Sparisjóðirnir - hvers vegna?
15.4.2014 | 04:33
Þeir sem hafa gluggað í skýrsluna um ris og fall sparisjóðakerfisins sjá fljótt að þar fór hin alræmda græðgi hamförum.
Það fer enginn í grafgötur með að löggjafinn átti þátt þar að máli, þó sennilega engann hafi grunað hversu illa færi. En græðgin er einstök og eyrir engu. Eftirlitsaðilar brugðust og stóðu ekki sína plikt, þrátt fyrir að þeim hafi verið bent á hvert stefndi. Þeir höfðu þó allt sem þurfti til að kæfa græðgina strax í upphafi, en kjarkinn vantaði. Sennilega má þó segja að fjórðavaldið hafi brugðist mest. Það vald á að skoða mál til grunna og útvarpa því til þjóðarinnar. Í stað þess að þjóna þjóðinn spilaði fjórða valdið með græðgisöflunum.
Þegar þetta kerfi fór að falla saman, eftir nokkurra ára græðgisvæðingu, var öllum ljóst að hið eiginlega sparisjóðakerfi var löngu fallið og einungis nöfnin ein eftir á hardcore bankastarfsemi. Þetta var öllum ljóst, enda staðreyndirnar hrópandi. Því átti ekki að koma neinum á óvart þó þetta svokallaða sparisjóðakerfi, sem í raun var bara einfaldlega einkarekin bankastarfsemi, myndi falla samhliða hinu bankakerfinu. Það var jú enginn munur á rekstri þessara banka, hvort sem þeir báru fornafnið "sparisjóður" í sínu nafni, eða ekki. Græðgin var ráðandi í þeim öllum og því fór sem fór.
Það er því í sjálfu sér ekki mikið sem kemur á óvart í þessari skýrslu, utan eitt atriði. Það er sú ákvörðun þáverandi fjármálaráðherra, eftir að allt var hrunið, að kippa tveim "sparisjóðum" út úr drullunni og kasta á þá fé. Þetta gerði ráðherrann ekki einungis án aðkomu Alþingis, heldur fékkst hann ekki með nokkrum ráðum til að upplýsa þingmenn um hvað að baki lá þessari ákvörðun. Hvort þarna var farið á svig við lög, eða þau beinlínis brotin, munu auðvitað þartilbær yfirvöld skoða. Af þeim fjölda atriða sem skýrsluhöfundar sendu sérstökum til skoðunnar, hlýtur þetta að vera þar á meðal.
En hvað olli þessari ákvörðun þáverandi fjármálaráðherra? Hvers vegna ákvað hann að velja tvo "sparisjóði" og kasta á þá fé? Þeir voru báðir fallnir, eins og allt bankakerfið, það var útilokað að skilgreina þá sem einhverskonar sparisjóði, þar sem þeir höfðu verið reknir sem hardcore bankar um nokkurt skeið fyrir fallið. Hvað var það sem rak ráðherran til þessa verks, vitandi að þar væri verið að kasta fé á glæ?
Og enn er fjórða valdið máttlaust. Það gerir enga tilraun til að varpa ljósi á málið, heldur er einungis coperað úr skýrslunni og sett saman á þann hátt sem vit þeirra sem þar starfa gefur. Þetta veldur svo enn meiri ruglingi og enn meiri þrá eftir einhverjum sannleik.
Þó var gerð máttlaus tilraun til að fá upp úr fyrrverandi fjármálaráðherra einhver svör við því hvers vegna hann gerði þetta axarskaft. Eins og hans var von og vísa þá kom lítið vitrænt frá honum, þó orðin hafi verið sterk og sjálfsagt hnefinn kreppst. Það mátti þó skilja á svari hans að hann hefði talið að verja hafi þurft sparisjóðakerfið. Ekki hafði fréttamaður kjark eða vit til að spyrja mannin hvort leiðin til þess væri að taka tvo fallna einkarekna banka og kasta á þá fé, hvort hann hafi ekki áttað sig á að sparisjóðakerfið hafi fyrir löngu gufað upp, þó nokkrir bankar feldu sig bakvið nafnið!!
Það er vitað hvað olli risi sparisjóðanna og falli þeirra. Eftir stendur spurningin hvers vegna kastað var tugum milljarða inn í þetta kerfi, sem fyrir löngu var búið að einkavæða og það fallið til botns. Það stendur enn eftir spurningin hvers vegna einmitt þeir tveir bankar úr þessu kerfi voru valdir til að kasta fé í, þeir voru jafn fallnir og allir hinir.
Árangurinn varð eins og allir vissu, fullkomið tap á þessum tugum milljarða króna, sem teknir voru úr tómum ríkiskassanum, með yfirdrætti!! Á þessu ber einn maður ábyrgð og hann hlýtur að þurfa að standa henni skil!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.