Gleðilegur viðsnúningur hjá Árna Pál ?

Mikið er gleðilegt að formaður Samfylkingar skuli loks vera að átta sig hversu mikilvægt er fyrir okkur sem þjóð að halda fullveldi. Hann segist aldrei muni samþykkja afsal þess. Að vísu er ekki að sjá að meining hans sé mikil, þar sem hann hnýtir við þetta að slíkt afsal sé í lagi ef því fylgi full aðild að ESB. 

Með aðild að ESB telur formaðurrinn að við fáum þvílík völd innan sambandsins að fullveldinu verði haldið og gott ef við bara verðum ekki þar ráðandi afl.

Þann 1. nóvember næstkomandi taka gildi ný viðmið um vald þjóða innan ESB, en þetta er ein af þeim breytingum sem Lissabonsáttmálinn felur í sér. Samkvæmt þessum breyttu viðmiðum verður vægi stærri þjóða aukið á kostnað hinna minni, auk þess sem neitunarvald einstakra ríkja innan ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar verður aflagt.

Samkvæmt þessum viðmiðum mundi Ísland, ef það gerist aðili, fá 6 þingmenn af 751 á Evrópuþinginu. Þetta er nálægt því að vera um 0,8% vægi. Til að koma málum áfram innan framkvæmdastjórnar mun þurfa fylgi 55% ríkja sambandsins og að lágmarki þurfa þau ríki að hafa a.m.k. 65% íbúafjölda sambandsins að baki sér. Til að koma í veg fyrir samþykkt tillagna innan ráðsins þarf að minnsta kosti þann fjölda fulltrúa að þeir hafi 35% íbúa sambandsins að baki sér. Þessi regla kemur í stað neitunnarvaldsins sem nú er.

Það er því ljóst að vægi okkar innan Evrópuþingsins er 0,8% og þar sem íbúafjöldi Íslands er einungis um 330.000 á móti 500.000.000 íbúafjölda ESB ríkja, verður ekki annað séð en að vægi okkar innan framkvæmdaráðs og ráðherraráðs verði enn minna!

Það er því ekki að sjá að mikill munur sé á afsali fullveldis, hvort sem við fáum aðild að ESB eða ekki. Í báðum tilfellum yrði slíkt afsal varanlegt og að fullu.

Hitt er svo annað mál að það vekur ugg þegar stjórnarþingmenn taka undir kröfu ESB um valdaafsal og að rökin fyrir slíku afsali sé til að uppfylla túlkun ESB á EES samningnum.

Þegar sá samningur var gerður, án aðkomu þjóðarinnar, var því fastlega haldið fram að í honum fælist ekkert valdaafsal. Þannig var samningurinn kynntur þjóðinni og þannig var samningurinn kynntur Alþingi, fyrir afgreiðslu hans. Þessari túlkun hefur aldrei verið mótmælt, hvorki af ESB né þeim þjóðum sem með okkur tóku þátt í honum. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem krafa ESB um nýja túlkun þessa samnings hefur komið fram.

En samningur er samningur og öllum aðilum skylt að standa við sinn hluta hans. Ef það er svo að sú túlkun um að hann feli ekki í sér valdaafsal er röng, er auðvitað komin upp ný staða varðandi þennan samning. Þá þarf auðvitað að endurskoða samninginn í heild sér, eða fá samþykki þjóðarinnar fyrir honum. Sú eðlisbreyting sem þá hefur orðið á samningnum gerir hann ómerkann nema með aðkomu þjóðarinnar.

Ef, hins vegar, að túlkunin sem hingað til hefur gilt, er rétt, eiga stjórnarherrarnir einfaldlega að benda á þá staðreynd. Þeir eiga þá að gera ESB grein fyrir því að samningurinn sé enn í gildi og öllum aðilum skilt að fara að honum. Samþykki ESB það ekki verður að líta það sem slit samnings.

Ég er því sammála formanni Samfylkingar, það kemur ekki til greina að samþykkja valdaafsal þjóðarinnar. Þar skiptir engu máli hvort rætt er um EES samninginn eða aðild að ESB. Í báðum tilfellum er valdaafsalið endanlegt og að fullu!!

 


mbl.is „Ég mun aldrei styðja það“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir frábæran pistil, sammála.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.3.2014 kl. 23:38

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér reiknast nú tila að vægið á Evrópuþinginu sjálfu verði á bilinu 0,6-0,3 prósent. Mannfjöldavægið gerir það svo að verkum að þær þjóðir sem hafa hagsmuna að gæta hér innan fiskveiðilögsögunnar geti og muni valta yfir okkur í einu og öllu..

Þegar ég var á Tý í síðasta þorskastríði, þá voru þessar þjóðir, bretar, Þjóðverjar, Frakkar, spánverjar og portúgalir.

Þegar talað er um margtugginn atkvæðarétt okkar innan ESB og frasann að sitja við borðið í ákvarðanatökum, þá snýst það um aðeins eitt málefni frá okkar bæjardyrum séð, þ.e. Fiskveiðar.

Hvað ímynda menn sér að við komumst langt með 0,6% okkar í glímu við þessar þjóðir?

Ég get sagt þeim það: ekkert. Ekki spönn úr rassgati. Ekki einu sinni þótt við nytum stuðnings allra hinna.

Eru menn ekki að fara að sjá ljósið í þessu?

Jón Steinar Ragnarsson, 21.3.2014 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband