"Harðlínumenn"
3.3.2014 | 09:56
Þorgerður Katrín talaði um "svartstakka" og "harðlínumenn". Um "svartstakkana" ætla ég ekki að ræða, enda vart svaravert þegar pólitíkus nefnir flokksfélaga sína slíkum nöfnum.
En skoðum aðeins harðlínumennina. Hvað er harðlínumaður? Er það sá sem heldur sinni línu, hvað sem hver segir? Væntanlega á þetta orð við slíkt fólk. En hverjir eru þá harlínumenn innan Sjálfstæðisflokks?
Á landsfundi Sjálfstæðisflokks er mótuð stefna flokksins, þar eru komnir saman fulltrúar flokksins af öllu landinu og öllum þjóðfélagshópum. Á síðasta landsfundi var samþykkt afgerandi ályktun um að aðildarumsókn Íslands að ESB skyldi dregin til baka. Lítill en hávær hópur innan flokksins gat illa sætt sig við þessa niðurstöðu, sem stór meirihluti landsfundarmanna samþykkti. Hvor hópurinn telst þá til harðlínumanna, meirihlutinn sem samþykkti stefnuna, eða þeir fáu sem ekki samþykktu hana og vilja hafa meirihlutaviljann að engu?
"Orðhengilshátt" kallar Þorgerður það að fólk skuli taka stefnu flokksins alvarlega. Hún telur það "orðhengilshátt" að meirihlutavilji fái ráðið. Til hvers er þá Sjálfstæðisflokkurinn að halda landsfundi? Er þá ekki einfaldara fyrir flokkinn að stefnan sé bara ákveðin af örfáum flokksgæðingum?
Þorgerður Katrín leggst lágt í þessu viðtali. Hún vill hundsa samþykkt landsfundar, af þeirri einu ástæðu að formaður flokksins lét frá sér ummæli fyrir kosningar, ummæli sem voru í andstöðu við stefnu flokksins. Þessi ummæli, sem féllu í hita kosningabaráttunar, telur Þorgerður vera stefnu flokksins sterkari. Skildi hún hafa tekið eins á málinu ef málsatvik væru á hinn veginn, að landsfundur hefði ákveðið áframhald viðræðna, en formaðurinn sagt fyrir kosningar til greina kæmi að slíta þeim. Hvort teldi Þorgerður þá mikilvægara, samþykkt landsfundar eða orð formanns?
Það má satt vera hjá Þorgerði, að frjálslynda fólkið innan Sjálfstæðisflokks er að yfirgefa flokkinn. Þessi hópur hafði betur á landsfundi, en harðlínufólkið sem einskis svífst til að koma sínum málum fram, virðist enn hafa tögl og haldir. Þetta harðlínufólk sem vill samþykkt landsfunda að engu, til þess eins að koma sínu máli fram, stuðlar að því að frjálslynda fólkið flýr.
Það er spurning hversu miklum skaða það olli fyrir flokkinn í síðustu kosningum, að formaðurinn virtist vera á báðum áttum í ESB málinu. Þetta vakti vissulega upp minningar um hvernig hann tók á icesave málinu og öruggt að margur frjálslyndur flokksfélaginn kippti að sér höndum. Þeir óttuðst sannarlega að formaðurinn væri þarna að færa sig nær harðlínuöflunum í flokknum, með því að efast um vilja landsfundar.
Frjálslynda fólkið að yfirgefa flokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2014 kl. 10:54
Harðlínumenn, er það ekki akkúrat að það sem vantar í pólitíkina í staðinn fyrir alla lobbyistana og vindhanana sem hlaupa til eftir því hvað er vinsælt og selst hverju sinni?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 3.3.2014 kl. 13:02
Það er spurning, Kristján. Reyndar geri ég nokkurn mun á harðlínumanni og staðföstum manni. Staðfesta er dyggð, meðan harlínustefna leiðir gjarnan illt af sér.
Og vissulega vantar staðfestu í íslenska pólitík. Kjósendur ganga til kosninga á fjögurra ára fresti og velja sér fólk til að stjórna landinu. Þeir sem kosnir eru til þess verks verða að hafa staðfestu til að fylgja eftir þeirri pólitík sem þeir voru kosnir útá.
Síðasta kjörtímabil má segja að hér hafi ríkt ríkisstjórn harðlínufólks. Þar var hver stjórnarathöfnin af annari gerð í ósátt við kjósendur og í fullkominni andstöðu við loforð þáverandi stjórnarflokka til kjósenda, vorið 2009.
Þeir þingmenn sem voru í svari fyrir þá flokka sem mynduðu ríkisstjórn höfðu ekki staðfestu til að standa við sín loforð, þó þeir hefðu haft þá hörku sem þurfti til að stjórna landinu í andstöðu við almenning.
Auðvitað var undantekning frá þessu, þar sem örfáir þingmenn annars stjórnarflokksins sýndu staðfestu, en þeir voru fljótlega hraktir burtu af harðlínufólkinu.
Gunnar Heiðarsson, 3.3.2014 kl. 13:27
Ég er alveg sammála með "staðfestuna", en mátti til að að grínast smá með hersinguna í gamla tukthúsinu við austurvöll. það mætti fækka þeim að ósekju niður í svona 15 þá yrði kannski minni vitleysa í gangi þar.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 3.3.2014 kl. 14:20
Gunnar þú ert jafnan með þetta, segi því eins og Ásthildur; Góður.
Helga Kristjánsdóttir, 5.3.2014 kl. 02:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.