Þjóðarsátt öreiganna

Hún er frekar ósmekkleg auglýsingin sem Samtök atvinnulífsins útvarpa á sjónvarpsstöðum um þessar mundir. Þar er kallað eftir þjóðarsátt og færð rök fyrir nytsemi hennar. Það ósmekklega við þessa auglýsingu er að þeir sem standa fyrir henni, eigendur og forstjórar fyrirtækja, hafa sjálfir skammtað sér vænar launahækkanir. Þetta sást best þegar kjararáð úrskurðaði um launahækkanir til stjórnenda fyrirtækja í ríkisrekstri. Þann úrskurð byggði nefndin á hækkun launa í sambærilegum störfum á almennum markaði, samkvæmt þeim lögum sem henni er ætlað að vinna eftir. Sá úrskurður gaf t.d. seðlabankastjóra launahækkun á mánuði upp á rúmar 250.000 kr. Lægstu laun verkamanns eru innanvið 200.000 krónur á mánuði, þannig að launahækkunin ein er meiri en heildarlaun verkamannsins. Nú vinnur þessi maður hörðum höndum fyrir fjármagnsöflin að því að verkamaðurinn fái einungis tæpar 5.000 króna hækkun á mánuði, að launþeginn sætti sig við 2% launhækkun meðan hann sjálfur þyggur 20%! Hann veit sem er að þeir sem honum stjórna munu sjá til þess að kjararáð eigi ekki annara úrkosta en að hækka hans laun verulega, næst þegar það úrskurðað verður um þau.

En nú á sem sagt að koma á þjóðarsátt. Og auðvitað eiga öreigarnir að standa undir henni, eins og öðru sem miður fer. Allt er dregið fram til að rökstyðja þá gerð. En rökstuðningurinn er veikur. Verðbólgan er ekki vegna hárra launa almennings, ekki vegna þess að almennir kjarasamningar hafi gefið svo mikið. Ástæðan er einföld. Ekkert fyrirtæki byggir eingöngu á launakostnaði, svo útilokað er að segja að ákveðin prósenta launahækkunnar leiði af sér sömu prósentu hækkunnar verðbólgu.

En hverjar eru þá ástæður verðbólgunnar? Launaskrið einstakra sjálftökuhópa í þjóðfélaginu? Óheft og glæpsamleg álagning verslunar og þjónustu? Háir skattar? Háir stýrivextir?

Það er vitað að launaskrið sjálftökuhópa í þjóðfélaginu hefur leitt til þess að meðaltalslaun í landinu hafa hækkað um 17%, meðan almennir kjarasamningar hafa hækkað laun um 11,4%. Á sama tíma er mæld verðbólga hjá Hagstofunni nálægt 13%. Þarna er kannski einhver sök. Til að fámennur hópur sjálftökumanna geti náð að hækka meðaltalslaun um 50% umfram þær hækkanir sem fjöldinn fær, þurfa þær launahækkanir að vera nokkuð miklar.

Verslun og þjónusta telur sig utan alls sem kallast ábyrgð. Þar á bæ er einskis svifist til að mergsjúga almenning. Ekkert eftirlit og engin höft hafa gert þessari grein lífið létt. Verslun og þjónusta, ásamt bankakerfinu hefur náð ótrúlegum vexti frá hruni. Þetta er undarlegt í þjóðfélagi stöðnunar. Hvernig má það vera? Eitt lítið dæmi ætla ég að nefna um siðleysi verslunar. Tengdafaðir minn keypti nokkrar skrúfur fyrir mánuði síðan, hjá sérverslun með slíka hluti. Þá kostaði hver skrúfa um 40 kr/stk, í gær vantaði honum fleiri skrúfur og fór því aftur í sömu verslun. Nú kostaði hver skrúfa 48 kr/stk, hækkun upp á 20% á einum mánuði. Vinur hans sagði honum að sérverslanir væru dýrari, hann skyldi athuga hjá lágvöruversluninni Bauhaus. Þangað fór hann, en þar var ekki hægt að kaupa þessar skrúfur í stykkjatali, einungis heilann pakka. Og pakkinn, sem innihélt 50 stk kostaði 7.000 kr eða 140 kr/stk. Þetta er bara lítið dæmi en segir hvernig verslun á Íslandi stundar sín viðskipti. Það mætti einnig nefna hvernig þessi grein hagaði sér fyrst eftir hrun, þegar verðskrár voru færðar yfir í evrur og dollara. Enn stunda sum fyrirtæki í þessum rekstri þennan blekkingaleik og vísa til þess að þetta verði að gera vegna erlendra ferðamanna. Fleira ljótt má telja í fari þessarar greinar. Svo kalla forsvarsmenn SVÞ eftir þjóðarsátt!!

Síðasta ríkisstjórn var óvægin í skattlagningu. Menn geta deilt um hvort sú skattlagning hafi í einhverjum tilfellum verið haldið frá þeim sem minna mega sín en hærri af hinum. Hitt ættu allir að sjá að það er sama hvar skatturinn er lagður, það er alltaf á endanum neytandinn sem borgar hann. Þessu þurfa stjórnvöld að vinda ofanaf. Það sem gert hefur verið er svo sem ágætt, en meira og sýnilegra þarf til. Skattahækkun leiðir til aukinnar verðbólgu og víst er að hluta vandans má sækja þangað.

Stýrivöxtum SÍ er ætlað að stjórna verðbólgu. Ekkert tæki er þó afstæðara í þjóðfélagi þar sem stæðsti hluti langtímalána og mikill hluti styttri lána er verðtryggður. Við hækkun stýrivaxta hækkar kostnaður fyrirtækja og þann kostnað setja þau út í verðlagið. Þetta leiðir til þess að verðlag hækkar og lán almenning hækka. Því má kannski segja að Már og félagar í Svörtuloftum ættu að taka fyrsta skrefið í þjóðarsáttinni og lækka stýrivexti verulega. Það yrði til þess að krafan á verslun og þjónustu um lækkun yrði auðveldari. Þá væri hugsanlegt að fara að ræða þjóðarsátt, ekki fyrr.

Til að þjóðarsátt geti orðið að veruleika og í raun er sú lausn eina raunhæfa framsóknin hér á landi, þarf að byrja ofanfrá. Að byrja á þeim sem raunverulega hafa áhrif á verðbólguna, en enda á botninum, launþegum. Auðvitað þarf að leiðrétta fyrst það órétti sem launþegar hafa orðið fyrir. Til þess eru tvær leiðir, önnur að taka til baka þær hækkanir sem þegar eru orðnar, en hin að hækka verulega laun þeirra sem verða að sætta sig við að fá greitt eftir almennum kjarasamningum.

Að ætla almenning, öreigum þessa lands, að taka á sig að standa undir þjóðarsátt, ofaná þær byrgðar sem á það var sett til að byggja upp bankakerfið, er útilokað. Þar er einfaldlega ekki innistæða hjá fólki til að bæta þeirri kvöð á sig. Nóg er samt.

Ef hins vegar byrjað verður á toppnum og menn sýni að þar sé vilji er til að taka þátt í slíkri leið, er öruggt að launþegar munu ekki hlaupast undan sinni skildu.

 


mbl.is Hafa áhyggjur af verðbólgunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skýr og fín greinargerð, Gunnar.

Þjóðólfur (IP-tala skráð) 21.11.2013 kl. 10:54

2 identicon

Feikigóð grein langar þó að benda á eitt atriði.

Vegna þess að erfitt gæti orðið að knýja fram launalækkun hjá sjálftöku og launaskriðshópum þá getur/verður ríkið að koma inn í kjaraleiðréttingu neðri hópanna. 

Trúlega er einfaldasta leiðin sú að hækka skatta á efri hópana og hækka persónufrádráttinn.

Már talar um að Seðlabankinn horfi á launaþáttinn sem eina heild en síður á hvernig skiftingin sé innan hópanna. 

Skattahækkun á efri hlutann (m.a. Má sjálfan)  gefur tekjur í ríkissjóð til að hækka persónufrádrátt sem kemur neðri lögunum til góða.  Heildar útkoman frá launþegum verður því null á hagkerfið.

Ríkisvaldið á ekki að skirrast við að skattleggja launaskrið og sjálftöku og veita því til lágtekjuhópa til að halda verðstöðugleika. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki borið þar við hinum venjulegu rökum að skattahækkun dragi úr eftirspurn þar sem eftirspurnin sú kemur í staðinn frá neðri þrepum launastigans.

Þarna þarf verkalýðshreygingin að standa í lappirnar en til þess er að vísu lítil von því innan hennar eru hátekjuhópar sem hafa eins og tölur sýna fengið kjarabætur í verðbólgunni frá neðri hlutanum. 

M.ö.o. Gylfi stendur á móti Villhjálmi.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 21.11.2013 kl. 12:11

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk Bjarni.

Það er vissulega erfitt að lækka laun þeirra sem þegar hafa fengið hækkun. Það eru þó til fordæmi þess. Vorið 1990, þegar Einar Oddur barðist fyrir þjóðarsátt, var slík lækkun gerð. Þá höfðu sum fyrirtæki í stóriðju gert kjarasamning um áramótin á undan og þeir samningar voru nokkuð hærri en þjóðarsáttarsamningar hljóðuðu uppá. Til að fá sátt um sáttina voru starfsmenn þessara fyrirtækja settir upp við vegg og gert að samþykkja launalækkun, þá upp á 10%. Þetta var forsenda þess að þjóðarsáttin varð að veruleika. Ég var á þessum tíma starfsmaður í einu þessara fyrirtækja og trúnaðarmaður starfsmanna og tók þetta mig sárt. Eftir á sá ég að þetta var þess virði.

En Einar Oddur vann málið ofanfrá. Fyrst tryggði hann að stjórnendur og eigendur fyrirtækja sæju svo um að ekkert launaskrið umfram samninga yrði innan þeirra, hann náði sátt við verslun og þjónustu um að koma heilshugar að málinu, hann gerði stjórnvöldum grein fyrir mikilvægi þess að þau spiluðu með og að engar gjaldskrárhækkanir á vegum ríkis og bæja yrðu gerðar. Þegar þessu var lokið var sest með launþegum og gerð sátt. Síðasti kubbur þess púsluspils var lækkun launa starfsmanna í stóriðju.

Ég er ekki talsmaður margþrepa tekjuskatts. Tel það ekki lausn. Þá tel ég að stjórnvöld eigi ekki að eiga aðild að kjarasamningum nema í neyð. Ástæðan er einföld, ríkisstjórnir koma og fara, en kjarasamningur er langtímaplagg. Oftar en ekki hafa nýjar ríkisstjórnir afnumið atriði sem eldri ríkisstjórnir hafa komið með til kjarasamninga. Síðasta ríkisstjórn gekk kannski lengst á því sviði.

En vissulega kemur oft upp sú staða að ekki nást samningar nema með afskiptum stjórnvalda. Þá er eitt verkfæri sem þau geta beytt og allir eru sammála um að hjálpi mest þeim sem minnst hafa án þess að hægt sé að tala um mismunun. Það er hækkun persónuafsláttar. Ekkert er eins einfallt og gagnsætt til hjálpar lausn kjaradeilna.

Ég vil sem minnst ræða Gylfa Arnbjörnsson, tel hann ekki þess virði. Þó verð ég að segja að ég hélt eitt andartak að hann hefði eitthvað rumskað, þegar ég las eyjan.is áðan. Þar var frétt þar sem hann ásakar SA um sögufölsun í þeirri auglýsingu sem SA sendir nú yfir landsmenn. Þetta leiddi til þess að ég las þessa frétt, en vonbrigðin voru mikil.

Svikin að mati Gylfa fólust í því að SA nefndi ekki ágæti aðildar að ESB fyrir launþega. Hann nefndi ekki að almennir kjarasamningar væru ekki orsök verðbólgunnar og tók því í raun undir með SA, heldur sárnaði honum að vinir hans innan SA skyldu ekki nefna ágæti ESB aðildar.

Ég hefði betur sleppt því að lesa þessa frétt, álit mitt á þessum manni er ekki svo mikið að eyðandi sé orðum á hann né tíma til að lesa skrif hans!!

Gunnar Heiðarsson, 21.11.2013 kl. 12:42

4 identicon

Fróðlegt að heyra þetta um Einar Odd. Hans hlutur í þjóðarsáttinni hefur verið mun meiri en ég gerði mér grein fyrir.

Sem bóndi þá horfi ég nokkuð á verkalýðs/atvinnurekendur dæmi af hliðarlínunni. Verkföll eru nokkuð sem mér hugnast engan veginn.

Það breytir þó ekki því að ég held að fólk sem hefur orðið að sæta kjararýrnun vegna þess að taxtarir fylgja ekki verðlagi, eigi nú að bíta í skjaldarrendur og fylkja sér á bak við menn eins og Villhjálm Birgirsson en hrista af sér óþurftarlið eins og Gylfa, og krefjast leiðréttingar. Ef verkföll þarf til þá verður svo að vera.

Þessar auglýsingar frá S.A eru dæmalaus ósvífni eins og þú bendir á í pistli!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 21.11.2013 kl. 13:56

5 identicon

Ég er ekkert viss um að neitt sé við persónuna Gylfa Arnbjörnsson að athuga, svona þannig séð.    Miklu fremur er hann persónugerfingur ákveðins klofnings í hagsmunabaráttu launafólks.

Eins og þú bendir á þá hafa sumir launamenn notið launaskriðs á kostnað annara sem ekki fá leiðréttingu raunlauna því leiðréttingin myndi valda verðbólgu - af því að launaskriðið hefur orðið.

Þannig standa launamenn á móti launamönnum en eru þó að nafninu til  í sama liði hvar liðstjórinn er Gylfi.

Á sama hátt eru það meintir hagsmunir launamanna að lífeyrissjóðirnir hafi það sem best.  En heilsufar lífeyrissjóðanna á miklu meira sameiginlegt með heilsufari bankakerfisins og fjármagnsaflanna heldur en hagsmunum sjóðfélaganna sem verðtryggingin er lifandi að drepa.

Gylfi stendur þar dyggan vörð um hagsmuni fjármálakefisins á móti launþegum.

Kanski ekki nema von að manngreyið skuli í ráðaleysi sínu einblína á eitthvað allt annað eins og ESB. 

Það má kanski segja að þessi ráðaleysisgeðkofi launþegabaráttunnar raungerist ekki einungis í Gylfa heldur í Samfylkingunni líka.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 21.11.2013 kl. 14:12

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það má segja að þjóðarsáttina 1990 megi þakka fyrst og fremst tveim mönnum, Einari Odd og Gvend Jaka. Auk þeirra kom auðvitað þáverandi forseti ASÍ að málinu og stjórnvöld. En það var fyrir tilstilli hinna tveggja að ákveðið var að reyna þessa leið. Og vissulega mæddi þetta verkefni mun meira á Einar, þar sem hann þurfti að ná til samstarfs þeim hluta hópsins sem erfiðara var að ná til, atvinnurekendum. Það kom því í hlut Einars að taka ábyrgð á að sá vængurinn stæði við sinn hluta samkomulagsins.

Sjálfur hef ég verið bóndi, Bjarni. Var bóndi á þeim árum sem uppgangur krata var sem mestur, þegar Jón Baldvin var upp á sitt besta og Vimundur Gylfason lét sem hæðs. Ég held ég hafi þá verið bólusettur fyrir lífstíð af bulli krata. Eftir síðasta kjörtímabil sá ég að full ástæða var til. Þá sannaðist hvar þessi trúarhópur vill sitja.

Það er því sárt að sjá hversu mikil völd þessi trúarhópur hefur innan verkalýðshreyfingarinnar. Og fer ekki duklt með það. Að Gylfi Arnbjörnsson skuli trekk í trekk nota stöðu sína til að útvarpa trúarlegum gildum krata er ólíðandi. Persónuna Gylfa þekki ég ekki, en verkalýðskólfinn og kratann Gylfa þekki ég. Það er nóg.

Vissulega væri óskandi að fólk flykkti sér bakvið menn eins og Villa Bigg. Þann dreng þekki ég hins vegar bæði persónulega og sem verkalýðsforkólf og satt best að segja er leitun að manni eins og honum.

Sennilega hefur sjaldan verið eins mikil ástæða og nú til að ná þjóðarsátt. Vandinn er bara að enginn þeirra sem er í forsvari fyrir atvinnurekendur er þess kostum búinn að geta leitt slíka sátt. Þaðan verður frumkvæðið að koma og þá í verki. Þjóðarsátt verður ekki gerð í auglýsingatíma sjónvarps, svo mikið er víst. Því er ég svartsýnn á framhaldið og gæti best trúað að allt muni loga hér í verkföllum að ári. Núna verða gerðir skammtíma málamyndasamningar, til að fresta vandanum. Það er það eina sem þessir menn virðast geta. En þeir samningar mun renna út og þá verður fjandinn laus!

Gunnar Heiðarsson, 21.11.2013 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband