Það er af sem áður var
3.1.2015 | 07:57
Í fréttum ruv í gærkvöldi var mikið látið með það að samningsfundur í kjaradeilu Læknafélags Íslands hefði staði í níu klukkutíma og nú flytur fréttavefur mbl svipaða frétt af deilu skurðlækna við ríkið, þó kannski sé ekki eins mikið gert úr lengd fundarins þar eins og í frétt fréttastofu ruv af hinum fundinum.
Er það virkilega svo að það sé fréttaefni ef samningsfundur í kjaradeilu stendur lengur en átta klukkutíma? Er kannski komin upp stimpilkukka hjá ríkissáttasemjara?
Það er af sem áður var, þegar menn mættu með svefnpoka undir höndum til sáttafunda í kjaradeilum, sérstaklega eftir að deilum hafði verið vísað til sáttasemjara. Þá kom oftar en ekki fyrir að deiluaðilum var haldið innan lokaðra dyra þar til samningur lá á borðinu, hversu langann tíma sem það tók. Stundum komu út úr þessari aðferð kjarasamningur sem erfitt var að fá samþykktann hjá umbjóðendum þeirra sem undir þá rituðu, en flestir gerðu sér þó grein fyrir því að ekki yrði lengra náð, fyrir hvorugann aðilann. Að reynt hafði verið til þrautar.
Þegar verkföll vofa yfir á ríkissáttasemjari hiklaust að halda nönnum við efnið, svo lengi sem þarf. Hann á ekki að slíta fundi fyrr en samningur hefur náðst. Það er síðan umbjóðenda samningsaðila að ákveða hvort sá samningur er ásættanlegur. Þó deilan virðist í hnút og nánast óleysanleg, verður að halda mönnum við efnið. Þannig og einungis þannig er hægt að leysa hnútana, hversu óviðráðanlegir sem þeir virðast vera.
Kjarasamningur verður aldrei til nema unnið sé að honum og verður að segjast að ríkissáttasemjari virðist ekki gera sér grein fyrir sínu hlutverki.
Samningar tókust ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.