Draumórar forstjórans

Það er vissulega ástæða til að skoða hvað veldur því að Landsvirkjun getur ekki afhent það rafmagn sem fyrirtækið hefur skuldbundið sig til. Þetta er gífurlegt tap fyrir Landsvirkjun og ekki minna fyrir þau fyrirtæki sem kaupa rafmagnið. Það tap er auðvelt að reikna og skiptir það hundruðum milljóna, jafnvel milljörðum króna, þegar allt er talið. Það sem er þó enn verra og erfiðara að reikna til peninga, er sú staðreynd að meðan svona ástand ríkir er lítil von til að fá fjárfesta til landsins. Það fer enginn að fjárfesta í landi þar sem viðvarandi orkuskortur ríkir.

Meðan ástandið er með þessum hætti lifir forstjóri Landsvirkjunnar í draumaheimi. Hann dreymir sæstreng og vindmillur.

Sæstreng sem ekki er til tækni til að leggja og engin von er til að muni nokkurntímann borga sig. Rökin fyrir þeim sæstreng voru lengi framanaf hjá forstjóranum að svo mikil umframorka væri í kerfinu. Þegar síðan kom í ljós að enga umframorku var að finna, heldur orkuskort, skipti hann einfaldlega um rökfærslu og taldi nauðsyn að leggja strenginn til að tryggja nægt rafmagn frá útlöndum!! Önnur eins fáviska hefur ekki heyrst í háa herrans tíð.

Ekki eru draumar forstjórans um vindmillur skárri. Hann náði því í gegn að tvær slíkar skyldu reystar á hálendinu, til að "kanna" hvort hægt væri að framleiða rafmagn með þeim. Auðvitað er það hægt, þær eru jú byggðar til þess og því engin þörf á einhverri sérstakri "könnun". Framleiðsla á rafmagni með vindmillum er möguleg hvar sem er í heiminum, vindurinn virðir ekki landamæri. Vandinn við þessa framleiðslu er hversu dýr hún er og því leita þjóðir eftir ódýrari orku.

En þetta segir einungis hálfa söguna. Hver vindmilla tekur nokkuð pláss og því ljóst að orkuframleiðsla með þeim hætti nokkur lýti fyrir náttúruna. Þar sem hver vindmilla er háð takmörkunum um stærð er ljóst að töluverðann fjölda þarf til að framleiða einhverja orku að ráði. Sem dæmi má nefna að ef framleiða ætti allt það rafmagn sem nú er framleitt í efrihluta Þjórsár, þyrfti hvorki meira né minna en 2270 vindmillur. Hugsanlega væri hægt að koma þeim fjölda fyrir á því svæði sem nú er undirlagt orkuframleiðslu, þar efra. Hitt er borðleggjandi að það svæði sem nú er undirlagt Fljótsdalsvirkjun myndi ekki duga fyrir þær 1850 vindmillur sem þyrfti til að framleiða þá orku sem þar er framleidd! Uppistöðulón eru vissulega slæmur kostur, en er betra að fylla öræfin af vindmilluskógum? Menn geta velt þessu fyrir sér.

Það er sorglegt þegar fræðimenn og þeir sem taldir eru metnir í viðskiptalífinu, mæta saman til fundar um þetta mál og telja að þessir tveir kostir eigi vel saman, rafstrengur til Bretlands og framleiðsla fyrir hann með vindmillum. Það þarf sennilega á bilinu 1000 til 2000 vindmillur til þess eins að framleiða nægt rafmagn fyrir slíkann streng og spurning hvar þær eiga að standa. Sennilega væri hagkvæmast að byggja þær bara á Bretlandi. Maður á eiginlega vart til orð yfir þessu fólki!

En ekki meir um draumóra forstjórans. Það er orkuskortur í landinu. Þetta er annað árið í röð sem þessi staða kemur upp. Skýringarnar sem gefnar hafa verið eru einkum tvær, lélegur vatnsbúskapur síðasta sumar og lítil snjóbráð í vetur. Sumarið í fyrra var eitthvað mesta rigningarsumar sem komið hefur á Íslandi í marga áratugi, sérstaklega á suður og vesturlandi, þar sem staða lóna Landsvirkjunnar er nú verst. Vissulega var þurrt á norð-austur horni landsins en þar er ástandið þó skást núna. Þá hefur veturinn í vetur verið með þeim hlýjustu um langt árabil. Það má því vissulega taka undir með forstjóranum að veðurfarið hefur verið óvenjulegt, en þó á þann hátt að vatnsbúskapurinn ætti einmitt að vera fyrir ofan meðaltal. Þá var gefið út af Landsvirkjun í fyrrasumar að öll lón væru orðin full, þó forstjórinn segi annað núna. Hvort hann laug að þjóðinni fyrir hálfu ári eða nú, skiptir svo sem ekki máli, orkuskortur er staðreynd.

Þeagar horft er til veðurfars síðasta árs og hversu hlýr þessu vetur hefur verið og síðan bætt við að lón voru sögð full fyrir hálfu ári síðan, er ljóst að orkuskorturinn sem nú er að ógna landinu skapast einungis af þeirri staðreynd að Landsvirkjun hefur lofað meiri orku en fyrirtækið getur staðið við að afhenda. Að græðgin hafi borið draumóramannin ofurliði. Kannski til að ná inn aukapeningum í gæluverkefnin, en sennilega þó af heimskunni einni saman.

Það er tæpt ár síðan forstjórinn hélt miklar tölur um "umframorkuna" sem væri að sliga Landsvirkjun. Þessa tölu flutti hann rétt um það leyti er Landsvirkjun gat aftur skaffað rafmagn til kaupenda, eftir skerðingu síðasta vetur. Það er ekki hægt að tala um umframrafmagn þó framleiðslan sé meiri en þörf yfir einhvern tíma ársins, umframrafmagn er einungis það rafmagn sem framleitt er umfram þörf allan ársins hring. Ef einhverntíma ársins kemur upp sú staða að framleiðsla dugir rétt fyrir notkun, er engin umframframleiðsla í kerfinu. Þetta er einfallt.

Það tap sem fyrirtæki landsins verða fyrir vegna þessarar skerðingar er of mikið til að láta kjurt liggja.  Þau þjónustufyrirtæki sem að stóriðjunni snúa lenda einnig fyrir skerðingum. Draumórar forstjórans eru því martröð þúsunda fólks hér á landi, fólks sem verður að skerða sínar tekjur vegna orkuskorts og jafnvel horfa á eftir sinni vinnu.

 

 


mbl.is Virkja meira og bæta kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ágæt sem jafnan hjá þér Gunnar Heiðarsson . 

Þetta sem landsvirkjunar stjórinn er að vakna upp við núna var fyrirséð fyrir hrun.  En hann valdi að leika sér að lego kubbum og býsnast yfir umfram orku sem hann taldi vera að setja landsvirkjun á hliðina. 

Karl garminum er þó nokkur vorkunn þar sem orkumála ráðherrar síðustu tveggja ríkistjórna voru ærið skrautlegir enda skipaðir sem umhverfis ráðherrar.  En komið hefur í ljós að umhverfis kerlingar hafa mestu skömm á hagkvæmni.       

Hrólfur Þ Hraundal, 15.3.2014 kl. 10:57

2 identicon

Sæll.

Fínn pistill.

Annars finnst mér merkilegt að umhverfisverndarsinnar skuli ekki sjá neina sjónmengun í vindmyllum en háspennumöstur eru algert eitur í þeirra beinum. Svo má ekki gleyma því að erlendis slátra vindmyllur tugum þúsunda fugla árlega. Ekki þvælist það fyrir umhverfisverndarsinnum.

Gallinn við vindmyllur er að þær framleiða ekki stöðuga orku, þær læsast þegar vindur fer yfir ákveðinn hraða og í logni gerist auðvitað ekkert.

Því fyrr sem Hörður fer - því betra. Sparka þarf sömuleiðis núverandi stjórn LV  og sem flestum toppum þarna. Gefa þarf öðrum tækifæri sem láta sig ekki dreyma um tóma vitleysu. Það er dýrt að hafa svona fólk þarna enda varð ekkert álver á Bakka og ekkert gagnaver m.a. vegna þessa fólks.

Helgi (IP-tala skráð) 15.3.2014 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband