Frjálslega farið með staðreyndir
20.7.2014 | 13:19
Það verður að segjast að fréttamaðurinn sem þessa grein skrifaði fer frjálslega með saðreyndir, nú eða skortir þekkingu á efni fréttarinnar. Hvort heldur er, þá er þarna mikið fúsk af hendi fréttaritara.
Wankel mótorinn var hannaður af þjóðverjanum Felix Wankel og fyrsta einkaleyfið sem hann fékk fyrir þá hönnun var gefið út seint á þriðja áratugnum. Það var síðan ekki fyrr en í upphafi þess sjötta sem Wankel gerði samning við bílaframleiðandann NSU um framleiðslu þessarar vélar. Því er upphaf hennar að rekja aftur til þriðja áratugar síðustu alda, en ekki þess sjöunda eins og fram kemur í fréttinni. Fjöldaframleiðslu vélarinnar má rekja aftur til upphafs sjötta áratugarins.
Hins vegar gerðu Mazda og NSU með sér samning um að Masda fengi að nota þessa hönnun, á sjöunda áratugnum.
Það hafa verið erfiðleikar með þessa vél, það er rétt hjá fréttaritaranum. Þeir erfiðleikar hafa einkum verið vegna slits á núningsplötunum fremst á kólfum vélarinnar, sem liggja að sprengirýminu. Mazda náði nokkrum árangri með lausn þessa vanda meðan fyrirtækið var með vélina í sínum bílum. Þó var eins og alltaf vantaði herslumuninn á að vandinn væri úr sögunni.
Þessi mótor er í grundvallaratriðum gjör ólíkur þeim sprengivélum sem algengastar eru. Það eru engir stimplar í þessari vél og afl hennar á hvern rúmsentimeter sprengirýmis er miklu meira en í hefðbundnum vélum. Þá er vélin mjög lítil um sig og létt.
Það er ánægjulegt að Masda ætli nú að hefja framleiðslu vélanna aftur og kannski er lausn vandans einmitt falin í því að vera með vélina minni, nær upphaflegu hugmynd Wankels.
Ef satt reynist að Masda 2 með Wankelmótor muni einungis eyða rétt rúmum 2 lítrum á hundraðið, er ljóst að þarna er kominn margfallt betri kostur en rafmagns eða tvinnbíll. Sér í lagi ef reiknuð er mengun og kostnaður frá hönnun til eyðingar.
Wankelvélin snýr aftur í Mazda 2 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.