Síðasta hálmstrá Össurar
2.2.2015 | 08:20
Til mikilla óheilla fyrir land og þjóð var Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra okkar lands frá 1. febrúar 2009 til 23. maí 2013. Eitt af hans fyrstu verkum í starfi var að sækja um aðild að ESB, þvert á vilja þjóðarinnar og einungis með stuðningi hluta ríkisstjórnarinnar.
Að þessu máli vann hann síðan óskiptur allt þar til umsóknar og aðlögunarferlið sigldi í strand, tveim árum síðar. Þá sneri hann sér að Kína.
En evrudraumurinn er þaulsetinn Össur, jafnvel þó draumurinn sé orðinn að martröð, þar sem öll rök fyrir aðild hafa fallið, hvert af öðru, eins og spilaborg.
Fulltrúar ESB voru ekki tilbúnir að halda áfram viðræðum nema íslensk stjórnvöld gæfu eftir í sjávarútvegsmálum. Þetta var upplýst á árinu 2011 og eftir það í raun engar viðræður, þó að forminu til hafi þær verið í gangi fram að upphafi árs 2013, þegar Össur setti þær í formlega bið. Þá þegar hafði hann sjálfur sýnt í verki að viðræðurnar væru strandaðar, með samningum við Kínverja.
Síðan þetta var hefur þróun innan ESB, einkum evruríkja, verið á þann veg að öll rök sem týnd voru til sumarið 2009 hafa fallið. Sú trygging sem sambandið átti að gefa minni ríkjum, einkum í fjármálakrísu, er ekki til staðar. Þvert á móti er þessum ríkjum harðlega hengt. Evran er að hruni komin og óvíst hvort henni verður bjargað. Að minnsta kosti verður um allt aðra evru að ræða, ef tekst að bjarga henni, en evran sem gilti sumarið 2009. Nú þegar er orðinn mikill munur þarna á.
En Össur er ekki af baki dottinn. Þó hann geti ekki nefnt þau rök sem hann hélt fram þegar umsókninni var nauðgað gegnum alþingi, þeim rökum að viðræðuferlið yrði stutt, að vera í ESB væri skjól fyrir smærri ríki og að evran væri galdragjaldmiðill, þá hefur hann nú fundið eitt hálmstrá. Og þetta hálmstrá heldur hann dauðataki í.
Hálmstrá Össurar felst í Sjálfstæðisflokknum! Hann leitar ekki lengur til samherja um stuðning við sinn draum, heldur andstæðinganna.
En hálmstrá Össurar er fúið, er sinustrá sem mun ekki halda honum á floti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.