Brynjar Níelsson, EES og ESB
4.2.2014 | 09:06
Á eyjan.pressan.is er frétt af viðtali við Brynjar Níelson í þættinum Í bítið á Bylgjunni. Það er nokkuð erfitt að átta sig hvert Brynjar er að fara í þessari frétt, en þó hellst að sjá að hann telji inngöngu í ESB vera nauðsynlega vegna EES samningsins.
"Þegar maður situr á þinginu og er að horfa á þetta, þá spyr maður sig auðvitað, væri ekki einfaldara að vera bara inni í Evrópusambandinu? EES-samningurinn, dugar hann eins og hann er núna eða þurfum við að endursemja það eitthvað? Það eru alls konar hlutir í þessum samningi sem ég hef aldrei skilið af hverju við þurfum að fara eftir regluverki þeirra með og mér finnst ekki einu sinni tengjast þessum innri markaði í raun. Þetta er bara eitthvað sem hefur gerst og maður einhvern veginn situr með þetta í fanginu og veit ekki sitt rjúkandi ráð".
Það er ljóst að Brynjar telur EES samninginn ekki virka sem skildi. Að EES samningurinn skerði sjálfsákvörðunarvald þjóðarinnar.
Nú er það svo að þegar þessi samningur var samþykktur, án aðkomu þjóðarinnar, var samþykki hans bundið þeim skilyrðum að hann skerði ekki sjálfsákvörðunarrétt hennar. Að samningurinn fæli ekki í sér valdaafsal. Enda hefði bæði þurft að breyta stjórnarskrá, auk þess sem þjóðin hefði þurft aðkomu að samþykkt hans ef svo væri.
Nú vill Brynjar meina að tilskipanir frá ESB verði að afgreiða sjálfkrafa á Alþingi. Ef svo er, er ljóst að EES samningurinn er orðinn eithhvað allt annað en Alþingi Íslendinga samþykkti, í upphafi tíunda ártugar síðustu aldar. Þá er spurning hvernig á því skuli tekið, spurning hvernig hægt er að gera þennan samning aftur að því sem hann var í upphafi.
Brynjar leggur til að fara auðveldu leiðina, að ganga einfaldlega í ESB. Með því vill hann lögfest meint valdaafsal, lögfesta afsal sjálfstæðis. Hann telur að meint áhrifaleysi sé verra en sannað áhrifaleysi. Hann veit væntanlega hver völd við munum fá innan ESB, ef til aðildar kemur. Heldur hann virkilega að það örlitla vald sem við munum fá innan ESB muni duga til einhvers?
Til vara telur Brynjar að hugsanlega þurfi að endursemja EES samninginn. Hvers vegna? Samningurinn á að vera skýr, hann felur í sér fullt vald þjóðarinnar og Alþingis til ákvarðanatöku. Er ekki einfaldara að koma þeim skilaboðum til mótaðilans? Hvenær hefur einhliða breyting á túlkun samnings dugað til að gera á honum grundvallarbreytingu? Kannski lögmaðurinn Brynjar Níelsson geti komið með lögfræðilega skýringu þess?
Það sem þarf að gera og það strax, er að koma skilaboðum til Brussel um að þeim beri að fara að EES samningnum eins og hann var samþykktur. Að það sé í fullu valdi Alþingis Íslendinga hvort þeir taki upp tilskipanir ESB. Best væri ef næðist samkomulag við Norðmenn og Liechtenstein um sameiginlega aðkomu að þessu máli.
Takist ekki að koma ESB í skilning um að EES samninguinn skuli túlka á þann hátt sem hann var saminn og samþykktur, er einungis ein leið til og það er að segja þessum samning upp, enda ekki hægt að túlka framferði ESB á annan hátt en að þeir telji hann ekki lengur í gildi.
Þegar vandamál koma upp í samskiptum og túlkun samninga, eru tvær leiðir til. Annars vegar að standa á sínum rétti og hins vegar að leggjast í drulluna fyrir mótaðilanum. Brynjar tekur síðari kostinn fram yfir þann fyrri.
Athugasemdir
Er hann á því að hann myndi frekar lesa tilskipanir og lög frá ESB ef Ísland gengi inn? Hún ríður ekki við einteyming vitleysan sem menn láta sér um munn fara.
Jóhann Elíasson, 4.2.2014 kl. 11:37
Það er spurning, Jóhann.
En eitt hafði Brynjar út úr þessum ummælum sínum, hann fékk lof krata og komma. Kommenterakerfi eyjunnar logar af fagurgala þessa fólki í garð Brynjars. Kannski hann sé að leita fyrir sér í öðrum flokk.
Maður spyr sig!
Gunnar Heiðarsson, 4.2.2014 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.