Er ég Pólverji ?

Ég hef verið hugsi frá því í gærkvöldi. Er ég kannski Pólverji? Ég er fæddur á Íslandi, báðir mínir foreldrar voru fæddir á Íslandi, föðurættina get ég rakið til landnáms og reyndar nokkuð aftur fyrir það og móðurættina get ég rakið til 12. aldar. En samt er hugsanlegt að ég sé Pólverji!

Í kastljósþætti gærkvöldsins var talað við pólska konu og fulltrúa frá fyrirtækinu Mirru, en það fyrirtæki hefur nýlega gefið frá sér skýrslu sem segir að laun Pólverja hér á landi séu að meðaltali einungis um 57% af launum Íslendinga í sömu störfum. Þetta er ljótt ef satt er, en það sem kom mér á óvart var að skýrsluhöfundur fullyrti að ekki væri verið að brjóta lög á þessum Pólverjum, þeir fengju laun eftir kjarasamningum. Hún vildi meina að Íslendingar gerðu það ekki, heldur fengju yfirborganir.

Sjálfur hef ég verið á vinnumarkaði um langann tíma og lengstann þann tíma þurft að sætta mig við laun samkvæmt kjarasamningum. Stundum hef ég verið í vinnu þar sem kjarasamningar hafa verið ágætir, en í öðrum tilfellum þurft að sætta mig við verri kjarasamning. Flestir þeirra sem ég þekki eru bundnir kjarasamningum og þurfa að sætta sig við það. Því kemur mér á óvart ef laun Pólverja ná einungis 57% af launum Íslendinga, við sömu störf. Þarna hlýtur eitthvað að hafa farið vitlaust inn í Exeltöflu skýrsluhöfundar, hún hlýtur að vera að bera saman mismunandi störf.

Þessa stundina vinn ég samkvæmt kjarasamningi SGS við SA. Byrjunarlaun fyrir það starf sem ég sinni eru 203.000 kr á mánuði, en þar sem ég hef verið í þessu starfi í nærri 10 ár, eru grunnlaun mín mun hærri, eða heila 209.000 kr á mánuði. Það verður ekki annað sagt en þessi kjarasamningur metur starfstíma mikils, eða þannig. Þar sem ég vinn vaktavinnu þar sem önnur vaktatörnin er sjö 12 tíma næturvaktir í röð og hin vaktatörnin sjö 12 tíma dagvaktir, fæ ég auðvitað vaktaálag, að meðaltali um 35%. Ofan á þetta kemur síðan greiðsla fyrir unna yfirvinnu, þar sem samkvæmt kjarasamningi þarf ég að skila 40 stunda virkri vinnuviku að meðaltali, en vaktkerfi byggt á 12 tíma vöktum gera það af verkum að vinnuvikan lengist upp í 42 tíma að meðaltali, sem ég skila með 84 stunda samfelldum vinnutörnum.

Ekki fæ ég neitt greitt fyrir undirbúning eða frágang sem hægt er að skila heima, eins og t.d. kennarar, ekki fá ég heldur pásu á hverjum klukkutíma, heldur þarf ég að skila að fullu þeim tíma sem ég er ráðinn til, fæ hvorki kaffi né matartíma. Þetta þykir kannski einhverjum undarlegt, en samt er þetta samkvæmt kjarasamningi SGS við SA. 

Nú veit ég að það vinna Pólverjar hjá því fyrirtæki sem ég vinn hjá. Samkvæmt könnun Mirru ætti byrjunarlaun þeirra að vera  115.710 kr. Það gengur auðvitað ekki upp, enda lágmarkslaun í landinu 201.000 kr og samkvæmt því sem talsmaður Mirru sagði, þá væru engin lög brotin.

Menn kunna kannski að segja að þetta dæmi sem ég tek hér fyrir ofan sé einsdæmi, en svo er alls ekki. Það starfa hátt í eitt þúsund manns í þeim geira sem ég vinni í, hér á landi og launakjör þeirra eru í flestum tilfellum þau sömu. Þar sem munur er á, stafar sá munur af því að sumum fyrirtækjum þykir skömm af slíkum kjörum og bæta sínu starfsfólki það upp. Þar er ekki gerður greinarmunur á þjóðerni.

Og það mætti líka taka fiskverkakonuna. Það má skoða hennar launakjör. Í fiskvinnslu vinnur margt fólk frá Póllandi og ég get fullyrt að það fær sömu laun og þeir Íslendingar sem vinna við hlið þeirra.

Það væri kannski hellst í bygginga- og verktakageiranum sem hægt væri að finna  launamun milli manna sem vinna hlið við hlið, en þá er kannski verið að bera saman kjör verkamanns við kjör iðnaðarmanns og munurinn þar á milli er nokkur, þó hann skýri ekki þann mun sem Mirra telur vera.

Svo má skoða málið út frá hinni hliðinni. Lágmarkslaun verkamanns eru 201.000 kr á mánuði. Ef það eru laun Pólverjans, ætti verkamaðurinn við hlið hanns að fá rúmlega 355.000 kr í laun á mánuði. Kannski Mirra geti bent mér á hvar ég skuli sækja um til að fá þau byrjunarlaun fyrir dagvinnuna eina!!  

Í upphafi þessarar greinar velti ég því fyrir mér hvort ég sé kannski Pólverji. Það er ljóst að ég uppfylli öll skilyrði Mirru til að falla í þann hóp, en þá verður líklega að endurskilgreina hvernig menn eru þjóðsettir. Þá dugir ekki að vera fæddur í viðkomandi landi, jafnvel þó sá hinn sami geti rakið sína ætt aftur fyrir landnám þess. Þá verður ríkisfang fólks flokkað eftir launum. Þetta mun sennilega fækka Íslendingum töluvert og fjölga Pólverjum. Jafnvel svo að spurning gæti orðið hvor hópurinn teldist til innflytjenda!

Kannski væri einfaldara bara að endurskoða könnun Mirru og bera saman laun milli sömu starfa. Þá kemur auðvitað í ljós, ef það er rétt að ekki sé verið að brjóta kjarasamninga á Pólverjum, að launamunurinn er ekki svona mikill og alls enginn hjá lægst launuðu stéttunum. Hins vegar er jafn ljóst að ef launamunurinn er svo mikill sem Mirra heldur fram, er ljóslega verið að brjóta á samningbundnum kjörum Pólverja og hljóta stéttarfélögin að taka það mál til alvarlegrar athugunnar.

Vandinn er ekki bundinn við þjóðerni launafólks, heldur einfaldlega hversu lélegir kjarasamningar eru. 

Svo eru til menn hér á landi sem eru hissa á að verkafólk skuli ekki hafa sætt sig launahækkun upp á 2,8%. Jafnvel finnast slíkir menn innan raða þeirra sem eiga að standa vörð um kaup og kjör þessa fólks!!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband