"svo fæ ég vexti og vaxtavexti og vexti líka af þeim"

Í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar samdi Guðbergur Auðunnson lag við auglýsingu Útvegsbankanns sálug. Bankinn hafði látið gera sparibauk í fígúrulíki og kallaði Trölla. Guðbergur söng lagið fyrir munn Trölla og er það flestum enn í minni sem heyrðu á sínum tíma, enda lagið grípandi og textinn einfaldur.

„Í kolli mínum geymi ég gullið 

sem gríp ég höndum tveim

svo fæ ég vexti og vaxtavexti

og vexti líka af þeim“

Það er svo sem ekkert nema gott við það að auka vitund barna á sparnaði, en þetta á sér þó tvær hliðar. Til að bjóða sparnað upp á vexti, vaxtavexti og vexti af þeim, þurfti auðvitað að beyta sömu vaxtareglu á lántakendur. Þetta var þó kannski svar bankanna við þeirri óðaverðbólgu sem ríkti í landinu á þeim tíma, að með þessu væri hægt að fá fólk til að leggja sitt fé á bankabók.

En áratug síðar kom verðtrygging og þá þurfti ekki lengur að bjóða þessa vexti, þeir komu sjálfkrafa. Hvorki gamli Útvegsbankinn né neinn annar banki að sóa sínu dýrmæta fé í auglýsingar. Þeir voru komnir með kerfi sem tryggði þá að fullu, bæði gagnvart innistæðieigendum sem stóðu í þeirri trú að fé þeirra væri í góðum höndum, en ekki síður gagnvart lántakendum, sem þarna voru orðnir þrælar bankanna. Bankarnir voru komnir með axlabönd og belti, meðan innistæðueigandinn fékk bara belti og lántakandinn varð að láta sér nægja fúinn spotta til að halda uppi sínum buxum.

Það var svo ekki fyrr en bankarnir voru einkavæddir sem auglýsingar fóru að heyrast frá þeim aftur. Sú sjálfvirkni gróðans sem verðtryggingin gaf þeim og hélt góðu lífi í þeim, dugði ekki nýju eigendunum. Þeir þurftu meira. Allir vita svo hvernig sú græðgi endaði.

Þessi vísa Guðbergs kemur oft í huga mér, sérstaklega seinnipartur hennar.  Þetta er í raun lýsing verðtryggingar, þ.e. gagnvart útlánum. Því miður er verðtrygging innlána eitthvað öðruvísi reiknuð, þar sem veruleg skekkja er milli verðtryggðra innlána og verðtryggðra útlána, samkvæmt reiknivélum bankanna. Það er í raun undarlegt að innistæðueigendur skuli ekki krefja bankana um skýringu þess.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband