Hvers vegna er andstaða við leiðréttingu lána heimilanna ?
25.11.2013 | 22:01
Mér er útilokað að skilja hvers vegna það er til fólk sem er á móti leiðréttingu lána heimila landsins.
Auðvitað er skiljanlegt að stjórnarandstaðan sé á móti, enda þarna verið að gera það sem fyrri ríkisstjórn átti að framkvæma en þorði ekki. Það er því ekki undarlegt að þeim flokkum svíði að sjá að hægt sé að fara þessa leið og telji henni allt til foráttu. Sú andstaða er bara viðurkenning á eigin getuleysi fyrri stjórnarflokka, getuleysi og kjarkleysi gagnvart fjármagnsöflunum, eins og svo vel sást á síðasta kjörtímabili.
En hvers vegna eru bankar og lánastofnanir á móti þessari leiðréttingu? Það liggur fyrir að flóð gjaldþrota mun skella á fjölskyldum landsins verði ekkert að gert. Ekki er séð að bankar og lánastofnanir geti lifað af slík fjöldagjaldþrot. Því ættu þessar stofnanir að fagna hverri þeirri aðgerð sem gerir fólki kleyft að standa við sínar skuldbindingar, hverri þeirri aðgerð sem gæti minnkað hættuna á fjöldagjaldþrotum. Þetta er í raun grunnur þess að bankar og lánastofnanir fái lifað áfram.
Enn óskiljanlegra er að forusta atvinnulífsins skuli vera á móti þessum aðgerðum. Leiðrétting húsnæðislána upp á allt að 200 milljörðum króna jafngildir um 4% kjarabót fyrir launþega. Ef ekkert er að gert þarf hins vegar að hækka laun um rúm 11%, til þess eins að vega upp á móti aukinni afborgun lána. Að öllu jöfnu hefði maður haldið að þetta mál væri gott innlegg í kjarasamninga, jafnvel svo að aðilar vinnumarkaðarins ættu að hafa það sem kröfu á stjórnvöld að þau ynnu hratt að þessu máli.
Það mætti halda að þeir sem á móti leiðréttingu eru, hafi einfaldlega ekki kynnt sér málið sem skyldi. En það er vart hægt að trúa að bankar og lánastofnanir, eða aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki gert slíkt. Sé svo er ljóst að þar fara menn sem eru ekki hæfir til þeirra verka sem þeir sinna.
Þau rök sem heyrst hafa gegn leiðréttingu húsnæðislána eru flest byggð á sandi. Fyrir það fyrsta gefa menn sér einhverjar forsendur sem ekki eru til staðar og flytja mál sitt út frá því. Öll umræðan um þetta mál af hálfu þeirra sem á móti eru byggir á slíkum málflutningi, auk þess sem útilokað virðist vera fyrir það fólk að skoða málið frá báðum hliðum. Einungis er skoðaðir gallar slíkrar aðgerðar en alveg látið hjá líða að skoða kostina. Þá hefur engum dottið í hug að pæla í hvað skeður ef ekkert er að gert.
Ekki ætla ég að nefna alla þá þúsundir milljarða sem þegar hafa verið afskrifaðir til fyrirtækja og velunnara bankanna, ekki að nefna þá 500 milljarða sem lífeyrissjóðirnir töpuðu í hruninu, ekki að nefna þá 400 milljarða sem lagðir voru á almennig til endurreysnar bankakerfisins. Um þessi atriði og fleiri hef ég oft áður ritað og sleppi því nú. Þessar upphæðir allar þarf þó að hafa í huga þegar verið er að ræða leiðréttingu lána þúsunda heimila, leiðréttingu sem hugsanlega gæti talist vera nærri 200 milljarðar, leiðréttingu sem að stæðstum hluta er einungis breyting í bókhaldi og hleypir tiltölulega litlu fjármagni út í hagkerfið. Þarna þarf að bera saman annars vegar fáa einstaklinga sem hafa fengið nokkra þúsundir milljarða í afskriftir versus tugi þúsundir fjölskyldna sem munu samanlagt fá leiðréttingu sem bókhaldslega getur talist allt að 200 milljarðar.
Hins vegar má spyrja stjórnarandstöðuna að því hvernig hún geti metið það sem stór hættu fyrir þjóðfélagið að leiðrétta lán heimila um nærri 200 milljarða. Þetta sama fólk taldi ekkert til fyrirstöðu að skrifa undir óútfylltann víxil sem enginn gat sagt til um hvað myndi kosta. Þar var rætt um fjárhæðir sem voru margfallt hærri en ætlað er til heimila, en samt þótti það ekki tiltölumál.
Hvað það er sem fær fólk til að vera á móti þessum aðgerðum er mér að öllu hulið. Ef maður vissi ekki betur gæti maður haldið að þetta væri bara einföld mannvonska. En þá skýringu er vart hægt að taka trúanlega, þó hugsanlega séu til menn í þessum hóp sem láta slíka hugsjón ráða för.
En á heildina litið er ekki hægt að segja að mannvonnska ráði þarna för. Þá er eftir einfaldleikinn, að þeir sem halda uppi þessari umræðu gegn leiðréttingum séu svona einfaldir. Að þeir láti segja sér fyrir verkum án þess að skoða málið.
Þannig fólki er vorkun!!
Athugasemdir
Útskýrðu fyrir mér hvernig fjölskylda sem bjó í leiguhúsnæði og fær ekkert geti talist hafa fengið 4% launahækkun? Og hvað tapar sú fjölskylda miklu ef launahækkanir verða 4% lægri því eins og þú segir þá á þessi skuldaleiðrétting að spara launagreiðendur þeirri hækku. Svo segðu mér, sem væri ekkert á móti því að fólk fái leiðréttingu en ég vil ekki að þetta verði notað til að kæfa launahækkanir.
Brynjólfur Tómasson, 25.11.2013 kl. 23:29
Ekki ætla ég að gera lítið úr vanda þeirra sem búa í leighúsnæði, Brynjólfur.
En hitt er staðreynd að það fólk hefur ekki orðið fyrir eignaskerðingu vegna stökkbreytingu húsnæðislána. Það fólk hefur ekki þurft að horfa á eftir ævisparnaði sínum til bankanna á sama tíma og lánin hafa hækkað um tugi prósenta umram laun.
Eins og ég sagði áður vil ég ekki gera lítið úr vanda þeirra sem búa í leiguhúsnæði. Vandi þeirra er virkilega stór, en kannski mest hversu mikið leigan hefur hækkað. Leiðrétting húsnæðislána ætti að leiða til lækkunnar leiguverðs, það er rökrétt staðreynd.
Um að þessi lausn muni að einhverju marki koma í stað launahækkunnar hef ég ekki sagt, enda margt fleira sem spilar þar inní. Það sem ég er að segja er að leiðrétting lána mun jafngilda 4% launahækkun en ef ekkert er að gert mun þurfa rúmlega 11% launahækkun, einungis til að dekka hækkun afborgana þessara lána. Hver nákvæmlega kjarabótin er fyrir þá sem búa í leiguhúsnæði get ég ekki sagt til um, en gera má ráð fyrir að hún yrði ekki minni en hjá hinum. Lækkun leigu er einhver besta kjarabót sem það fólk gæti fengið.
Það eru svo aðrir punktar, eins og almenn verlagshækkun sem ræður hvað samið er um í kjarasamningum.
Þetta ætti þó að liðka til við gerð þeirra samninga.
Gunnar Heiðarsson, 25.11.2013 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.