Að gera ekki neitt

Frosti Sigurjónsson fer ágætlega í gegnum tillögur meirihluta sérfræðingahóps um niðurfellingu verðtryggingar, á vefsíðu sinni. Þar fer hann meðal annars yfir rök meirihlutans fyrir því að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu nema á mjög löngum tíma, jafnvel svo löngum að vart er hægt að tala um að meirihlutinn boði slíka niðurfellingu.

Frosti tekur rök meirihlutans og kemur með gagnrök á móti sem afsanna málflutning meirihluta sérfræðihópsins. Enn hefur samt enginn lagt í að meta hver áhrif verða af því að gera ekki neitt, eins og í raun má segja að tillögur meirihlutans gera ráð fyrir.

Rök meirihluta sérfræðihópsins fyrir því að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu strax eru eftirfarandi:

1. Aukin greiðslubyrgði í upphafi lækkar fasteignaverð og dregur úr hagvexti.

2. Heimilin verða berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli.

3. Staða Íbúðalánasjóðs mun versna.

4. Óvissa um að lífeyrissjóðir haldi áfram að fjármagna íbúðalán.

Ekki ætla ég að fara yfir rök og mótrök þessara fjögurra atriða sem meirihlutinn telur upp, Frosti gerir það ágætlega í sínum pistli.

Hinu velti ég fyrir mér, hver áhrif á þessa fjóra þætti hefur ef ekkert verður gert. Það er ljóst að þó höfuðstóll gildandi lána verði leiðréttur er lítið gagn af því ef ekki verður gert mögulegt fyrir lántakendur að skipta sínum lánum yfir í óverðtryggð lán. Eitt smá verðbólguskot mun setja fólk í sömu stöðu og fyrir leiðréttingu og hvað verður þá um hagvöxt í landinu? Varðandi hættu á verðfalli fasteigna má einnig benda á þá staðreynd að einmitt hluti fasteigna í vísitölu gerir nú nánast útilokað að koma verðbólgu niður á markmið Seðlabankans, svo kannski er fasteignaverð ofmetið í dag.

Heimilin geta vart orðið berskjaldaðri fyrir bröttu vaxtahækkunnarferli en einmitt með verðtryggingu. Nú er ástandið þannig að minnsta hækkun á hverjum þeim þætti sem er innan mælistiku verðtryggingar, hækkar sjálfkrafa vexti á lánum (verðbætur). Vissulega munu bankar standa vel að hækkun vaxta ef verðbólgan fer á flug, en þeir þurfa þá að hækka vextina. Það verður ekki sú sjálfvirkni sem nú.

Íbúðalánasjóður er vissulega í vanda, en sá vandi minnkar ekki með því að gera ekki neitt. Það magnaða við vanda sjóðsins er að sá vandi er af sama grunni og vandi lántakenda, sjálf verðtryggingin. Sjóðurinn fjármagnar sig með verðtryggðum lánum og lánar aftur verðtryggt. Þetta gengur upp meðan allir standa í skilum, en um leið og einhver lántaki getur ekki staðið undir byrgðinni og sjóðurinn tekur af honum fasteignina, er staða sjóðsins komin í vanda. Og sá vandi mun stóraukast verði ekkert gert.

Lífeyrissjóðirnir eru sérstakt vandamál í okkar  samfélagi. Ekki einu sinni eru þeir komnir með yfirburða aðstöðu í atvinnulífinu í gegnum eignarhluti í fyrirtækjum, heldur virðast stjórnir þeirra geta leikið sér með fé sjóðanna í sumum tilvikum en bera við lögum þegar til þeirra er leitað í öðrum tilvikum. Þar virðist vera það meginsjónarmið að sjóðsfélugum megi ekki hjálpa en allt í lagi að kasta fé til fyrirtækja sem ekki eiga neinnar viðreysnar von. Hitt er ljóst að hluti þess fjár sem sjóðirnir ráða yfir er nýtt til að fjármagna lán til húsnæðiskaupa. Þessi hluti fjárfestingar sjóðanna hefur verið sá tryggasti hingað til. Það er ljóst að sjóðirnir munu tapa miklu fé í þeirri fjárfestingu, verði ekkert gert. Því ættu lífeyrissjóðirnir að vera fremstir í flokki þeirra sem vilja gera lántakendum mögulegt að standa við þær skuldbindingar sem þeir hafa á sig tekið. Eitt grundvallar atriði þess er að afnema verðtryggingu og gera lánþegum kleyft að skipta yfir í óverðtryggð lán samhliða leiðréttingu höfuðstóls lána. Annað eins tækifæri fyrir lántakendur mun aldrei koma upp aftur.

Sú deila sem er uppi í samfélaginu um hvort afnema eigi verðtryggingu strax eða á löngum tíma er í raun óþörf. Umræðan ætti að snúast um hvort afnema eigi verðtryggingu eða ekki. Hvort við ætlum að stíga það heillaskref að koma hér á eðlilegu fjármagnsumhverfi eða vera áfram með skakka samkeppni á því sviði, þar sem annar aðilinn er tryggður í bak og fyrir meðan hinn aðilinn bera allar byrgðir. Umræðan ætti að vera um hvort við við höfum kjark eða hvort við erum undirlægjur.

Komist fólk að því að afnema beri verðtrygginguna og koma hér á heilbrigðu fjármálakerfi, að vilji sé til að sína kjark, er hægt að afnema hana strax á þessu ári. Þá er ekki eftir neinu að bíða.

Þeir sem vilja bíða og sjá til geta allt eins sagt að þeir vilji ekki gera neitt. Það eru kjarkleysingjarnir sem munu fylla þann hóp!!  

Að lokum mæli ég með að menn lesi skrif Frosta um þetta mál. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband