Endar með ósköpum !

Árið 1979 var Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar stofnuð og ákveðið að leggja lögn frá Deildartunguhver til Akraness, alls 60 km leið. Auk þess skyldi tengja Borgarnes, Hvanneyri og fleiri smærri byggðakjarna við lögnina, auk þeirra sveitarbæja sem við hana liggja. Alls urðu því stofnæðar um 65 km langar.

Arðsemi framkvæmdarinnar byggði auðvitað á að hægt yrði að leggja ódýra lögn á sem styðstum tíma. Því var valin sú leið að leggja þessa lögn úr asbeströrum, jafnvel þó að þá hafi asbest verið skilgreint sem krabbameinsvaldandi og bannað. En kannski einmitt þess vegna var hægt að fá rör í svo langa lögn fyrir lítið.

Þó asbest sé krabbmeinsvaldandi er  ekki talin skapast hætta af því þegar það blandast vatni. Hættan er einkum af ryki sem myndast við meðhöndlun þess, s.s. sögun, en mesta hættan er þó þegar abest lendir í eldi, en þá myndast mjög skaðlegar eiturgufur frá því. Vegna þessa var ekki talin hætta af notkun þess í þá hitaveitulögn sem hér um ræðir, nema auðvitað fyrir þá sem unnu við lagningu hennar.

En asbeströr tærast af vatnsrennsli og þegar lögnin var lögð var talað um að hún myndi endast í 10 til 20 ár. Því var ákveðið að nýta þann tíma til að endurnýja lögnina í varanlegra efni. Að búið yrði að endurnýja alla lögnina áður en 20 ár yrðu liðin. Skemmst er frá að segja að lítið hefur gerst ennþá og lögnin orðin 33 ára gömul.

Þó var fljótlega endurnýjaðir stuttir kaflar, þar sem vandræðin voru mest, en lítið annað gert. 

Árið 2004 var HAB innlimuð inn í Orkuveitu Reykjavíkur og strax farið að huga að endurnýjun lagnarinnar, enda ástand hennar orðið slæmt. 2005 lagði OR fram áætlun um framgang þessa verks, en lítið varð úr framkvæmdum. Það var loks 2008 sem keypt voru rör til endurnýjunnar fyrsta áfangar lagnar, frá Deildartungu og yfir flóann hjá Stóra Kroppi. Ekki var þó neitt gert þó efnið væri komið, heldur það geymt á höfninni við Grundartanga. Þar lá það undir skemmdum uns loks var byrjað á verkinu, árið 2011. Því lauk svo á þessu ári. 

Nú er staðan sú að enn er eftir að endurnýja um 45 km af þessari lögn og koma henni í varanlegt stand. Það eru því enn í notkun 45 km af lögn sem orðin er 33 ára gömul, en átti að endast í 10 til 20 ár. Það er því ekki undarlegt þó bilanir séu tíðar. Frá því í byrjun nóvember hafa borist fimm sms frá OR vegna bilanna á lögninni. Þetta er orðinn vítahringur sem erfitt er að komast út úr.

Þegar lögnin bilar þarf að vatnstæma þann hluta hennar sem bilunin er á og að lokinni viðgerð þarf að hleypa aftur vatni á. Bæði það að vatnstæma lögnina og þrýstings ójöfnuður eru mjög varasamir fyrir lögnina. Í raun hangir lögnin uppi vegna vatnsins sem inn í henni er og tæming ein sér getur valdið bilun á henni. Þá er lögnin svo viðkvæm að við fyllingu hennar er veruleg hætta á bilun, eins og sást síðst þegar bilun varð. Þá bilaði lögnin aftur eftir viðgerð, þegar verið var að setja á hana þrýsting aftur. 

Þegar kallt er í veðri er notkun mikil. Þegar tankurinn á Akranesi tæmist stöðvast rennsli til húsa á Akranesi. Þetta tekur um 8 klst. að tæma tankinn, þegar kallt er í veðri. Varla er nægt rennsli til að fylla hann aftur, þegar svo háttar. Lögnin er orðin svo veik að hún þolir nánast engann þrýsting, þannig að ekki er hægt að hjálpa til með þeim hætti, þó dælur við hana bjóði upp á slíkt.

OR boðar nú byggingu stærri tanks við Akranes. Það er gott og gilt, en fjarri því að vera lausn vandans. Það gefur heldur meiri tíma til viðgerða, áður en bærinn verður vatnslaus, en eykur í sjálfu sér öryggið lítið. Og enn lengri tíma tekur að fylla upp aftur. 

Eina lausnin er að koma lögninn í varanlegt stand, eins og átti að vera búið að gera fyrir aldamót. Einungis þannig er hægt að tryggja öryggi hitaveitu á Akranesi. Stærri tankur er engin lausn ef stór bilun verður og slík bilun mun koma fyrr en seinna. Þannig bilun gæti tekið einhverja daga að laga. Auðvitað mun stærri tankur verða til þess að hugsanlega væri hægt að halda vatni á Akranes í sólahring, í stað um 8 klst. núna, en eftir það verður engin hitaveita. Þegar stórbilun verður munu því íbúar Akraness standa frammi fyrir því að verða án hita í einhverja daga og ef þá verður jafn kallt og í síðustu viku sjá allir hvejar afleiðingar það hefði. Ástandið verður skelfilegt.

Lausn OR byggist auðvitað á ódýrasta kostinum. Í stað þess að leysa vandann sjálfann er reynt að finna lausn til að takast á við afleiðingum hans. Slík lausn er því miður ekki til. 

Það er frekar skelfilegt að horfa upp á þennan vanda og hvernig OR ætlar að taka á honum. Öryggi okkar Akurnesinga er ekkert þegar kemur að hitun húsa og enginn vilji virðist vera til að bæta það!

Þetta getur ekki endað nema með ósköpum!!

 


mbl.is Lítill vatnsþrýstingur á Akranesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnar, þetta er enn verra hjá okkur í sveitinni, við verðum vatnslaus um leið og leiðslan gefur sig.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 9.12.2013 kl. 13:45

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Já ég veit Kriistján.

Gunnar Heiðarsson, 9.12.2013 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband