Áróðursdeildir bankanna

Ekki ætla ég að spá um hvort verðbólgan muni aukast vegna leiðréttingar lána heimila, enda útilokað að segja til um það á þessu stigi málsins. En ólíkt greiningadeildum bankanna þá hef ég trú á fólki og er þess fullviss að áhrif þessara aðgerða verða minni en bankar vilja meina. Þar kemur fyst og fremst til sú staðreynd að aðgerðirnar eru ekki það stórar fyrir einstaklinginn að þær hafi veruleg áhrif á kaupgetu, auk þess sem flestir þeirra sem kaupgeta eykst eitthvað lítilræði hjá eru þeir sem varlega fóru fyrir hrun en eru komnir í vanda vegna þess. Vandi þessa fólks er ekki óvarleg fjárfesting og lántaka, heldur sú stökkbreyting sem lán urðu fyrir við fall bankanna.

Verðbólguhvati vegna þessara aðgerða kæmi hellst frá þeim sem óvarlega fóru fyrir hrun, en þá verður að horfa til þess að þessar aðgerðir munu ekki hjálpa því fólki nægjanlega til að það geti farið að sóa fé á báða bóga.

Þeir sem munu fá eitthvað aukinn kaupmátt vegna þessara aðgerða eru því ráðdeildarfólkið, fórnarlömb bankahrunsins og víst að ráðdeild þess mun ekki minnka vegna þessarar leiðréttingar. Það fólk mun heldur horfa til þess að nota það fé varlega. Þetta er mín trú, enda hef ég trú á Íslendingum, svona yfirleitt.

Þá ætti þessir "sérfræðingar" sem skipa greiningardeildir bankanna að skilja þá einföldu staðreynd að verðbólga verður til vegna aukins fjármagns í hagkerfinu. Þessar aðgerðir stjórnvalda auka ekki fjármagnið, það er þegar til staðar. Við fall bankanna og stofnun nýju bankanna var stórum hluta þessa fjármagns fellt út úr hagkerfinu, með færslu lánasafna milli gömlu og nýju bankanna. Hins vegar var nýju bönkunum gefin heimild til að byggja aftur upp þetta svikafé , með því að skrá þessi lánasöfn á mun hærra verði en þau voru metin á við tilfærsluna og rukka síðan lánþega að fullu. Fjármagnið er því til staðar í hagkerfinu og verðbólguhvati þess kominn fram. Einungis er um að ræða tilfærslu á því. Hvort verður meira verðbólguhvetjandi að þessir 80 milljarðar komi fram sem meiri eign lánþegans og auki kannski kaupgetu hans að meðaltali um rúmlega 5.000 krónur á mánuði, eða hvort verður meira verðbólguhvetjandi að láta bankanna lána þessa 80 milljarða, verður hver að spyrja sjálfan sig. Ég er ekki í vafa um hvor leiðin er meira verðbólguhvetjandi.

En stæðst er þó sú meinloka bankanna að tala sífellt um leiðréttingar lána vegna dóma um ólöglega lánastarfsemi þeirra, sem  niðurfærslu lána. Þetta er undarleg framsetning. Ef ég ræni mann og skila honum aftur því fé, er ég ekki að gefa honum það fé, einungis að skila aftur því sem ég tók ófrjálsri hendi! En þessi meinloka er ekki bundin við bankanna, heldur einnig suma stjórnmálamenn. Síðasta ríkisstjórn þreyttist aldrei á því að skreyta sig með stolnum fjöðrum og taldi það sitt verk að þessir dómar hefðu komið sumu fólki til bjargar. Þeir sem hafa aðeins betra minni en gullfiskar, muna hvernig þáverandi stjórnvöld töluðu og höguðu sér áður en þessir dómar féllu, muna einnig hvernig ríkisstjórnin brást við eftir að þeir féllu. Það var fjarri því að gleði hafi ríkt á stjórnarheimilinu þá daganna og samþykkt voru lög til hjálpar bönkunum, þeim seku!

Það er í raun alveg með ólíkindum að enginn skuli hafa verið dreginn til saka vegna þessarar svikastarfsemi bankanna. Samtök þeirra vissu vel að gengistryggð lán stóðust ekki lög og auðvitað áttu stjórnendur bankanna einnig að vita það. Það er lágmark að stjórnendur banka þekki þau lög sem þeim ber að vinna eftir. Sá sem fremur lögbrot hlýtur að þurfa að svara til saka, en einhverra hluta vegna virðist það ekki eiga við vegna þessa lögbrots!

Það er að rætast spá Sigmundar Davíðs, sem hann lét falla á fundi Framsóknarmanna. Áróðurinn gegn lánaleiðréttingu er kominn á fullt. Þar kalla bankarnir það sem þeir nefna greiningardeildir til verksins, en eins og sagan segir okkur eru þær deildir fjarri því að vera einhverjar sérstakar greiningardeildir, heldur einfaldlega áróðursdeildir bankanna. Þetta sannaðist svo ekki varð um villst síðustu misseri fyrir hrun, þegar þessar deildir héldu því fram að bankarnir stæðu traustum fótum, þó þeir væru í raun löngu fallnir en héldu sér uppistandandi með svikum og prettum. Þar sem að stórum hluta til sama fólk skipar þesar deildir bankanna nú og fyrir hrun, er vart hægt að trúa þeim.

Þetta er einungis enn einn skrípaleikur bankanna, enda skiljanlegt að þeir vilji halda þessum 80 milljörðum í sínum bókum og nýta þær til að búa til fé fyrir sig með útlánum. Þannig geta bankarnir viðhaldið verðbólgunni, sjálfum sér til hagsbóta. 

Þeir sem sjá einungis vandann við hvert verk verður lítt ágengt, en þeir sem sjá það góða í verkinu finna lausnir á vandanum.  

 

 


mbl.is Óvissa um áhrif á þróun verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er þetta rétt hjá þér. Til þess að trúverðugleiki bankanna væri einhver, hefði átt að skipta út flest af þessu fólki. Svo var ekki gert og þeim er ekki treystand frekar en fyrir hrun.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband