Hvaða launaskrið ?
22.11.2013 | 11:49
Hvar verður þetta launaskrið til? Hverjir eru að fá svona miklar hækkanir? Hvers vegna fær það fólk svona miklu meira en almenningur?
Sjálfur fékk ég launahækkun upp á 3,25% þann 1. febrúar síðastliðinn, eða um 6.000 kr. Það er eina launahækkunin sem ég hef fengið síðustu tólf mánuði, enda ekki um aðrar hækkanir að ræða í almennum kjarasamningum. Launaskrið mitt síðustu tólf mánuði er því 3,25%, eins og hjá þeim tugþúsunda launþega sem vinna samkvæmt kjarasamningum.
Að launavísitalan skuli hafa hækkað um 6% á sama tíma og kjarasamningar gáfu 3,25%, segir að einhverjir hafa fengið mun miklu meira. Þar sem lang stæðsti hluti launþega vinnur samkvæmt kjarasamningum, hljóta þær hækkanir að vera töluverðar.
Það er full ástæða til að skoða þetta mál, finna hvar þetta launaskrið verður til. Ekki er það hjá almennum launþegum, svo mikið er víst. En hvar þá?
SA býður 2% launahækkun. Það boð er auðvitað ekki svaravert. En það er í raun sama hvað samið verður um, ef ekki tekst að finna hvar launaskriðið á sér stað og stöðva það mun launavísitalan væntanlega alltaf hækka hraðar en sem nemur þeim launahækkunum sem samið verður um í kjarasamningum.
Þorsteinn Víglundsson hefur áhyggjur af verðbólgu. Hann er ekki einn um það. Fyrir launþega er verðbólga sennilega verri draugur en fyrir fyrirtæki landsins. Fyrirtækin hafa stjórnlaust hleypt verðhækkunum út í þjóðfélagið, eftir því sem verðbólgan eykst, meðan launþeginn er bundinn kjarasamningum og getur ekki borið hönd yfir höfuð sér. Þorsteinn er á rangri leið í sinni baráttu.
Hann einblýnir á kjarasamninga, þó víst sé og sannað að þeir eiga ekki þátt í launaskriðinu. Hann horfir framhjá þeirri staðreynd að launaskrið á ekkert skilt við kjarasamninga. Þar er sökudólgurinn annar og kannski nær Þorsteini en hann vill viðurkenna. Enginn fær launahækkun nema eigandi eða stjórnandi fyrirtækis gefi fyrir því samþykki, svo víst er að vandinn liggur þar, ekki hjá launþegum. Það eru eigendur eða stjórnendur sem hafa gefið leifi fyrir launahækkunum umfram kjarasamninga og skapað það launaskrið sem þeir nú óttast svo mjög. Þeir hafa því sjálfir magnað þann draug sem ásækir þá og alla landsmenn.
En það er fleira sem magnar þann draug. Þar má telja fjölda atriða sem eiga þó það sammerkt að launþegar ráða þar engu. Óstjórnlegar hækkanir á vörum og þjónustu eru gerðir umbjóðenda Þorsteins. Stjórnmálamenn eiga sök á skattahækkunum og gjaldskrárhækkunum ríkis og bæja. Þannig mætti lengi telja, en 3,25% launahækkun síðustu tólf mánuði, samkvæmt kjarasamningum, á ekki sök á því hvernig komið er.
Þorsteinn kemur fram í fjölmiðla og þykist ábúðafullur horfa til framtíðar í næstu kjarasamningum. Allir horfa til framtíðar við gerð slíkra samninga, en einnig til fortíðar. Framtíð verður aldrei metin án þess að skoða fortíðina og hvernig hefur til tekist. Það er enginn núllpunktur til og allra síst í kjarasamningum.
Því verður Þorsteinn að sýna fram á að hann hafi stjórn á sínum umbjóðendum, áður en hann telur sig geta stjórnað öðrum. Það er með þetta eins og svo margt annað að málshátturinn um flísina og bjálkann á vel við.
Það sem vantar í þessa frétt er hver verðbólgan hefur verið þessa tólf mánuði sem launavísitalan fór upp um 6%, á sama tíma og kjarasamningar gáfu 3,25%. Samkvæmt upplýsingum frá SÍ er mæld verðbólga síðustu 12 mánuði 3,6%. Þetta segir að laun samkvæmt kjarasamningum hefur ekki haldið í við verðbólgu, yfir þetta tímabil. Þorsteinn vill að launþegar taki enn frekari skerðingu á sig.
Nú vita allir að fyrirtæki eru ekki rekin á launagreiðslum einum saman. Því má segja að 3,25% launahækkun ætti að geta af sér rétt um 1% verðbólgu. Það er fáráðnlegt að halda því fram, eins og skilja megi á auglýsingu SA, að hvert prósent sem laun hækka leiði af sér sama prósent í aukinni verðbólgu. Þeir sem svoleiðis tala eiga einfaldlega bágt.
Leitum orsaka verðbólgunnar, finnum sökudólgana. Þeirra er ekki að leyta meðal launþega. Vænlegra er fyrir Þorstein að leita í eiginn ranni. Þar er upptaka verðbólgunnar fyrst og fremst að finna, bæði í launaskriði umfram kjarasamninga sem og í stjórnlausri álagningu fyrirtækja á sínum vörum og þjónustu. Þá getur hann snúð sér að versuninni og krafið hana um hófsemi í álagningu. Einnig gæti hann reynt að fá stjórnvöld til að flýta því verki að snúa ofanaf þeirri skattpíningu sem fyrri stjórnvöld stóðu að.
Ef ná á kjarasamningum verða forsvarsmenn SA að fara að vinna sína vinnu. Hún felst ekki í hræðsluáróðri í auglýsingatímum sjónvarps, heldur tiltekt á eigin heimili!
Launavísitalan hefur hækkað um 6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll.
Skv. frétt VR frá því í september hækkuðu laun félagsmanna þeirra um 6,9% frá janúar 2012 til janúar 2013. Inni í þeirri hækkun var 3,5% kjarasamningsbundin hækkun í febrúar árið 2012. Félagsmenn VR nutu því launaskriðs umfram kjarasamninga á tímabilinu. Það sama á að öllum líkindum við núna.
Hjá Hagstofunni eru reyndar ekki enn komnar tölur fyrir 3. ársfjórðung 2013, en á 2. ársfjórðungi höfðu laun hækkað um 6,1% frá síðasta ári og skiptist sú hækkun niður á starfsstéttir með eftirfarandi hætti:
7,7% - Skrifstofufólk
7,2% - Sérfræðingar
7,0% - Þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk
6,1% - Tæknar og sérmenntað starfsfólk
5,9% - Verkafólk
5,5% - Stjórnendur
5,1% - Iðnaðarmenn
Verðbólga á þessu tímabili var 3,6% þannig hér sést vel að allar starfsstéttir landsins hafa notið launahækkana langt umfram verðbólgu. Allt tal um vondu kallana sem njóta góðs af launahækkunum á kostnað góðu kallana er því ekkert annað en tóm þvæla!
Atli Bjrnason (IP-tala skráð) 23.11.2013 kl. 01:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.