Undarleg ákvörðun

Það er eiginlega magnað hvernig ríkisstjórninni tekst aftur og aftur að færa stjórnarandstöðunni vopn í hendur. Núna með tillögum um að skerða vaxta og barnabætur hjá fjölskyldum landsins.

Það eru allir landsmenn sammála um að heilbrigðiskerfið þarf meira fé, ekki bara Landsspítalinn, heldur öll heilbrigðisþjónustan. Eftir gengdarlausar skerðinga til þessa málaflokks í tíð síðustu ríkisstjórnar, er komið langt undir þolmörk og bráð nauðsynlegt að bæta úr ef ekki á illa að fara. 

En að sækja fé til barnafjölskyldna landsins er ekki rétta leiðin. Þær 600 milljónir sem þangað skal sækja hlýtur að vera hægt að finna annarstaðar. Þetta er ekki síst undarlegt í ljósi þess að stjórnvöld hafa nýlega kynnt aðgerðir til hjálpar skuldugum heimilum og sýnt þar kjark og þor. Því er þessi tillaga um að skerða vaxta og barnabætur í algerri andstöðu við þá staðreynd.

Vel getur verið að ekki verði gengið lengra í niðurskurði á öðrum sviðum. Þó allir séu sammála um að leggja beri meiri fjármuni til heilbrigðiskerfisins, eru einnig allir sammála um þeir sjálfir eigi ekki að leggja neitt af mörkum, heldir hinir. Það er sama hvar er borið niður, allir hafa rök á takteinum um að þeirra svið þoli ekki meiri niðurskurð. Þannnig er það því miður hjá öllum, en kannski frekast hjá fjölskyldufólki.

Það er því freistandi fyrir  stjórnvöld að sækja fé þangað sem þau telja minnsu fyrirstöðu vera, til þeirra sem ekki eru í aðstöðu til að verja sig. En þetta getur orðið stjórnvöldum dýrkeypt.

Nú, þegar stjórnarandstaðan stendur vopnlaus út á miðju túni, lömuð og áttavillt eftir útspil stjórnarinnar í málefnum skuldugra heimila, færa sömu stjórnvöld stjórnarandstöðu nú vopn sem bæði eru bitsterk og leiðbeinandi fyrir þetta áttavillta fólk.  Vopn í formi þess að ráðast gegn því fólki sem minnst má sín. Þar breytir engu þó þessi skerðing bitni mest á þeim sem kannski hellst hafa efni á skerðingu, innan þessa hóps. Fyrir stjórnarandstöðuna er það málaflokkurinn sem ræður.

Ef ekki er hægt að finna þessar 600 milljónir annarstaðar en hjá barnafólki, er fyllilega réttlætanlegt að slá af kröfunni um hallalaus fjárlög og leggja til halla á þeim upp á þessar 600 milljónir.  Eftir sem áður væri verið að sýna hér viðsnúning í hagstjórn, eftir fjögurra ára sukk vinstri flokkanna.

 

 


mbl.is Hagræða til heilbrigðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Gunnar, þú áttar þig væntanlega á því að vaxtabætur eru ekkert annað en niðurgreiðsla á verðtryggingu?  Nú þegar stigin hafa verið skref til afnáms verðtryggingar þá er eðlilegt að vaxtabætur verði afnumdar í áföngum. Varðandi barnabætur þá eru þær félagslegt úrræði og ekki eðlilegt að stjórnmálamenn úthluti þeim með lagaheimildum í fjárlögum. Miklu nær er að lækka neyzluskatta til að hjálpa fólki með stórar fjölskyldur.  Og þú þykist vera hægri maður!!  svei

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.12.2013 kl. 09:15

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Jóhannes, vaxtabætur, barnabætur og reyndar flest er snýr félagslegum úrræðum og bótum, hverju nafni sem þær nefnast eða í hvaða mynd þær eru, tengjast á einn eða annan hátt kjarasamningum.

Hitt get ég tekið undir að það er spurning hversu mikið stjórnvöld eigi að skipta sér af þeim málum. En það sem gert hefur verið verður ekki afnumið án þess að þessir hlutir skarist. Að nýta síðan þessi atriði til jöfnunar á fjárlögum er ósiðlegt.

Hægri eða vinstri er afstætt hjá einstaklingum, þó vissulega megi tengja þau hugtök stjórnmálaflokkum. Sjálfur tel ég mig hvorki til vinstri né hægri, áskil mér rétt til að skoða hvert mál út frá eigin samvisku. En ég get vissulega sagt að sú vinstristjórn sem hér réð ríkjum síðasta kjörtímabil olli mér miklum vonbrigðum. Taldi að meðal þeirra flokka sem þá voru við völd væri fólk sem hefði kjark og þor og vissulega voru til slíkir einstaklingar í þeim hóp. Þeim var hins vegar úthýst af kjarkleysingjunum og amlóðunum sem höfðu tögl og haldir innan þessara tveggja flokka.

Ég taldi reyndar að þarna væri ekki um að ræða pólitíska hræðslu, en þó verður að segja að núverandi stjórnarandstaða gerir þó lítið til að sanna þá kenningu mína. Þar einungis horft til vandamálanna, ekki lausnanna. Hræðslan er skynseminni yfirsterkari. 

Gunnar Heiðarsson, 9.12.2013 kl. 11:08

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Held það sé tímabært að vinda ofan af þessari sósialiseringu Gunnar.  Ég tel Sjálfstæðisflokkinn stærsta jafnaðarmannaflokk Íslands svo ekki setja mig í bás.  Því ekki er ég að verja þessa stjórn og ég geri mér ekki miklar vonir um breytingar.  En ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að skipta sér af kjarasamningum. Sú þróun er orðin að helstu orsök ójafnvægis í efnahagsmálum, framúrkeyrslu á fjárlögum og skuldasöfnun ríkissjóðs. Ríkisstjórnin ætti að gera það að forgangsmáli að laga gjaldmiðilinn svo sama verðmæti gilti fyrir alla.  Til dæmis með því að taka upp Nýkrónu.  Og láta aðila vinnumarkaðarins um lausn á kjaradeilum

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.12.2013 kl. 11:56

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Við erum þá sammála um að kjarasamninga eigi að gera milli atvinnurekenda og launþega og að stjórnvöld haldi sér þar utan. Það er hins vegar einn hængur á en það er forusta launþega og reyndar einnig atvinnurekenda.

Við getum einnig verið sammála um að vinda þurfi ofanaf þeirri þróun sem staðið hefur allt of lengi, styrkjaþróuninni. En það verður ekki gert einhliða, nema að svo litlu leyti. Þau atriði í styrkjakerfinu sem til eru komin vegna kjarasamninga verða ekki tekin af nema laun hækki. Þau komu til svo hægt væri að ganga frá samningum og oftast vegna þess að ekki náðist saman um launalið.

Gunnar Heiðarsson, 9.12.2013 kl. 12:04

5 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Hvernig væri að hætta að borga barnabætur ef heimilið er með 1 miljón í tekjur á máuði eða árstekjur 12 miljónir.

Það mætti hafa þetta 100% barnabætur til kanski 300 þúsund heimilis mánaðartekjur og minka prósentuna því nær sem tekjur heimilisins nálgast 1 miljón mánaðartekjur.

Mér finnst algjör óþarfi að greiða barnabætur til heimila sem eru með tugi miljóna í tekjur.

Það mætti skoða aðrar bætur sem Ríkið lætur af hendi ti heimila sem hafa tugi miljóna í laun, svo sem fæðingarorlofsbætur.

Það er rétt ábending hjá Jóhannesi að þegar verðtryggingin er afnumin, þá hafa vaxtabætur engan rétt á sér, enda settar á til að koma til móts við hækkun verðtryggðra lána.

Kveðja frá Houston.

Jóhann Kristinsson, 9.12.2013 kl. 13:51

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Eins og ég segi í bloggi mínu er merkilegt hvernig stjórnvöldum tekst að færa stjórnarandstöðunni vopn í hendur. Framsetning þessara tillagna er með þeim hætti að stjórnarandstaðan á auðvelt með að nýta sér þær til niðurrifs.

Ég segi einnig í blogginu að jafnvel þó þessar tillögur muni lenda á þeim sem hellst geti tekist á við skerðingar, en að það muni engu skipta í umræðu stjórnarandstöðu. Hún mun nota málaflokkinn, ekki hvernig skerðingin skiptist innan hans.

Þetta segir ekki að ég sé á móti því að þessi skerðing komi til, nema auðvitað að því marki sem þetta snýr að kjarasamningum.

Sem dæmi um hvernig þetta mun koma niður á barnafjölskyldur þá var gert ráð fyrir 19 milljörðum og 625 milljónum til vaxtabóta og barnabóta. Ef tillaga fjárlaganefndar nær fram mun þessi upphæð verða 19 milljarðar og 325 milljónir. Skerðingin verður því  um 1,5% og munöll leggjast á þá sem mestu tekjurnar hafa innan þessa hóps.

Þetta er því í anda þess sem þú nefnir Jóhann, þó mikið vanti upp á að skerðingin nái þinni hugsun. 

Þetta segir okkur að stjórnvöldum hefði verið í lófa lagið að setja þessar tillögur fram með þeim hætti að stjórnarandstaðan væri áfram vopnlaus og áttavillt út á túni!

Við skulum svo skoða afnám vaxtabóta að fullu þegar verðtrygging hefur verið afnumin. Reyndar verður enn og aftur að nefna tengsl við kjarasamning í því máli, enda þetta samtvinnað. Ef ljóst er að hægt verði að afnema vaxtabætur í tengslum við afnám verðtryggingar, án þess að nokkur hljóti skaða af, þarf auðvitað ekki að tengja það kjarasamningum, en einhvernveginn tel ég að vextir muni verða nokkuð háir eftir afnám verðtryggingar. Það er því spurning hvort ekki verður jafn mikil þörf fyrir vaxtabætur þó verðtrygging verði afnumin.

Ég hef á tilfinningunni að þið séuð að rugla saman vaxtabótum og sérstökum vaxtabótum, sem settar voru til að vega á móti verðtryggingunni. Þær eru fallnar úr gildi.

En auðvitað eiga lægstu laun bara að vera með þeim hætti að ekki sé þörf á svona aumingjagreiðslum. Þannig væri allt heilbrigðara og betra.En til að svo geti orðið þarf að taka til í fyrirtækjarekstri hér á landi. Það eru allt of mörg fyrirtæki sem fá að starfa þó stjórnun þeirra sé í molum og þau ekki geta greitt mannsæmandi laun. Það eru einmitt þessi illa reknu fyrirtæki sem alltaf er miðað við þegar talað er um getu til launahækkanna, þó vitað sé að heildin af fyrirtækjum landsins séu vel rekin og geti hæglega borgað meira. Enda er launaskriðið skýrt dæmi um það!!

Gunnar Heiðarsson, 9.12.2013 kl. 15:37

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það var smá reikniskekkja hjá mér. Það var gert ráð fyrir að greiðslur til vaxtabóta og barnabóta yrðu 19 milljarðar og 625 milljónir, en verða samkvæmt tillögu fjárlaganefndar 19 milljarðar og 25 milljónir. Skerðingin er því um 3% og mun öll leggjast á þá sem best standa innan þessa hóps. Þeir sem minnstu tekjurnar hafa munu ekki verða varir við þessa skerðingu.

Gunnar Heiðarsson, 9.12.2013 kl. 15:44

8 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Það má deila um hvernig bætur er framkvæmdar, en mér finnst algjör óþarfi að greiða bætur með multimiljónamæringum eins og Björgólfs fólki og Jón ásgeirs fólki eða bara Má Seðlabankastjóra til dæmis.

Vextir koma til með að vera háir til að byrja með meðan markaðurinn er að ná jafnvægi vegna græðgi banka og lánastofnana. En eftir spurn og framboð á peningum kemur þessu í lægri vexti.

Þetta er minn bræðingur sem mér finnst sanngjarn eins og málin standa í dag Gunnar og sjálfsagt hafa menn mismunandi skoðun á því.

Sem sagt; hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda, en ekki þá sem eyða bótunum í ferðalög til Spánar og mat og drykki þar.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 10.12.2013 kl. 05:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband