eins rafhlöður, svo dæmið gangi upp.

Það hefur verið gaman að fylgjast með þróun rafbíla og sú ánægja á eftir að endast um nokkurn tíma enn, kannski nokkuð langann.

 


mbl.is Rafmagnaðir VW e-Golf afhentir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband